14.11.1952
Efri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

132. mál, lausn ítaka af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem nú liggur fyrir til umr., er ekki nýr gestur hér í d. Ef ég man rétt, þá er þetta fjórða heimsókn þess hingað í deildina. Það hefur verið hér til umræðu 1949, 1950, 1951, og nú er það komið hér í fjórða sinn. Auk þess mun það hafa tekið hliðargöngu til menningar og farið a.m.k. tvisvar sinnum til búnaðarþings. Nú á síðasta vori voru því skipaðir þrír skírnarfeður og ekki valið af verri endanum, ágætur lagaprófessor, búnaðarmálastjóri og einn búnaðarþingsmaður. Og það verð ég að segja og unna þeim sannmælis, að ég tel líka frv. nú sýnu skást sem það hefur verið, eins og það kemur fram núna.

Landbn., sem athugaði þetta frv., varð sammála um að leggja það til við deildina, að hún samþykki það að heita má óbreytt. Að vísu eru hér þrjár brtt., sem n. gerði, en eru aðallega sem skýringar. Fyrsta brtt. n. er aðeins til skýringar fyrir innlausnarbeiðandann, að hann verði ekki í neinum vafa um, til hvers hann eigi að snúa sér með innlausnarbeiðni sína. — Önnur brtt. er að vissu leyti efnisbreyting að því leyti, að í 7. gr. er ekki, að ég fæ séð, gert ráð fyrir því, að matsmenn þeir, sem nefndir eru, skuli virða ítakið til verðs, heldur aðallega virða notagildi þess fyrir seljandann og innlausnarbeiðanda og hversu þar muni miklu fyrir hvorn þeirra um sig. Því töldum við rétt, til að taka af allan vafa í þessu efni og til þess að matsmenn þyrftu ekki að óþörfu að gera tvær reisur til að virða ítakið, að bæta þessu ákvæði við, að ítakið yrði einnig metið til verðs þá um leið, ef óskað væri. Um þriðju brtt. er það sama að segja og um þá fyrstu, að hún er aðeins til skýringa, og er nær mestur vafi á því, hvort hún er nauðsynleg eða ekki. En þó töldum við það ekki skaða að láta hana koma fram þarna, því að þá verður á engan hátt um villzt, hvernig fer í því efni, sem þar um ræðir. Það er ýmislegt, sem mælir á móti því, að mér virðist, að flytja eignarrétt ítaka milli jarða. Þó er það oftast eðlilegast, að það færist til þeirra jarða, sem það er í, enda sett hér í frv. það skilyrði, að notagildi þess sé mun meira fyrir þá jörð, sem það flyzt til eða er í, en hinnar, sem það fylgdi áður, og má varla vægara að orði kveða. Mörg eru ítök þessi fjarlæg eiganda og erfitt að nytja þau fyrir hann sjálfan, og verður þá að selja þau á leigu og oftast þá þeim, er ætti kaupréttinn samkvæmt frv.

Að öllu þessu athuguðu töldum við nm. rétt að leggja til við hv. deild, að hún samþykkti frv. þetta með þeim breytingum, sem við höfum lagt til að yrðu gerðar á því.