28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Við hv. þm. N-M. vil ég segja það, að frv. um verkamannabústaði, sem lagt er fram af okkur Alþýðuflokksmönnum í deildinni, er alveg sama eðiis og hliðstætt því frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram um lántökuheimlld vegna starfsemi Búnaðarbankans og ég drap á áðan, þannig að það er eðlilegt, að það væru þau tvö frv., annað til þess að taka lánið í útlöndum handa Búnaðarbankanum, en annað til þess að aðstoða við sölu á skuldabréfum samkv. frv.

Hæstv. landbrh. sagði alveg réttilega, að það lægi í augum uppi, að ef sjóður ætti samkv. lögum að lána fé til langs tíma með lágum vöxtum, en taka að láni starfsfé sitt til skamms tíma með háum vöxtum, þá hlyti sjóðurinn að lenda í þroti. Almennt skoðað og tekið út af fyrir sig er þetta rétt hjá hæstv. ráðh. Það er að vísu barnalærdómur, sem okkur ætti að vera kunnur og er því óþarft að vera að endurtaka, en þetta er vissulega rétt. En það er fleira, sem til athugunar kemur í þessu sambandi, — fyrst það, sem ég áðan benti á: Þegar lánsfé er orðið dýrara, sem það er og verður ár frá ári, er þá mögulegt að halda þessum vöxtum óbreyttum, ekki bara til landbúnaðarins, heldur vöxtum yfirleitt? Og vaxtakjörin almennt í landinu hafa verið hækkuð núna á seinni árum, eins og hæstv. ráðh. er allra manna bezt kunnugt um. En í öðru lagi og það, sem snertir alveg sérstaklega þetta mál, sem hér er til umræðu, er það, að það kemur fleira til greina, heldur en bara útlendu lánin og þessi lögbundnu lágu lán í starfsemi Búnaðarbankans. Það, sem fyrst og fremst kemur til greina, er að sjálfsögðu hlutfallið milli eigin fjár stofnunarinnar, sem hún hefur fengið sumpart sem framlag og sumpart sem arð af sinni starfsemi, og hinna dýru lána, sem tekin eru erlendis. Og við vitum það allir hér, að Búnaðarbankinn hefur safnað sér það gildum sjóðum á undanförnum árum, að hann gæti með þeim mætt verulegum hluta af þessum halla. Ég hef ekki tölur í höfðinu til þess að sýna, hve miklu þetta nemur, en það er einfalt rannsóknaratriði, sem nefndin að sjálfsögðu getur tekið upp. En sé það svo, eins og hæstv. ráðh. virtist láta liggja að í ræðu sinni, að það sé komið að því marki, að bankinn geti ekki staðið undir þessu lengur, þá furðar mig á því, að hann sjálfur skuli bera fram frv. á þessu þingi um að auka þessa svikamyllu með því að leggja á bankann að taka 5½% lán og lána með 2½% vöxtum. Ég tel þetta frv. óræka sönnun þess, að hæstv. ráðh. líti svo á, að hagur bankans sé það góður enn, að ekki sé að þessu komið, því að annars dytti honum sjálfum ekki í hug að bera fram slíkt frv. sem það, er ég nú nefndi og hann hefur borið fram í hv. deild; það er augljóst mál. Auk þess kemur að sjálfsögðu til greina hjá Búnaðarbankanum, að hann ávaxtar mikið af sínu fé í dýrum lánum, jafndýrum og hinir bankarnir gera. Og verulegur hluti af hans starfsfé er þannig ávaxtað og getur mætt þessu. Ég bendi á þetta, því að þetta eru mikilsverð atriði, bæði þessi önnur störf bankans og það eigið fé, sem hann er búinn að safna.

Hæstv. ráðh. bar fram nokkrar kennisetningar hér, sem kannske líta nógu vel út, en eru þó varhugaverðar. Hann spurði, hvort við hefðum efni á því að láta hjól landbúnaðarins stöðvast. Ég get svarað því fyrir mitt leyti, að ég álít, að við höfum það ekki. En ég vil þá svara því einnig, að við höfum alls ekki efni á því, að aðrar atvinnugreinar, eins og sjávarútvegurinn og iðnaðurinn, stöðvist, hvort það er heldur fyrir það, að þeir búi ekki við nógu ódýr vaxtakjör eða búið sé að þeim af opinberri hálfu þannig, að þeirra þroskaskilyrði séu skert. Og það hygg ég að hæstv. ráðh. hljóti að vera mér sammála um. Ég fæ ekki betur séð, en að fyllstu athygli þurfi að beita, áður en þeirra hlutur er þyngdur frá því, sem nú er, til þess að styrkja landbúnaðinn, — ég segi það alveg hreinskilnislega. Auk þess er svo þess að gæta, sem ég veit að hv. flutningsmönnum þessa frv. er mætavel ljóst, — ég er ekki viss um, að hæstv. ráðh. sé það jafnvel ljóst, að sá stuðningur, sem gert er ráð fyrir að bændastéttinni sé veittur með samþykkt þessa frv., er ekki svipað því eins mikilsverður og annar stuðningur, sem miklu meira aðkallandi væri fyrir bændastéttina, því að vaxtagreiðslur landbúnaðarins eru ekki sá baggi, sem erfiðast mundi þeirri stétt að hreinsa sig af, fjarri því. Væru menn spurðir að því nú, hverjir væru erfiðleikar bændastéttarinnar og landbúnaðarins, þá mundi enginn maður með heilbrigða skynsemi svara, að það væru of dýr vaxtakjör. Þeir mundu svara því, að það væru erfiðleikarnir á því að selja framleiðslu sína, sem væru framar öðru, vandræði landbúnarðarins, að ostarnir hrúgist upp óseldir og smjörið einnig, vegna þess að aðrar stéttir í landinu hafa ekki efni á að kaupa þessar góðu vörur. Mikilsverðasta sporið fyrir bændastéttina er að tryggja sölu og afurðaverð. Meðan ekki er hægt að ganga svo frá því, að hægt sé að afla þeim markaða erlendis, þá er þörf fyrir að gera ráðstafanir til þess, að innlendi markaðurinn glatist ekki, þ. e. að tryggja atvinnu og lífskjör þess fólks, sem býr í sveitum, þorpum og kauptúnum og kaupstöðum, þannig að það geti keypt framleiðsluvörur bændanna. Það er höfuðatriðið, en ekki hvort vextir, sem þeir borga, eru ½ % hærri eða lægri.

Ég veit, að flutningsmönnum þessa frv. er þetta fullljóst. Ég vildi mega vona, að hæstv. ríkisstj. væri það ljóst. Öruggasti og eini einhlíti stuðningurinn við bændastéttina er sá, að markaðsskilyrði hennar og möguleikar séu gerðir tryggir og öruggir. Og því miður verð ég að játa það, að í þessum efnum hefur hæstv. ríkisstj. brugðizt málstað bændanna, eins og núverandi ástand ljóslega og glögglega sannar. Vilji þess vegna hv. flutningsmenn þessa frv. og hæstv. landbrh. virkilega gera ráðstafanir, sem hald er i, eru öruggar og trygging í fyrir landbúnaðinn, þá eiga þeir að snúa sér að því að tryggja atvinnulífið í kaupstöðum og kauptúnum, svo að þar sé opinn og greiður markaður fyrir söluvörur bænda.