03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan byrja á því að gefa hv. þm. N-M. þær upplýsingar, að það er engin skömmtunarskrifstofa starfandi hér nú, svo að það er mesti misskilningur hjá honum, að ríkisstj. hafi nokkra skömmtunarskrifstofu gangandi. Það er búið að leggja skömmtunarskrifstofuna niður fyrir nokkru, en hv. þm. hefur auðsjáanlega ekki fylgzt með því. Hitt er annað mál, að fjárhagsráð sér um það litla, sem eftir er af skömmtuninni, og það er gert á þeirri skrifstofu, þar sem afgreiddar eru innflutningsbeiðnir og gjaldeyrisbeiðnir ásamt öðru. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að segja, að það sé skömmtunaraðili, ef hann framkvæmir þarna eitt verk. Það er víst ekki nema smjörlíkið, sem er skammtað enn þá, svo að það er ekki hægt að segja, að hér sé um neina sérstaka skömmtunarskrifstofu að ræða, enda er það ekki. — Ef hv. þm. Barð. vill endilega vera í sömu villunni og hv. 1. þm. N-M., þá er honum það alls ekki of gott mín vegna. (Gripið fram í.) Ja, ef hv. þm. vill taka til máls, þá getur hann gert það þegar ég er búinn, en ég get því miður ekki svarað honum í sætinu.

En svo að ég komi að málinu, þá bar hv. 1. þm. N-M. það fram, að ég hefði gefið hér mjög einkennilegar upplýsingar í þinginu í fyrra um það, hverju nema mundi verðhækkun á olíu og benzíni, ef það væri verðjafnað. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur lesið allar sínar þingræður og leiðrétt allar þær vitleysur, sem þar kunna að hafa komið upp, bæði frá honum og þingskrifurunum.

En það hlýtur hver maður að sjá, að það, að það sé nokkurra aura verðhækkun á tonn, mismunurinn, er ekki rétt niður tekið. Og ég hygg, að það hafi ekki verið rangt frá skýrt. Annars er þetta ekkert meginatriði í málinu og skiptir í raun og veru engu. Það er sýnilegt, að hér eins og víðar í ræðum þm. hefur verið tekið rangt niður og þeir ekki leiðrétt af eðlilegum ástæðum, sem hver einasti þm. þekkir, að ræðurnar voru svo lélega niður teknar, að það þreyttust allir á að eltast við þær vitleysur, sem þar voru upp teknar.

Hv. þm. gaf í skyn, að ég hefði, þegar þetta kom fyrst til mála í þinginu, lýst því yfir, að ég mundi framkvæma þessa verðjöfnun. Þetta er mjög mikill misskilningur hjá hv. þm., og ég veit, að hann segir þetta ekki á móti betri vitund; þetta er sprottið af misskilningi hjá honum, því að ég hef aldrei, frá því að byrjað var að tala um þetta, gefið neitt loforð um, að ég skyldi framkvæma þetta. Hitt vita allir, sem voru við umr. í Sþ. í fyrra, þegar þetta mál var þar til umr., að þá beinlínis tók ég fram, að ég liti svo á, að þó að þál. væri samþ. um þetta atriði, þá mundi ég ekki geta framkvæmt það, vegna þess að ég teldi það ekki framkvæmanlegt nema með l. Þá var það, að það einkennilega fyrirbrigði kom fyrir, að n. í þinginu, sem fjallaði um málið, gaf það út í áliti, að mér sem viðskmrh. bæri að gefa út brbl., ef það sýndi sig, að það væri ekki hægt að framkvæma fyrirmæli þál. að öðrum kosti. Þetta er vafalaust einsdæmi, að þingn. segi við ráðherra, meðan þing situr, að ef þau fyrirmæli, sem þingið gefur honum, séu ekki góð og glld, þá skuli hann bara setja brbl. Ég sagði, að ég teldi, að þetta væri óframkvæmanlegt fyrir mig án þess að hafa lagarétt. Þegar ég lét svo rannsaka þetta með fullum vilja að framkvæma ályktun Alþ., þá kom það í ljós, sem ég svo síðar gerði grein fyrir í opinberri tilkynningu, til þess að landsmenn gætu vitað, hvernig málið stóð, að það væri ekki hægt að framkvæma það eins og þurfti að gera nema hafa lagaheimild til þess. Það liggur aðallega í því, að það er ekki hægt að skylda menn til þess að greiða gjald í verðjöfnunarsjóð, án þess að lagaheimild sé fyrir því, og á því strandaði málið. Það er mesti misskilningur, að ég hafi stöðvað málið af því, að ég væri á móti því. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég fylgi ekki málinu, en ég ætlaði að framkvæma það, ef það sýndi sig, að það væri hægt, úr því að þingvilji var til fyrir því.

Ástæðan til þess, að ég stóð nú upp hérna, var sú, að ég ætlaði að bera fram hérna litla brtt. Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að viðskmrn. skuli hafa með verðjöfnunarsjóðinn að gera og innheimta verðjöfnunargjaldið. Ég álít, að það sé hreinn óþarfi að leggja þetta starf á rn. Það hlýtur að hafa í för með sér, að rn. verður að fjölga á skrifstofu sinni einum til tveim mönnum til þess að sjá um þetta. Ég álít, að þetta sé hægt að gera með því að láta félögin sjálf hafa veg og vanda af því, en að það sé séð um það af ráðuneytisins hendi að setja reglur fyrir verðjöfnuninni og um það eftirlit, sem nauðsynlegt er með verðjöfnunarsjóðnum. Hér hefur starfað í mörg ár, frá því í byrjun stríðsins, verðjöfnunarsjóður í sambandi við kolaverzlun í Reykjavík. Þennan verðjöfnnnarsjóð hafa kolaverzlanirnar haft sjálfar, og rn. hefur haft eftirlit með því, hvernig með sjóðinn hefur verið farið. Þetta hefur gengið prýðilega, og það hefur aldrei þurft neitt upp á það að klaga. Ráðuneytið hefur fylgzt með því, hvernig sjóðnum hefur verið varið, hvað í hann hefur verið greitt, hvað úr honum greitt og annað þess háttar. Og mér vitanlega hefur þetta farið prýðilega fram og ekki nein ástæða til að hafa það á annan veg. Ég vildi því leggja til, að l. verði breytt á þann veg, að innflytjendurnir sjálfir hefðu þennan sjóð í sínum vörzlum.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa brtt.:

„2. gr. orðist svo: Til þess að framkvæma ákvæði 1. gr.“ — þ. e. að fyrirskipað er, að sama verð skuli vera alls staðar á landinu — „er innflytjendum heimilt að leggja verðjöfnunargjald á olíu og benzín, sem keypt er til landsins, og sé upphæð þess við það miðuð, að gjaldið nægi til að greiða flutningskosfnað á því magni, sem flytja þarf frá innflutningsstöðum til annarra sölustaða á landinu. Gjaldið skal greitt í sjóð, er sé í vörzlu innflytjenda. Ráðherra setur í reglugerð fyrirmæli um framkvæmd verðjöfnunarinnar og meðferð verðjöfnunarsjóðs.

3. gr. fellur niður.

4. gr. fellur niður.“

Ég álít, að með þessu sé létt af rn. miklu óþarfa starfi. Það sé sett í hendurnar á innflytjendunum sjálfum, sem eiga að bera veg og vanda af þessari verðjöfnun, og það opinbera á ekki að þurfa annað en að hafa nauðsynlegt eftirlit með því, hvernig þetta er framkvæmt, og sjá um, að ekki sé hærra verðjöfnunargjald lagt á, á neinum tíma heldur en réttur flutningskostnaður segir til um þá vöru, sem flutt er frá innflutningsstöðunum og út um land.

Ég vænti þess vegna, að hv. d. geti fallizt á þessa breyt., sem að öðru leyti breytir frv. ekki neitt.