03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að þetta frv. væri rekið hér með óeðlilegri og óskiljanlegri hörku. Hann fékk nú ekki samþykki hæstv. forseta fyrir því. Sannleikurinn er sá, að þetta frv. hefur verið rekið óeðlilega slælega í gegnum Alþ. En það hefur líka verið fylgt fullkomlega öllum lýðræðisreglum, og einmitt rök hæstv. ráðh. fyrir þessu máli hafa öll hnigið að því sama eins og rök hans fyrir meðferð málsins hér í þessari hv. d. Það er hnigið að því að þvæla málið hér, alveg þvert ofan í það, sem hann sjálfur raunverulega vill, því að hann vill ekkert af þessu, sem hann hér hefur óskað eftir að verði samþykkt og hann ber fram. Ég er alveg hárviss um það, að þegar frv. kemur til atkvæða, þá muni hann greiða atkv. á móti frv., þó að hann sé búinn að koma inn sínum brtt., sem honum þótti alveg nauðsynlegt að koma fram við frv. Haun mun alveg eins greiða atkvæði á móti frv., þó að þær till. verði samþ., sem hann ber fram nú, og sýnir það, að það vakir allt annað fyrir honum heldur en að koma frv. í eðlilegt horf. Það vakir fyrir honum fyrst og fremst að koma frv. fyrir kattarnef, og hann veit, að málið sjálft hefur svo mikið fylgi hér í þinginu, að því verður ekki vikið frá nema með einhverjum slíkum bolabrögðum. Þingræðislegt er það nú ekki, og sanngjarnt er það ekki heldur gagnvart hv. meiri hl. Alþ. eða gagnvart þeim mikla hluta þjóðarinnar, sem óskar eftir að þetta mál verði afgreitt á þann hátt, sem þar var borið fram.

En ég skal þá gera nokkrar athugasemdir hér við það, sem hæstv. ráðh. hélt fram, vegna þess að mér skilst nú, að hann hafi ekkert á móti því, að nokkrar umr. fari enn þá fram um þetta frv., ef það mætti tefja það. Hins vegar hygg ég, að það sé svo mikið fylgi fyrir frv., að þingi verði nú tæplega slitið, fyrr en efnislega er búið að afgreiða þetta mál á einhvern hátt. Svo margir menn standa hér á bak við frv.

Hæstv. ráðh. hefur hvað eftir annað sagt það hér, að þetta frv. skapaði skrifstofubákn, en hann hefur bara ekki fært fyrir þessu nein rök, því að sú hugsun hans, að það þurfi að skrá niður hvern smátank úti á landi í sambandi við benzinafgrelðsluna, er hreinasta fjarstæða, og slík hugsun getur ekki skapazt hjá neinum manni nema þeim, sem er orðinn svo flæktur inn í skrifstofustarf, að ekkert má gera hér í þessu landi nema í gegnum skrifstofur. Sannleikurinn er sá, að það er langeinfaldast og hægast og eðlilegast, að félögin finni það út sjálf, hve miklu magni hefur verið dreift um landið af benzíni eða olíu í tonnatali og hve mikill hluti það er af heildarsölunni, og ákveði svo sjálf hjá sér hér í Reykjavík, hvað mikið gjald þarf að setja á til þess að standa undir þeim kostnaði, sem þetta hefur í för með sér. Það er allt skrifstofubáknið, og mundu þau geta gert það allt saman á sínum eigin kontor, enda er það tekið fram í l., að ef ágóði verður af þessari starfsemi, þ. e. a. s., að allt verðjöfnunargjaldið verði ekki notað, þá skuli það ganga áframhaldandi til næsta árs. Það er einmitt hugsað, að svona skuli vera farið með þetta mál. En svo kemur okkar ágæti hæstv. dómsmrh. og ætlar hvað eftir annað að telja okkur trú um, að hér þurfi álíka óvinsælt skrifstofubákn eins og skömmtunarskrifstofuna, af því að það er óvinsælasta skrifstofan, sem nokkru sinni hefur verið hér í landinu. (PZ: Hún hefur ekki verið lögð niður enn.) Hefur ekki verið lögð niður enn? Það getur vel verið. Hún er jafnóvinsæl fyrir því. — Nei, hér er nú um hreinar fullyrðingar að ræða, en ekki nein rök.

Þá sagði hæstv. ráðh., að fólk væri hér miklu dýrara, en annars staðar í öðrum verstöðvum. Ég veit nú ekki betur en að tryggingin fyrir hlutum sjómanna sé nú orðin nokkurn veginn jöfn um allt land, auk þess sem hæstv. ráðh. vill aldrei viðurkenna þær staðreyndir, að þetta mál snertir engu síður aðra menn en þá, sem hafa með útveg að gera. Benzínið m. a. snertir öll flutningatæki á landinu, og olían snertir miklu meira en bátaútveginn, hún snertir allan almenning í landinu, eins og ég hef tekið fram hér áður. Þess vegna er alveg óþarfi að vera að hamra á því, vð hér sé eingöngu um útvegsmál að ræða, því að það er sannarlega ekki síður hagsmunamál þeirra manna, sem búa úti í dreifbýlinu, og m. a. þeirra manna, sem árum saman hafa orðið að sæta fullkomnu ranglæti frá Reykjavík í sambandi við raforkumálin og frá þeim mönnum, sem hafa rekið þau hér með harðneskju og með miklu meiri óskiljanlegri hörku, heldur en þetta mál hefur verið rekið, þar sem tugir milljóna, hundrað milljónir eru teknar til þess að skapa ódýra orku fyrir þá menn, sem hér búa, á meðan þessir sömu menn eru að níðast á mönnum úti á landinu um að verða að nota olíu til að framleiða orkuna, sem enn er miklu dýrari, en hér. Hvar er þá réttlætið, sem hæstv. dómsmrh. er að tala um? Hann var að tala um, að það þyrfti að láta rannsaka kostnað við hús og annan aðbúnað úti á landinu í verstöðvunum og bera það á sama tíma við húsakynni hér í kringum Faxaflóa, og verðlagið í þessum húsum á báðum stöðunum. Ég vil nú spyrja: Vill þá ekki hæstv. ráðh. láta rannsaka eitthvað meira? Vill hann þá ekki líka láta rannsaka meðalhlut fiskimannanna úti á landinu og hér við Faxaflóa? Það liggja nú fyrir allmiklar rannsóknir í því máli, og það mætti kannske setja upp eina skömmtunarskrifstofu til að rannsaka það frekar, en gert hefur verið. En sannleikurinn er sá, að meðalhlutur manna úti á landinu, sem verða að búa við dýrari olíu, dýrari veiðarfæri, dýrari báta og jafndýrt fólk, er miklu smærri, en hér við Faxaflóa. Það er m. a. af því, að fólk úti á landinu fær ekki nema brot af þeirri þjónustu, sem veitt er Faxaflóa í sambandi við landhelgisgæzluna á hverju ári. En eftir að búið er að taka meginhlutann af flotanum, beztu skipin og stærstu skipin og langflest skipin, til þess að passa upp á veiðarfæri og veiðisvæðin hér við Faxaflóa og við Vestmannaeyjar, þá er þessi þjónusta ekki veitt þeim mönnum, sem verða að fiska á öðrum svæðum og verða að þola það, að þeirra veiðarfæri séu hirt af veiðiþjófum þeim til stórtjóns. Og ofan á það verða þeir að þola miklu dýrari olíu, það ranglæti, sem þessir menn vilja nú viðhalda í þessu máli, svo að það verður sannarlega meira en húsakynnin, sem þarf að rannsaka í þessu máli, ef á að fara inn á slíkt. Og þá er bezt að taka um leið og rannsaka, hvað þessir menn þurfa að greiða miklu meira fyrir rafmagnið og fyrir þá orku, sem þeir nota í sambandi við fiskiðjuverin, á meðan Reykvíkingar og þeir, sem eru hér við Faxaflóa, geta fengið í fyrsta lagi rafmagnið miklu ódýrara, í öðru lagi milljónir úr ríkissjóði til þess að standa undir rekstrartapi raforkuveranna og raforkuveltnanna, þar til þær fara að bera sig, gæði, sem neitað er um þessum mönnum úti á landinu árum saman og áratugum saman. Það er sannarlega ýmislegt fleira, sem þarf að rannsaka í þessu máli. — Og hvað er svo m. a. um gróðann á Þyrli, skipi ríkisins, sem tekur á aðra milljón í hreinan gróða við að flytja olíuna út á landið og tekur þetta sem sérstakan skatt af fólkinu úti á landinu? Vill ekki hæstv. ráðh., úr því að honum er umhugað um að koma fram svona miklum breytingum á frv., koma með brtt. um það, að þessum gróða skuli skipt upp á milli þessara manna? Að minnsta kosti hefði verið eðlilegra að setja inn í frv., að sá gróði, sem unnizt hefur á þessu undanfarin ár, skyldi standa undir dreifingarkostnaðinum, á meðan samningarnir standa við verkalýðinn. Í því var þó einhver sanngirni, en það munu vera, að ég hygg, um 4 eða 5 millj., sem ríkissjóður hefur þannig ranglega tekið af fátækum mönnum, sem búa úti á ströndinni og verða að greiða dýrara olíuverð. Og af hverju er þessu svo haldið uppi svona nú? Jú, vegna þess, eftir því sem hefur verið upplýst hjá okkur í fjvn., að olíufélögin sjálf halda því fram, að Þyrill, sem þénar milljónir á ári í olíuflutningunum, sé heinlínis að drepa þeirra flutningatæki, sem dreifa olíunni, og þess vegna sé nauðsynlegt að fara miklu hærra með olíuflutningana heldur en þeir eru nú.

Hæstv. ráðh. tók að sér hér um daginn að verja gróða olíufélaganna og sagði, að það hefði sýnt sig með gögnum, sem hefðu verið lögð hér fram, að þau gætu á engan hátt tekið á sig meiri kostnað undir neinum kringumstæðum, þeirra hagur væri svo bágur, að það væri ómögulegt að leggja þar á nokkurn pinkil. En fyrir okkur í fjvn. lágu nýlega gögn um það, að eitt olíufélag hér gat boðið 176 þús. kr. lægra verð á olíu til ríkisstofnana heldur en það er selt almenningi. Það var ekki fátæktin þar. Að vísu hefur þetta sama félag nú síðan tekið óleyfilega, eftir því sem dómur hefur fallið um, nokkrar milljónir í sinn vasa. Og væri þá ekki rétt fyrir hæstv. dómsmrh. að benda á það fé fyrst og fremst til að standa undir þessum dreifingarkostnaði heldur en að vera að leggja hann á ríkissjóðinn eða láta hann enn vera á fátækum útgerðarmönnum og öðrum, sem búa úti á landinu. Og svo vildi ég gjarnan spyrja enn og vænti þess, að ráðh. svari því heldur en að vera að endurtaka sífellt staðlausa stafi um skrifstofubákn og annað, sem engin rök hefur við að styðjast: Hvernig fara aðrar þjóðir að í þessu máli? Hafa þær ekki stórkostleg skrifstofubákn með milljónaútgjöldum til þess að koma réttlætinu á í þessum málum? Mér er kunnugt um, og það hefur ekki verið hrakið, að í hverju og einu einasta landi, sem ég hef komið í og þekki, er benzínverð nákvæmlega það sama, hvort sem maður tekur það í einum stað niðri á ströndinni eða uppi á fjöllum. Hvernig fara þeir að? Vill ekki hæstv. ráðh. láta rannsaka það og athuga, áður en hann fullyrðir margsinnis hér, að hér sé um svo mikið skrifstofubákn að ræða, að það eitt hljóti að tefja fyrir og verði að tefja fyrir framgangi þessa máls? Mér er fullkunnugt um það líka, og hygg ég, að ég hafi ekki farið um færri lönd eða dvalið þar skemmri tíma, en hæstv. dómsmrh., að engin af þessum löndum selja olíu heldur með mismunandi verði, heldur alls staðar með sama verði í löndunum. Það er engum erfiðleikum bundið. Það þarf ekkert skrifstofubákn. En sannleikurinn er sá, að þessi lönd eiga bara engan dómsmrh., sem vill berjast gegn réttlætinu í þessu máli, eins og dómsmrh. hér gerir. Það er kjarni málsins.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann undraðist mjög, hvernig við þremenningarnir skyldum láta okkur detta í hug að bera fram þá breytingu, sem við bárum fram hér á þskj. 725. Að vísu var hann mjög kampakátur yfir a-liðnum, og má þá vænta þess, að hann samþykki bann, þar sem hann sagði, að hann óskaði mjög eftir, að frestað yrði því, að þessi lög taki gildi, helzt þar til 1957, eins og hann gat um, og vænti ég þá, að sú yfirlýsing, sem hann gaf hér áðan um, að hann gæti verið sammála þeim hluta till., standi a. m. k. fram yfir atkvæðagreiðsluna, svo að hann greiði atkvæði fyrri lið till. Það getur því ekki verið nein goðgá frá okkar þremenningunum að bera þá till. fram, sem hæstv. dómsmrh. hefur sjálfur lýst yfir að sé mjög til bóta, og ekki getur það verið mjög til þess að spilla friðnum í landinu.

Þá er það b-liðurinn, að ákvæði til bráðabirgða falli niður. Ég sé nú ekki með mínu bezta viti, hvernig það getur spillt vinnufrið í landinu, þó að það ófremdarákvæði væri þurrkað út, sem raunverulega er ekki einasta flm. til skammar, heldur einnig til skammar þessari hv. d., að það var nokkurn tíma samþykkt, því að það er svo frámunalegt, að ég skil ekki, að jafngóður og glöggur maður eins og hæstv. dómsmrh. skyldi geta lagt nafn sitt og virðingu við að samþykkja slíkt ákvæði sem hér um ræðir, enda er ég hárviss um, eins og ég talaði um áðan, að hann verður aldrei með að samþykkja frv. með slíku ákvæði aftan í.

Samningurinn er útrunninn 1. júní, og að vísu er hann uppsegjanlegur með eins mánaðar fyrirvara, en mér þætti einkennilegt, ef það yrði til þess að segja upp þessum samningi, að samþ. væri að fella niður ákvæðið til bráðabirgða, sem er í fullu ósamræmi við hagsmuni landsmanna annars vegar og við það, sem þessir hv. menn sjálfir vilja. Hvað ætti það að vera, sem gæti orsakað að segja samningnum upp, þó að þetta ákvæði félli í burtu? Það ætti þá að vera það, að þessi lög eiga að taka gildi tveimur mánuðum síðar til hagsbóta fyrir þorra af fólkinu í landinu. Ég veit ekki, hvaða aðilar það yrðu, sem kæmu fram til þess að krefjast þess að segja upp samningi, svo að fólkinu liði verr í þessu landi heldur en því líður í dag, því að áreiðanlega líður fólkinu betur og hagsmunum þess er betur borgið og atvinnu þess úti á landinu er betur borgið, ef lögin eru samþykkt, heldur en ef þau eru felld. Það þættu ákaflega einkennileg rök, ef það kæmi einhvers staðar annars staðar frá en frá hæstv. dómsmrh. í sambandi við þetta frv.

Annars sýnir það sig glöggt á síðari till. hæstv. ráðh., að fyrir honum vakir ekkert annað í þessu máli heldur en að reyna að þvæla málið eins og hægt er, ekki til þess að fá það samþykkt með þeim brtt., sem hann er að reyna að telja hv. alþm. hér trú um, að séu til bóta fyrir frv., heldur til þess að skemma sjálft málið svo mikið, að jafnvel þeir menn, sem vilja samþykkja frv. og berjast fyrir að fá það til hagsbóta fyrir þjóðina, geti ekki komið nálægt því. Ég þekki þessar aðferðir, en þær eru engum til sóma, þær eru engum þm. til sóma, þær eru sízt af öllu hæstv. ráðh. til sóma. Ef meiri hl. alþm. er með ákveðnu máli og að ég nú ekki tali um þegar það er með góðu máli, eins og hér er um að ræða, máli, sem horfir til þjóðþrifa og hjálpar í örðugleikunum í sambandi við framleiðsluna, þá er það alveg óverjandi, að sú aðferð skuli vera notuð, sem hér er verið að beita í sambandi við þetta mál, og þess vegna vænti ég, að hv. alþm. felli þessar brtt., sem hæstv. forseti hefur lýst og ekki eru til neins annars, en til þess að torvelda framkvæmd málsins eða að fá málið drepið, og að þeir samþykki ekki einasta a-lið á till. 725, sem hæstv. dómsmrh. hefur nú lýst yfir að hann muni fylgja, heldur einnig b-liðinn, því að við það mundi þetta mál aftur fá sinn eðlilega svip og ákvæðin verða til stórkostlegra hagsmuna fyrir landsfólkið.