15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2295)

52. mál, hitaveita á Sauðárkróki

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem nú er tekin til umr. og liggur hér fyrir, er um hækkun á upphæð heimildar fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast stofnlán vegna hitaveitu Sauðárkrókskaupstaðar. Alþingi fyrra árs veitti ríkisstj. ábyrgðarheimild vegna þessara framkvæmda. Sú ábyrgðarheimild var að upphæð 2,8 millj. kr., en mátti þó ekki nema meiru en 80% af stofnkostnaði, og var miðað við kostnaðaráætlun, sem gerð hafði verið árið 1950 og verið upp á 3½ millj. kr.

Nú er framkvæmd verksins langt á veg komin, og komið hefur í ljós, að verðlag hefur hækkað og einnig að bora þarf eftir meira vatnsmagni. Ný kostnaðaráætlun með hliðsjón af þessari reynslu hefur verið samin og er upp á 4½ millj. kr. Á grundvelli þessarar nýju áætlunar er óskað viðbótarheimildar og sú heimild tiltekin 800 þús. kr., eða 80% af hækkun stofnkostnaðarins. Fjvn. hafði vitanlega engin skilyrði til þess að endurskoða eða dæma um þessa áætlun, en líklegt mætti telja, að þar sem verkið er langt á veg komið, þá hafi sá, er áætlunina gerði, farið nálægt því, sem verða mun.

Alþingi hefur áður samþ., að ríkið gengi í ábyrgð fyrir nokkrar hitaveituframkvæmdir, fyrst og fremst ábyrgð vegna hitaveitu Reykjavíkur á sínum tíma. Ég hef ekki getað fengið upplýst, hve hátt hlutfall var heimilað til ábyrgðar vegna Reykjavíkurveitunnar miðað við stofnkostnað, en upphæðin mátti vera 9 millj. danskra króna. 1942 heimilaði Alþingi ábyrgð fyrir hitaveitu í Ólafsfirði, 80% af stofnkostnaði, 1946 fyrir hitaveitu í Hveragerði, 85% af stofnkostnaði, og 1948 ábyrgð fyrir aflstöð og hitaveitu á Ísafirði, 90% af stofnkostnaði. Í till., sem fyrir liggur vegna Sauðárkróks, er því ekki farið í hámark fordæma þeirra, sem finnast, þegar beðið er um 80% ábyrgð.

Raforkumálaskrifstofan, sem er trúnaðaraðili ríkisins í þessum málum, telur, að hitaveita Sauðárkróks hafi skilyrði til þess að geta orðið gott fyrirtæki, sem beri sig vel fjárhagslega. Á Sauðárkróki eru nú rúmlega 1.000 íbúar. Þeir eyða, að talið er, til upphitunar um 12–13 hundruð lestum af kolum á ári. Í ár hafa þessi kol, sem íbúarnir hafa þurft að kaupa, kostað allmikið yfir ½ millj. íslenzkra króna. Þessi kolakaup verða úr sögunni, þegar hitaveitan kemur til nota, og er þá áunninn um leið varanlegur gjaldeyrissparnaður og þjóðinni hagfelldur. Gert er ráð fyrir, að nægilegt heitt vatn geti fengizt með veitunni handa helmingi fleira fólki, en nú er á Sauðárkróki. Fátt á land okkar jafngott að bjóða til lífsþæginda sem jarðhitavatnið, þegar hægt er að hagnýta það á hagfelldan hátt. Fátt er jafnsjálfsagt fyrir ríkisheildina að styðja og hagnýtingu jarðhitans. Fjvn. leggur ágreiningslaust til, að till., sem fyrir liggur, verði samþ. óbreytt.