05.02.1953
Efri deild: 72. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú verið til einnar umr. í Nd. og tekið þar mjög miklum breyt. frá þeirri afgreiðslu, sem það hlaut hér í þessari hv. d. Út úr frv. hafa verið tekin ýmis mjög gagnleg og veigamikil ákvæði, sem sett voru inn í frv. hér í þessari d., og sett inn önnur í staðinn, sem ég tel að séu til hinnar mestu óþurftar. Sérstaklega verð ég að harma það, að Nd. skyldi hverfa að því ráði að fella í burtu bráðabirgðaákvæði það, sem þessi hv. d. samþ. aftan við frv. Undir meðferð málsins hér í þessari d. var gerð mjög ýtarleg grein fyrir nauðsyn þessa bráðabirgðaákvæðis og á það bent, að samþykkt þess, ef á annað borð ætti að afgreiða frv. í svipuðu formi og það var, væri með öllu óhjákvæmileg til þess að færa frv. í skaplegt form og reyna að sneiða hjá þeim vandræðum, sem af framkvæmd frv. mundi ella leiða. Ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka þau rök hér strax, en mun síðar hverfa nánar að þessu bráðabirgðaákvæði.

Þá er og rétt að vekja athygli á því, að í Nd. hefur verið horfið að því ráði að fresta gildistöku l. um ákveðinn tíma, þannig að þeim er ætlað að öðlast gildi 1. ágúst 1953. Ég tel að sjálfsögðu til nokkurra bóta að hafa þetta í frv., þó að ég að sjálfsögðu hefði kosið, að þessu hefði verið frestað enn þá lengur og bráðabirgðaákvæðið hefði staðið eitt, en þessi tímatakmörkun við 1. ágúst hefði ekki verið sett inn í frv.

Þá hafa einnig verið felld úr frv. þau ákvæði, sem samþ. voru hér að tilhlutan hæstv. viðskmrh., og tel ég, að það sé heldur til óþurftar fyrir málið, einnig vegna þess, að eins og frá frv. var gengið í upphafi, þá var að því stefnt að gera framkvæmd laganna mjög flókna og kostnaðarsama. En þær brtt., sem hæstv. viðskmrh. kom með hér, miðuðu þó að því að gera framkvæmd laganna einfaldari, óbrotnari og kostnaðarminni, enda þótt því verði ekki neitað, að á þeim till. voru mjög verulegir gallar. En hjá því verður ekki komizt, ef það á að afgreiða frv. frá hv. Alþ. í grundvallaratriðum eitthvað svipað því, sem frá því hefur verið gengið í upphafi, að á því verði í heild meiri og minni ágallar, þó að ýmislegt, eins og þær till., sem hæstv. viðskmrh. kom með, miði að því að draga heldur úr þessum ágöllum.

Á meðan frv. til meðferðar undir 2. umr. í þessari d., þá bárum við tveir nm. úr allshn. fram till. til rökstuddrar dagskrár. Það var hv. 8. þm. Reykv. og ég. Í grg. fyrir þessari rökstuddu dagskrá var það fyllilega viðurkennt, að á því væri nauðsyn, að gerðar væru ráðstafanir til þess að lækka olíuverð úti um land hjá þeim, sem eiga við hæst olíu- og benzínverð að búa núna, og að óhjákvæmilegt væri, að það mál yrði athugað rækilega og till. til úrbóta undirbúnar. Það stóð því ekki á okkur, sem að dagskránni stóðum, að viðurkenna nauðsyn á aðgerðum í þessum efnum, en við gátum ekki fallizt á, að frv. eins og það lá fyrir væri til þess fallið að samþ. það til úrbóta í málinu. Bentum við á, að bæði væri málið illa og losaralega undirbúið og kæmi auk þess á hinum óheppilegasta tíma. Sérstaklega var á það bent í hinni rökstuddu dagskrá, að ekki væri nema mjög skammur tími umliðinn síðan ein hin yfirgripsmesta vinnudeila, sem lengi hefur orðið í þessu landi, var leyst, m. a. á grundvelli þess, að verð á olíum og benzíni ætti að lækka um ákveðna upphæð. Það var á það bent, að þeir, sem að samþykkt á lausn deilunnar stóðu, hefðu treyst því, að þessi lækkun fengist og yrði raunveruleg. Ef frv. væri samþ. eins og það lá fyrir í upphafi og eins og það raunar liggur fyrir nú aftur, þá er alveg ljóst, að verðhækkun kemur meira en til jafns á móti þeirra lækkun, sem lofað var á sínum tíma. Það er ekki á því nokkur vafi, að fjöldinn allur af því fólki, sem að lausn vinnudeilunnar stóð og í henni átti, treystir því, að þessi verðlækkun, sem til lausnar á deilunni var lofað, fáist. Það er áreiðanlegt, að ef það kemur verðhækkun á þessar vörur við samþykkt þessa frv., þá telur þetta fólk, að ekki sé til fulls farið eftir því, sem það treysti að það mætti eiga von á. Ég fyrir mitt leyti vil taka það djúpt í árinni, þó að um það megi að sjálfsögðu deila, að ég vil fullyrða, að með samþykkt frv. eins og það lá fyrir í upphafi og eins og það liggur fyrir enn sé stefnt til hreinna vanefnda, sem hafi með sér allar þær afleiðingar, sem vanefndir í sambandi við samninga á annað borð hafa, þ. á m. þá afleiðingu, að hver aðili sem er getur lýst samkomulagið úr gildi fallið, getur gert skaðabótakröfur út af vanefndunum, að ég tali ekki um þá glötun á trausti, sem af þessu mundi leiða. Allar þessar röksemdir voru hér fyrir í upphafi, og þær eru enn til staðar. Það var líka á það bent, að þegar reiknað hefði verið út, hvaða verð bátaútvegurinn þyrfti að fá fyrir aflann til þess að tryggja afkomu hans, þá hafi verið við það miðað, að það verð væri á hans nauðsynjum, sem m. a. lausnin í vinnudeilunni gerði ráð fyrir, og að samþykkt frv. í því formi, sem það var í upphafi, og í því formi, sem það er enn, mundi algerlega brjóta í bága við þann grundvöll.

Þá var einnig á það bent með sterkum rökum, að framkvæmd frv. mundi verða mjög erfið, kostnaðarsöm og óþjál í alla staði, og um það atriði held ég að verði ekki deilt, að framkvæmd frv. eins og það nú liggur fyrir er hinum mestu erfiðleikum háð í alla staði. Það er ekki nokkur vafi á því, að upp mundi þurfa að koma mjög stóru skrifstofubákni til þess að framkvæma l., það mundi þurfa að taka marga menn í vinnu og verja miklu fé til framkvæmda l. (Gripið fram í.) Jú, svo sannarlega er það á móti stefnu Alþfl., og það er einmitt í samræmi við þá stefnu, sem ég m. a. hef gengið á móti þessu frv. En ein af sterkustu rökunum, sem mæla þó á móti þessu frv., er sú staðreynd, að ef það verður afgreitt eins og það er, þá mun hið raunverulega heildarverð til neytenda, bæði á olíum og benzíni, hækka mjög verulega vegna þess, að ganga má út frá því sem gefnu, að menn sýni ekki þá hagsýni, sem þeir sýna nú í því að kaupa inn þessar vörur á þeim stað, þar sem þær eru ódýrastar, vegna þess að flutningskostnaðurinn þangað er minnstur.

Öll þessi rök voru til staðar, þegar við lögðum okkar rökstuddu dagskrá fram hér í þessari hv. d., þegar málið var til 2. umr. Og nú, eftir að málið hefur verið til meðferðar í Nd., eru þessi rök enn til staðar, og við þau hefur bætzt enn ein mjög veigamikil röksemd. Hv. Nd. hefur horfið að því ráði að láta l. ekki öðlast gildi fyrr en 1. ágúst 1953. Nú er það vitað, að reglulegt Alþ. kemur saman ekki siðar en 1. okt., getur hæglega orðið fyrr, ef ástæða þykir til. Af þessu er ljóst, að l. er ætlað að koma til framkvæmda réttum 60 dögum áður en hv. Alþ. kemur saman, og alls ekki á a. m. k. að líða lengri tími þar á milli. Það er því spursmál um það hér, hvort heppilegra sé að láta l. koma til framkvæmda eins og þau eru 60 dögum áður en næsta Alþ. kemur saman eða fresta að afgreiða málið þangað til Alþ. kemur saman aftur og gefa mönnum þá tóm til að athuga þetta mál betur og undirbúa það betur, en gert hefur verið. Ég fyrir mitt leyti er persónulega sannfærður um það, að í sambandi við þýðingu málsins fyrir þá, sem eiga von á verðlækkuninni á benzíni og olíum, skipta þessir 60 dagar og sá tími til viðbótar, sem næsta hv. Alþ. þyrfti á að halda til að afgreiða málið aftur, ekki neinu afgerandi máli, þannig að fyrir þá og í þeirra augum ætti þetta ekki að vera svo veigamikið atriði. Hitt er langtum þýðingarmeira, að ef málið verður afgr. svona núna og ekki látið bíða næsta Alþ., þá má telja það alveg gefið, að við svo búið verði látið standa og að ekki verði gerðar nægilega viðtækar og gagnlegar tilraunir til þess að skipa þessum málum á þann veg, sem allir mega við una.

Það hefur líka komið fram hér undir umr., að til eru ýmsar leiðir, sem vel er hugsanlegt að fara megi til þess að lækka verð á olíum og benzíni úti um land, án þess að það þurfi endilega að gerast í því formi, sem þetta frv. leggur til, og án þess að það þurfi endilega að gerast með þeim hætti, að verðið á þessum vörum sé hækkað hjá þeim, sem bezta hafa aðstöðuna um flutningana. Það hefur verið á það bent hvað eftir annað undir þessum umr., að sá möguleiki er til staðar að athuga um ódýrari og hagkvæmari dreifingaraðferðir á bæði benzíni og olíum heldur en verið hefur, — dreifingaraðferðir, sem áreiðanlega mundu leiða til þess að lækka dreifingarkostnaðinn að stórum mun. Þessar leiðir þarf vissulega að athuga mjög rækilega, og það þarf að reyna að beina málunum inn á þá braut að, að þeim verði horfið miklu meir en verið hefur. Og einasta leiðin til þess að ýta undir það, svo að nokkru gagni sé, er að láta afgreiðslu málsins bíða til næsta þings, en vera ekki endilega að leysa það núna, til þess þar með að girða nokkurn veginn fyrir það, að nægilega gagnlegar ráðstafanir verði gerðar til úrlausnar í þessum efnum.

Það er líka mjög þýðingarmikið og bráðnauðsynlegt, áður en þetta frv. verði samþ. eða frv., sem er í eitthvað svipuðum anda og þetta frv. hér, að ýtarlegar ráðstafanir verði gerðar til þess að athuga, undirbúa og skipuleggja, með hverjum hætti hægt er að koma þessu fyrirkomulagi á, á ódýrari og umsvifaminni hátt en frv. sjálft byggir á. Það mundi vissulega verða öllum til hinna mestu hagsbóta, og það er einmitt sú lausn í málinu, sem allir þrá og bíða eftir og vænta að valin verði. Ég fyrir mitt leyti vil eftir þeim umræðum, sem hér hafa fram farið um málið, og eftir þeim þingvilja, sem hefur komið í ljós að því er varðar afstöðuna til málsins í báðum deildum, vænta, að ég mætti treysta því, að það yrði til þess, ef málinu væri nú frestað og það ekki afgreitt, að hæstv. ríkisstj. gerði ýtarlegar, róttækar ráðstafanir til að undirbúa þetta mál fyrir næsta þing og færa það þá í það form, að hægt sé að lækka verðið á benzíni og olíum úti á landi, án þess að þurfi að velta þeirri lækkun yfir á þá, sem búa á þeim stöðum, þar sem dreifingin er ódýrari.

Af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að bera hér fram ásamt hv. 8. þm. Reykv., 11. landsk. þm. og 7. landsk. þm. till. um, að frv. verði afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar sem samþykkt frv. mundi geta haft í för með sér verulega röskun á því samkomulagi, sem náðist hinn 19. des. s. l. milll ríkisstj. og atvinnurekenda og launþega til lausnar vinnudeilunni, og þar sem hætta er á, að samþykkt frv. mundi leiða til ágreinings við þá, sem í vinnudeilunni áttu, og hafa áhrif á vinnufriðinn í landinu, þar eð öll verðhækkunin vegna verðjöfnunarinnar lendir með fullum þunga á neytendum, án þess að ráðstafanir séu gerðar til að halda niðri verði á olíu og benzíni, og þar sem loks gildistöku laganna hefur verið frestað til 1. ágúst 1953, en næsta reglulegt Alþingi kemur saman eigi síðar en 1. okt., telur deildin rétt að fresta afgreiðslu frv. nú, og í trausti þess, að unnið verði að nýrri skipan þessara mála, þannig að létt verði undir með þeim, sem við óhagstæðast verð eiga að búa á benzíni og olíu, þegar á þessu vori, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessa rökst. dagskrá, sem við þessir 4 dm. berum hér fram, vil ég leyfa mér að afhenda forseta nú þegar. (Gripið fram í.) Nei, þetta er alls ekki sama dagskráin. Rökin, sem þarna koma, eru í grundvallaratriðum svipuð og það, sem áður var, að viðbættum þeim breytingum, sem leiðir af þeim breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd. Nd. setti inn takmörkunina, hún frestaði framkvæmd laganna til 1. ágúst, og það er að sjálfsögðu atriði, sem breytir viðhorfinu til málsins mjög. Það var ekki komið, þegar rökst. dagskráin var borin hér fram í þessari d., og rökst. dagskráin var ekki „mótiveruð“ með því. Þetta er því algerlega nýtt atriði, auk þess sem þessi dagskrá er í verulegum atriðum öðrum öðruvísi „mótiveruð“ og uppsett, en hin fyrri dagskrá. En ef svo kynni að fara — gegn von minni — að þessi dagskrá yrði felld hér í d., þá vil ég leyfa mér að bera hér fram enn á ný till., að bráðabirgðaákvæði það, sem tekið var inn í frv. hér við 2. umr., verði tekið inn í frv. nú á ný. Ég hef í morgun afhent skrifstofu Alþingis brtt. við frv. með þessu bráðabirgðaákvæði. Það mun vera í prentun og er væntanlegt hingað í d. á hverri stundu. En ég hef það hér skriflegt við höndina og mun afhenda hæstv. forseta það skriflegt, þangað til hið prentaða kemur.

Ég þykist ekki þurfa að ræða mjög ýtarlega um ákvæðið til bráðabirgða, sem samþ. var hér við 2. umr. Fyrir því var gerð mjög ýtarleg grein þá. Aðstæðurnar hafa á engan hátt breytzt frá mínum bæjardyrum séð, eftir að málið hefur fengið meðferð í Nd., og eiga því öll þau rök, sem ég benti hér á við 2. og reyndar 3. umr. málsins líka, að því er bráðabirgðaákvæðið varðar, einnig við nú. En ég vil leyfa mér til bráðabirgða að afhenda hæstv. forseta þetta skriflegt, eins og ég tók fram.