22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (2320)

64. mál, jarðboranir

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Nokkrar hitaveitur eru þegar upp komnar og teknar til starfa hér á landi. Hin fyrsta og mesta er hitaveita Reykjavíkur, en síðan hafa bætzt í hópinn Ólafsfjörður, Selfoss og á Sauðárkróki er unnið að hitaveitu, sem bráðlega tekur til starfa. Fleiri munu í undirbúningi.

Það er ein hætta, sem vofir yfir öllum þessum miklu mannvirkjum. Hún er sú, að þeir, sem eiga lönd eða hitaréttindi í grennd, vilji fara sjálfir að bora eftir heitu vatni. Það er augljóst, hvílík hætta gæti af því stafað, og vil ég nefna eitt dæmi því til sönnunar. Upphaflega fékk hitaveita Reykjavíkur aðeins vatn frá Reykjum í Mosfellssveit. Síðan festi Reykjavíkurbær kaup á annarri jörð og hitaréttindum þar, eða í Reykjahlíð í Mosfellsdal. Þar voru síðan hafnar jarðboranir af hálfu bæjarins, og kom þar upp allmikið af heitu vatni. Þegar borunum var haldið áfram, brá svo við eitt sinn, þegar mikið nýta vatn kom upp í Reykjahlíð, að vatn þvarr að sama skapi á hinum fyrri stað, á Reykjum. Að sjálfsögðu kom þetta ekki að sök nema um stuttan tíma, vegna þess að sami eigandi var að hitaveitunni og þessum stöðum báðum. Ef hins vegar Reykjahlíð í Mosfellsdal hefði verið í eigu annarra og sá jarðeigandi hefði hafið þar boranir, er bersýnilegt, hversu örlagaríkt það hefði getað orðið fyrir hitaveitu Reykjavíkur.

Þó að hér hafi ekki komið að sök, þá er þessi hætta að sjálfsögðu vofandi yfir öllum hitaveitum, hvar sem er á landinu. Það er því fullkomin nauðsyn að tryggja tilveru þessara miklu og dýru mannvirkja. Þessi mannvirki spara ekki aðeins stórkostlega gjaldeyri, heldur veita íbúunum margvísleg þægindi og meðal annars ódýrari upphitun, en upphitun er með olíu eða kolum.

Ég tel fulla nauðsyn þess að setja löggjöf, sem tryggi þessi mannvirki gegn þeirri hættu, sem ég hér hef lýst. Það er nauðsynlegt að setja löggjöf um eftirlit með jarðborunum, þar sem áskilið sé leyfi vissra stjórnarvalda til þess að hefja jarðboranir og að áður fari fram á því athugun sérfróðra manna, að slíkt geti ekki valdið verulegu tjóni fyrir þau mannvirki, sem fyrir eru.

Þessi till. á þskj. 64 fer fram á að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um eftirlit með jarðborunum og leggja fyrir næsta þing frv. um það efni.

Ég vænti þess, að allir alþm. geti orðið á einu máli um, að nauðsyn er slíkrar löggjafar, og styðji þetta mál til framgangs.

Ég vildi leggja til, að umr. yrði frestað og málinu vísað til hv. allshn.