31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil hér að gefnu tilefni af ræðu hv. 6. landsk. leyfa mér að benda á, að því lengra sem líður á þetta ágæta þing og því fleiri mál sem eru til umræðu hér, því augsýnilegra er það, hversu miklum erfiðleikum það veldur, að gerðir séu slíkir samningar sem hér hafa verið gerðir. Það hefur verið rætt um þessa samninga í sambandi við tryggingalöggjöfina. Nú kemur inn í þetta mál annað stórmál eins og verðjöfnun á olíu, sem má ekki gera nú, alveg sérstaklega af því, að samningar hafa verið gerðir fyrir utan þingið í sambandi við vinnudeilur.

Hv. þm. sagði, að það væri alveg ljóst, að ef þetta frv. yrði samþ., þá mættu viðkomandi aðilar segja upp samningum fyrirvaralaust. Þess vegna ber hann nú fram brtt., sem gengur miklu lengra en að forða því, að ekki sé sagt upp samningum, því að það er sýnilegt, að eins og till. er nú útbúin, þá gengur hún miklu lengra en að forðast þá árekstra, og er þar af leiðandi ekki hægt að samþ. hana eins og hún er, þó að þetta væri viðurkennt. Það er þá sýnilegt, að þessir samningar hafa þau áhrif, að það er ekki hægt að koma fram þessu réttlætismáli vegna þeirra samninga, sem gerðir hafa verið, án þess að Alþ. fengi að fjalla um þá, og það eitt út af fyrir sig er ákaflega alvarlegt atriði.

Hann sagði einnig, að það væri hægt að gera hér skaðabótakröfu á ríkissjóð, þó að samningunum væri ekki sagt upp. Ég skal nú ekki fara út í þá hlið málsins hér á þessu stigi, en hins vegar benda á, að framkvæmd þessarar lagasetningar gæti orðið á þann veg, að hægt væri að fyrirbyggja hvort tveggja. Það er sýnilegt, að ef hægt er að fá lækkun á benzíni og olíu úti á landinu með því að samþ. þetta lagafrv. hér, þá gæti þó a. m. k. sú lækkun gengið til þeirra, sem mundu fá hækkun við, að frv. verði samþ., á meðan samningstíminn stendur, svo að það er nú ekki.alveg útilokað að laga frv. á þann hátt, að það þurfi ekki að rjúfa samningana.

Þá sagði hv. þm. einnig, að í þriðja lagi mundi þetta verða til þess að veikja álit á ríkisstj. sem samningsaðila. Ég vil ákaflega mikið benda á það, að ég held, að það borgaði sig mjög vel fyrir hv. Alþ. að ganga svo frá þessum málum hér, að ekki nein ríkisstjórn ætti auðvelt með að gera slíka samninga, sem gripu inn í fleiri lög í landinu. Og ég teldi nú, ef þetta. er ástæðan, að þá væri það nú heldur til bóta að samþ. frv., því að það er, eins og ég tók fram áðan, sýnilega að koma í ljós, að þessir samningar valda ákaflega miklum erfiðleikum á ýmsum sviðum.

En það er enn eitt atriði, sem ekki hefur komið hér fram og ég vildi nú gjarnan að hæstv. dómsmrh. hlustaði á, ef hann hugsar sér að láta allt réttlæti ríkja í þessum málum. Og það er í sambandi við olíuskipið Þyril.

Það hafa mörg undanfarin ár verið skattlagðir ákveðnir aðilar úti á landinu á þann hátt að taka svo mikið flutningsgjald fyrir að flytja olíu frá stöðum hér við Faxaflóa út um landsbyggðina, þar sem þessir menn verða að greiða olíuna miklu hærra verði, að það hefur gefið ríkissjóði á aðra millj. kr. á hverju ári fram yfir það, sem skipið hefur þurft í nauðsynleg flutningsgjöld, og það sem verra er: Það hefur á sama tíma verið liðið, að hin sterkauðugu olíufélög hafa haldið uppi svo háum flutningsgjöldum á þessari vöru frá Reykjavík og út um landið, að þau hafa tekið, ekki sams konar gróða, heldur kannske tvöfaldan eða þrefaldan skatt af mönnum í sambandi við flutningana. Og hæstv. ríkisstj. eða hv. Alþ. hefur ekkert haft við þetta að athuga.

Ef þegar á að fara inn á að skattleggja menn, eins og hæstv. ráðh. talaði um, þá sé rétt að gera það að hinum venjulegu leiðum, þá er líka jafnframt alveg sjálfsagður hlutur að hætta að skattleggja menn úti á landsbyggðinni á þennan sérstaka hátt í sambandi við flutningana á olíunni. Það getur ekki verið nein sanngirni í því að halda fyrst og fremst áfram því kerfi að láta þá menn, sem búa úti á landinu og reka þar atvinnuvegi eins og gert er hér í kringum Faxaflóa, fyrst og fremst borga alveg nauðsynleg flutningsgjöld og ofan á það að halda úti skipi og útgerð, sem ríkið á, eins og Þyrli og á þann hátt að skattleggja um milljónaupphæðir útgerðarmenn og aðra þegna úti á landinu.

Það er alveg sýnilegt, að þeim sömu mönnum, sem ætla sér að fella þetta frv., ber bókstaflega skylda til að ganga þá frá því frv. þannig, að 1. gr. frv. a. m. k. fari í þá átt að lögbjóða, að slíkt megi ekki eiga sér stað í framtíðinni. Og ég vænti þess, að þeir menn, sem hugsa sér að setja fótinn fyrir þetta frv., sýni þá ekki einungis svo mikla sanngirni í þessu máli að taka upp baráttuna fyrir því, heldur séu og svo samkvæmir sjálfum sér í orðum og athöfnum um það að fylgja fast fram, að ekki sé verið að skattleggja neina borgara í landinu í gegnum olíusölu eins og hér er gert.

Það var alveg nýlega í fjvn. þáltill. frá einum hv. þm. um að fyrirskipa, að lækka skyldi flutningsgjald á olíu og benzíni umhverfis landið með því skipi, sem ríkissjóður hefur til þeirra flutninga. Og það var réttilega bent á það í grg. og framsöguræðu hjá hv. þm., að þetta væri engan veginn viðunandi, þessi ágóði hefði verið mörg undanfarin ár. Hann er nú látinn koma fram í að greiða stórkostlegan óþarfan og ónauðsynlegan halla, sem er á Skipaútgerð ríkisins og beinlínis stafar af því, að meiri hl. Alþingis hefur ekki viljað skipa þeim málum betur, en gert er, eins og hefur verið sýnt fram á hér í þessari hv. d. Þessi till. fékk þá meðferð í hv. fjvn., að henni er raunverulega vísað frá með þeim rökum, að nú sé verið að skipuleggja þessi mál eða koma þeirri skipun á þessi mál, að allir eigi að vera hér jafnir fyrir lögunum. Ég fullyrði það, að ef nokkur hefur búizt við því, að lítill meiri hl. í hv. Ed. mundi kúga hér stóran meiri hl. í hv. Nd., þar sem sitja 2/3 allra þm., þá hefði sú málsmeðferð ekki verið höfð á málinu eins og gert var. Og ég segi fyrir mína parta, að ég geymi mér allan rétt til þess að taka upp baráttu fyrir annarri afgreiðslu á því máli, ef það á að verða svo, að ekki sé hægt að koma fram hér þessu réttlætismáli.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, hverjir voru studdir hér fjárhagslega, þegar þáverandi hæstv. ríkisstj. stuðlaði mjög að því, að hinum íslenzku olíufélögum hér væru gefin hundruð þúsunda, tugir hundraða og milljónir í verðmætum í sambandi við olíugeymana í Hvalfirði. Ég held, að það sé alveg óhætt, að þessir menn fari að skila einhverju af þeim gróða nú í sambandi við þetta mál, og það sé ekki ósanngjarnt að breyta till. hv. 6. landsk. þm. á þann veg, að á meðan samningarnir standa milli atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda eða verkamanna í sambandi við það verkfall, sem nú er nýlega liðið hjá, þá skuli einmitt þeir sömu menn, sem fengu gefins milljóna kr. verðmæti í geymum í Hvalfirði, taka á sig kostnaðinn. Ég held, að það væri ekki fjarri sanni. Og þætti mér ekkert ólíklegt, að hv. 6. landsk. vildi vera með þeirri réttlætingu á till. Sannleikurinn er sá, að það hefur verið hlaðið undir þessa menn. Og hvað sem sagt er um þeirra fjárhag nú, þá er það alveg víst, að það hefur verið hlaðið undir þessa menn þannig, að það er þeim engin ofraun að standa undir þessum kostnaði, sem þarf til þess að dreifa olíunni, meðan samningarnir gilda, því eins og hv. þm. tók fram, þá gilda þessir samningar ekki nema til 1. júní annars vegar og þá má segja þeim upp með mánaðar fyrirvara, en alveg er áreiðanlegt, að þeir verða ekki látnir gilda um aldur og ævi. Ég gæti hins vegar vel fallizt á og skal vera með að athuga það fyrir 3. umr., hvort ekki sé hægt að setja bráðabirgðaákvæði í sambandi við framkvæmd laganna, þannig að það sé alveg augljóst, að hvorki hæstv. ríkisstj. sé gerð vansæmd í sambandi við samningana né samningsaðilar þurfi að bera nokkrar áhyggjur út af því að þurfa að segja samningum upp eða þeim verði rift fyrir það, þótt þessi löggjöf verði samþykkt. En ég get hins vegar ekki verið með till. eins og hún er nú, því að m. a. er gengið þar svo langt, að þar er talað um að leggja þetta á ríkissjóðinn, sem er alveg óþarfi, eins og ég þegar hef bent á.