26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2301)

111. mál, verðlaun til afreksmanna við framleiðslustörf

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil bæta nokkrum orðum til skýringar við grg. þá, sem fylgir till. okkar hv. þm. V-Húnv. á þskj. 149, og ég mun haga orðum mínum dálítið á aðra leið, en oft er gert hér á Alþ. í þrætum um lagabókstafi.

Ísland er harðbýlt land. Það er staðreynd, sem íslenzka þjóðin verður að taka til greina og haga sér eftir. Hins vegar er einnig satt, eins og betur fer, það sem skáldið kvað:

„Hér er nóg um björg og brauð,

berirðu töfrasprotann.

Þetta land á ærinn auð,

ef menn kunna að nota hann.“

Íslenzka þjóðin er í vanda stödd. Hún hélt fyrir stuttu, að hún hefði sem þjóð eignazt „töfrasprotann“, sem skáldið talar um. En það reyndist ekki vera sprotinn sjálfur, sem hún hafði í höndum, heldur skyndigróði, er henni hafði hlotnazt, að litlu leyti þó sem laun eigin dyggða, afreka, erfiðis eða fyrirhyggju.

Ég skal alls ekki lasta eða lítilsvirða þann ávinning, sem þessi skyndigróði veitti hið ytra. En innra með þjóðinni skapaði hann mikil vandamál, sem eru óleyst. Þjóðin hætti að miða lífshætti sína og lífskröfur við landskosti, og það er alvarlegt mál. Hún kastaði fyrir borð aldagamalli nægjusemi. Það skal ekki út af fyrir sig harmað. Hitt er þó áhyggjuefni í því sambandi, aó hún gerir miklu meiri kröfur til lífsþæginda en hún kann að fullnægja í landi sínu. Hana vantar „töfrasprotann“ til þess að fullnægja kröfunum, og hún leitar hans alls ekki nógu kappsamlega. Hún vill stytta vinnudag sinn og auka orlof sitt, en leggur ekki að sama skapi í heild áherzlu á að auka afköst sín við að afla bjargar og brauðs. Miklu fleira fólk en hagfellt er fyrir þjóðfélagið hefur snúið sér frá framleiðslunni að ýmiss konar annarri þjónustu, jafnvel hreinni og beinni gerviþjónustu. Langir biðlistar eru hjá ríkisskrifstofum og öðrum, er yfir slíkum vinnustöðum ráða, ef sæti skyldi losna eða stól verða við bætt. Mjög stór hluti þjóðarinnar veitir sér dýr lífsþægindi með litlu erfiði og lítilli kunnáttu í því, sem nytsamt er. Þessu fólki hefur tekizt að koma ár sinni svo vel fyrir borð, að það þarf varla eða jafnvel alls ekki að taka í árina. En hvernig má það ske, að þjóðarskútan gengur fram eins og hún gerir þó, ef mikill hluti áhafnarinnar rær alls ekki? Það er bæði af því, að til eru menn innanborðs, sem róa vel og sveitast fyrir hina, og svo skríður skútan einnig fyrir aðfengnum krafti erlendis frá.

Eftir að skyndigróðann þraut, hefur sem sé verið lifað á erlendum lánum og gjöfum, að því leyti sem þjóðartekjur hafa ekki hrokkið til. En þegar lengur er ekki lán að fá eða gjafir gefnar, hvað tekur þá við? Þá verður strand, nema straumhvörf verði í hugum, lífsháttum og vinnubrögðum þjóðarinnar. Þau straumhvörf þarf að skapa. Og eitt af hinu fyrsta, sem gera þarf, er að hefja til verðskuldaðrar viðurkenningar og virðingar þá, sem raunverulega eru undir árum á þjóðarskútunni, þá, sem erfiða af alúð og manndómi við hagnýt störf, þá, sem ganga að því að hagnýta þann auð, sem landið á, og sýna, að þeir hafa í höndum „töfrasprota“, sem til þess þarf að lifa í landinu sjálfstæðu og sómasamlegu lífi.

Á morgni þessarar aldar voru fagrir litir á hugarhimni þjóðarinnar. Þá kvað Einar skáld Benediktsson: „Að virða listir og framtak er fyrsta.“ Og hann ráðlagði þjóðinni: „Bókadraumnum, böguglaumnum breyt í vöku og starf.“

Ég er sannarlega ekki á móti bókum og bögum. En þegar ég athuga, hverju ríkið ver til þess að verðlauna þá, sem rita bækur, yrkja ljóð og stunda aðrar listir, og ber það saman við verðlaunin til hinna, sem ástunda framtak í vökulu starfi, þá sýnir sá samanburður ekki mynd af ráðdeildarsamri þjóð, sem líkleg sé til þess að geta orðið langlíf, sjálfstæð og farsæl í harðbýlu landi.

Á síðustu fjárlögum voru veittar í einum lið á 15. gr. laganna 630 þús. kr. í verðlaun til rithöfunda, skálda og listamanna. Ekki mun oftalið, að á þeirri grein allri sé ein milljón slíkra verðlauna samtals. Þetta er ánægjulegt út af fyrir sig. En þetta væri samt miklu ánægjulegra og gæfulegra, ef jafnhliða væri séð fyrir verðlaunum handa þeim, sem eru menn og konur framtaks og afreka í vökulu starfi við að afla þjóðinni bjargar og brauðs, hagsældar og fjármuna, fjármuna m. a. til þess að geta verðlaunað þá, sem bókmenntir og listir stunda.

En hvaða verðlaun veitir þjóðfélagið afreksmönnum sínum á sviði aðalatvinnuvega sinna? Hvaða verðlaun eru veitt bóndanum, sem mest heyjar, sjómanninum, sem mest aflar, iðnaðarmanninum, sem mesta og bezta vöru framleiðir? Finna þessir menn, að þjóðfélagið telji þá fremri þeim, sem sitja í hægu sæti og skila engum verkum, sem að gagni koma? Eru ekki verðlaunin frá þjóðfélaginu til afreksmannanna í framleiðslustéttunum bara því hærri skattar, því betur sem þeir gera? Er ekki áreiðanlega þarna ein af ástæðunum til þess, að óvænlega horfir og hugsunarháttur almennings fer villur vegar í mati á mönnum og stéttum og stöðuvali?

Við fögnum því að vera ekki lengur undir Dani seldir á einn eða annan hátt stjórnarfarslega og geta nú án íhlutunar Dana hlúð að þroska okkar og hagsæld. En satt að segja er það kinnroða efni, að Danakonungar höfðu skilning og hugsun á því, sem íslenzka lýðveldið hefur ekki haft til þessa, að verðlauna dugnað og hagsýni. Þess eru mörg dæmi. Ég ætla að drepa á fá ein.

Í ritum Hins íslenzka lærdómslistarfélags segir frá því, að veitt hafi verið konungleg verðlaun og náðargjafir til framfara bjargræðisvegunum á Íslandi fyrir tilhlutun Rentukammersins árið 1784. Verðlaun þessi voru í 3 liðum, þ. e. verðlaun „jarðyrkjunni viðkomandi“, „eyðijarðabygging snertandi“, „garðyrkju áhrærandi“, „fiskveiðar snertandi“, „vefnað og spuna áhrærandi“, „kornmölun viðvíkjandi“, „æðarvarp snertandi“ og svo í áttunda lagi „náðargjöf“ til eins manns, sem hafði sýnt afrek í trésmíði og var kominn á áttræðisaldur.

Svipað þessu átti sér stað mörg ár 18. aldarinnar. Á fyrri hluta 19. aldar veitti Danakonungur silfurpening að verðlaunum, sem nefndist „ærulaun iðni og hygginda“. Þá má minnast þess, að Kristján konungur IX. gaf sjóð í minningu þúsund ára hátíðar Íslands árið 1874, 8 þús. kr., sem var mikið fé á þeim tíma. Í 1. gr. skipulagsskrár sjóðsins segir á þessa leið:

„Styrktarsjóðurinn er stofnaður til þess með árlegum heiðursgjöfum sumpart að veita verðlaun þeim innbúum landsins, er í landbúnaði, hestarækt, iðnaði, fiskveiðum, sjóferðum eða verzlun hafa sýnt hina mestu og merkilegustu framtakssemi til að auka og bæta atvinnuvegi þessa, sem miklu skiptir landið, sumpart að hvetja aðra til að vinna að framförum landsins.“

Úr þessum sjóði voru veitt tvenn verðlaun árlega lengi vel, og þótti mikill vegsauki að hljóta. Sjóður þessi er enn til, en hann hefur dagað uppi og er orðinn einskis megnugur fyrir breytt peningagildi, er nú aðeins 26 þús. kr. Já, svona var þetta þó hjá konungsvaldinu „í þann ófremdartíð“, sem Íslendingar hafa kallað. En nú eru engir verðlaunaðir af lýðveldinu nema rithöfundarnir, skáldin og listamennirnir. Enginn lifir af einu saman brauði. En að láta sig brauðið og öflun þess ekki miklu skipta kann ekki góðri lukku að stýra á Íslandi.

Nú segir máske einhver: Þú gleymir fálkaorðunni, góði maður. — Nei, ég gleymi fálkaorðunni alls ekki. En hún er, eins og Jóhann small sagði um Dannebrogskrossinn, „aðallega handa þeim, sem ekki passa kindurnar sjálfir“. Ég er ekki að halda því fram, að fálkaorðan hafi ekki verið oft veitt að verðleikum, en samt eru veitingar hennar ekki fyrir svo áþreifanlega hluti, að hún valdi ekki stundum brosi í augnakrókum fólks, sem ber hita og þunga daganna hjá þjóðinni. Og hvað sem um hana má annars segja, þá hefur hún ekki hlotið þá þýðingu, að hún kalli menn fram til verklegra dáða.

Þau verðlaun, sem við er miðað í þáltill., eru eingöngu verðlaun fyrir áþreifanleg afrek, sem unnin eru í þágu framleiðslunnar í landinu. Víst er sá maður virðingarverður, sem vinnur störf sín af dyggð og stendur vel í stöðu sinni, hver sem hún er. En undirstaðan að velmegun landsins er þó aðalatvinnuvegirnir, landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður. Ef þeir atvinnuvegir eru vanræktir og ekki í heiðri hafðir, verður þjóðin fátæk og ógæfusöm. Séu þeir menn, sem stunda þá undirstöðuatvinnuvegi, ekki „virðir vel“ og afreksmenn í þeirra hópi heiðraðir að verðleikum, þá fer illa fyrir þjóðinni, þegar til lengdar lætur. Þeim mönnum, sem við framleiðsluna skara fram úr, á þjóðin að votta sérstakar þakkir og virðingu, sjálfum þeim til verðugs heiðurs og stétt þeirra til sóma og kynna afrek þeirra öðrum til eftirbreytni og hvatningar, því að þetta eru mennirnir, sem bera „töfrasprotann“ við öflun bjargar og brauðs, hagsældar og efnalegs sjálfstæðis.

Ungmennafélag Íslands hefur tekið upp starfsíþróttakeppni á íþróttamótum sínum og verðlaunaveitingar fyrir verklega fimi æskumanna. Vel sé ungmennafélögunum fyrir það. Þar hefur æskan rétt sína örvandi hönd. Af henni má mikils vænta, ef hún beitir sér fyrir því að hefja til vegs og virðingar þá, sem leggja hönd á plóginn. En hún má ekki vera ein að því verki. Þjóðfélagið verður strax að hefja með henni sókn, verðlauna þá menn, karla og konur, sem sklla yfirburða miklum og góðum dagsverkum á sviði framleiðslunnar eða með hugviti sinu finna heillaráð handa þeim, sem þá aðalatvinnuvegi landsins stunda, til þess að hagnýta þann ærna auð, sem landið á, „ef menn kunna að nota hann“. Ég treysti því, að hið háa Alþ. telji hiklaust við eiga að samþ. þessa till. um að fela ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta þing löggjöf um verðlaunaveitingar frá þjóðfélaginu til afreksmanna við framleiðslustörf.

Síðan till. kom fram, hefur Samband ísl. fiskframleiðenda samþ. á fundi sínum að veita á hvers árs aðalfundi viðurkenningu fyrir góða fiskverkun þeim manni, sem þar skarar fram úr. Þetta er gleðilegur vottur um, að einhverjir fleiri, en ungmennafélagarnir eru að vakna til skilnings á mannfélagslegu gildi verklegra afreka, og m. a. sönnun fyrir því, að þessi þáltill. er tímabær og stefnir í rétta átt. Löggjafarundirbúningur sá, sem till ætlast til að ríkisstj. láti fram fara fyrir næsta þing, verður að vera vandlegur, svo að skýrt komi fram í löggjöfinni, að alls ekki sé um tildurmál að ræða og engar „orður og titla í eyður verðleika“. Verðlaunin til afreksmanna við framleiðslustörf eiga að veitast fyrir mæld og áþreifanleg afköst. Þau eiga að vera opinberir vottar þakklætis og virðingar frá þjóðfélaginu fyrir sanna verðleika og við þau tengd alúð þjóðar, sem vill lifa af eigin efnum sjálfstæðu, hamingjusömu lífi, þótt í harðbýlu landi sé.

Mér finnst lítil ástæða til þess, að frestað sé þessari umr. og till. vísað til n. Ég álít, að hún megi samþ. strax án frestunar, en verði henni vísað til n., legg ég til, að henni verði vísað til hv. allshn.