16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

132. mál, lausn ítaka af jörðum

Frsm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. um lausn ítaka af jörðum er flutt á þessu þingi í hv. Ed. á þskj. 189. Frv. um þetta efni hefur áður verið flutt í þinginu og þá ekki náð fram að ganga. Í fyrravetur lagði svo landbrh. þetta mál fyrir búnaðarþing, og varð afgreiðsla þess hjá búnaðarþingi sú, að það kaus 2 menn í n. til að athuga frv. Landbrh. skipaði þriðja manninn, sem vera átti formaður n. Búnaðarþing kaus í n. þá Einar Ólafsson í Lækjarhvammi og Pál Zóphóníasson búnaðarmálastjóra, en landbrh. skipaði próf. Ólaf Lárusson sem formann hennar. Niðurstaðan af starfi n. er svo það frv., sem lagt var fram á þskj. 189, og hefur það þá tekið allmiklum breyt. frá því það var fyrst lagt fram hér í þinginu. Ed. hefur haft málið til meðferðar og gerði á því smábreyt., og liggur það nú fyrir þessari hv. d., eins og Ed. gekk frá því, á þskj. 239. Landbn. hefur nú athugað frv. og sér ekki ástæðu til að flytja við það brtt. og leggur til, eins og nál. á þskj. 463 ber með sér, að frv. verði samþ. óbreytt.