28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Með því að ég á sæti í þeirri n., sem að líkindum fær þetta mál til athugunar, þá mun ég ekki ræða það mikið hér nú við 1. umr. og hefði raunverulega ekki tekið hér til máls, ef hæstv. landbrh. hefði ekki gefið tilefni til þess. En hann benti einmitt nm. á, að þeim bæri að athuga það vel, þegar málið yrði afgreitt, að skoða frv. í því ljósi, sem hann sérstaklega undirstrikar í sínum orðum, þ. e., að sú stefna væri rétt að létta þessari byrði af landbúnaðinum, á meðan aðrir atvinnuvegir geti staðið undir því, eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur þegar minnzt á. Mér verður því á að spyrja eins og hv. 4. þm. Reykv.: Er það skoðun hæstv. ráðh., að aðrir atvinnuvegir í landinu geti staðið undir þessari byrði eða öðrum nýjum byrðum, sem á þá kunna að verða lagðar? Þetta er ekki sagt af neinni andúð við málið sjálft eða neinni andúð við landbúnaðarmálin, heldur vildi ég aðeins fá það fram hér, áður en málið er afgreitt í n., hvort hæstv. ráðh. er þeirrar skoðunar, að aðrir atvinnuvegir geti staðið undir þessari byrði og öðrum byrðum, sem kunna að fylgja því, að þetta frv. verði samþ. Það er kjarni málsins og því mjög nauðsynlegt; að n. fái um það vitneskju, hvað hæstv. ráðh. álítur í því atriði, úr því að hann óskar, að það sé einmitt þetta, sem sé haft að aðalsjónarmiði, þegar málið er afgreitt.

Hv. flm. frv. viðurkenndi einnig hér, að hann mundi að sjálfsögðu fylgja hverjum þeim till. hliðstæðum, ef þær kæmu fram á síðara stigi málsins, um aðstoð til annarra atvinnuvega, sem hægt væri að sýna og sanna að væru hliðstæðar þessu máli, — viðurkenndi það hér í sinni síðari ræðu, og einmitt út af því vildi ég einnig leyfa mér að benda á, að það er alveg hliðstætt, að það fé, sem hefur verið látið í stofnlánadeildina og lánað er út með 2½% og ég hygg að muni vera um 100 millj. kr., lúti sömu reglum. Það er komið á daginn nú, að einmitt þeir atvinnuvegir, sem hafa fengið það fé lánað, geta ekki staðið undir þeirri byrði, hvað þá undir annarri nýrri. Það liggur nú fyrir hjá sérstakri n., sem til þess hefur verið valin, að athuga, hvernig eigi að forða því, að atvinnutækin, sem veðbundin eru stofnlánadeildinni með 1. veðrétti og geta ekki staðið undir afborgunum af þeim lánum eða öðrum skuldum, verði seld á opinberu uppboði til lúkningar skuldum sínum, svo að viðkomandi bæjarfélög missi ekki þannig atvinnutækin. Ég hygg, að þetta sé skýrasta sönnunin fyrir því, að þessi atvinnugrein geti ekki staðið undir þeirri byrði, sem hér um ræðir, eða tekið á sig neina aðra nýja byrði, hvað svo sem líður skoðun hæstv. landbrh., því að ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki sent þetta mál til sérstakrar athugunar til þeirra manna, sem hún trúir sjálfsagt bezt til þess að rannsaka það, ef hún væri öll óskipt þeirrar skoðunar, að þessi atvinnuvegur gæti borið þessa byrði eða tekið á sig aðra nýja. Er þetta atriði því alveg hliðstætt, og mun ég því að sjálfsögðu athuga það mjög gaumgæfilega, eftir yfirlýsingu frá hv. 1. flm., að koma með brtt. um, að einnig þær 100 millj. kr., sem látnar voru í stofnlánadeildina, verði gefnar eftir. (Gripið fram í: Hvar voru þær fengnar að láni?) Hvar þær hafa verið fengnar að láni, breytir ekki málinu. Hitt er staðreynd, að sú stofnun verður einnig að lána út sitt fé með 2½%, og verður hún því að taka ný lán með 5½%, 6% eða 7% til þess að sinna áfram sömu verkefnum, a. m. k. fyrir þann hluta, sem hún fær ekki inn og er þegar fallinn til greiðslu, eins og vitað er um þær upphæðir, sem nú á að selja atvinnutækin fyrir, svo að það er alveg nákvæmlega hliðstætt.

Þá vil ég gjarnan einnig í sambandi við þetta leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um, hvort hann líti þá ekki svo á, að einnig þær 3 millj., sem voru látnar í Iðnaðarbankann, ættu að fylgja sömu reglu. Það er a. m. k. ekki upplýst enn, hvort iðnaðurinn þarf ekki á slíkri aðstoð að halda. Hitt er alveg víst, að þessi nýi banki, Iðnaðarbankinn, sem á að standa undir ákaflega merku hlutverki í landinu, er a. m. k. enn ekki eins fjársterkur og Búnaðarbankinn, og er þetta ekki sagt af andúð til Búnaðarbankans. Ég er aðeins að draga hér fram raunverulegar staðreyndir og ekkert annað. Ég minnist þess að vísu í fyrra, þegar rætt var um Iðnaðarbankann hér í þessari hv. d., að þá var hæstv. landbrh. mjög á móti því, að hann yrði stofnaður, en það sannar ekki, að bankinn sé ekki févana annars vegar og að hann hafi ekki merkum og miklum hlutverkum að gegna hins vegar.

Mér þótti aðeins rétt að láta þetta koma fram hér við umr., alveg sérstaklega vegna ummæla hæstv. ráðh., þar sem hann benti m. a. mér, sem á sæti í n., á það að afgreiða þetta mál með hliðsjón af þeim orðum, sem hann lét falla hér áðan.