10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (2340)

158. mál, lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi segja aðeins örfá orð um þessa till., ef svo skyldi fara, að hún færi ekki til n., eins og hv. frsm. hefur lagt til.

Ég tel, að till. þessi stefni í rétta átt. Hún getur að sjálfsögðu ekki ráðið úrslitum þessa máls, en hins vegar er ekki álíklegt, eins og flm. benti á, að milliganga hlutlauss aðila í málinu, ríkisstjórnarinnar, mundi geta greitt fyrir því, að þeir samningar kæmust fyrr á, sem að hefur verið unnið undanfarin ár, en ekki hefur tekizt að ljúka af ýmsum ástæðum, sem hv. þm. Ak. hefur minnzt hér lítillega á.

En það liggur í augum uppi öllum, sem til þekkja, að það er eðlilegt, að Glerárþorp sé sameinað Akureyri. Hagsmunir þorpsbúa, eins og málum er háttað, gera þetta í rauninni óhjákvæmilegt. Þeir hafa flestir að meira eða minna leyti atvinnu á Akureyri. Þeir eiga hins vegar á því sviði við mikla erfiðleika að etja, vegna þess að verkamannafélög á Akureyri amast við vinnu þeirra þar, þar sem þeir eru utanbæjarmenn, en hins vegar eru atvinnuskilyrði í þorpinu ekki mikil. Eins og hv. þm. Ak. benti á, þá er nú stöðugt meira og meira byggt í Glerárþorpi af fólki, sem búsett er á Akureyri, og það eru mjög miklar líkur til, að þessar byggingar fari mjög vaxandi og ekki sízt, eins og hann benti á, þegar vegur er kominn þarna í gegn, muni menn heldur kjósa að reisa ný hús sem næst þessari aðalgötu inn í bæinn.

Það er því augljóst allra aðstæðna vegna, bæði vegna legu þorpsins, vegna aðstöðu þorpsbúa til vinnu og vegna þess að, að þeim er þannig búið á annan hátt, að það er í rauninni óumflýjanlegt, að sameining verði milli bæjarins og þorpsins.

Það hefur verið á það bent, að eins og nú er gengið frá útsvarslöggjöf, þá er hægt að fá lagt útsvar á vinnu manna á öðrum stað en þar, sem þeir búa, t. d. Glerárþorpsbúar, sem vinna inni á Akureyri, verða að búa við sömu útsvör og Akureyringar. Ef bæjarstjórn Akureyrar krefst þess, þá eru lögð viðbótarútsvör á þá, sem vinnu hafa á Akureyri, þar til þeir eru komnir í sama útsvarsstiga eins og gildir á Akureyri, enda þótt útsvarsstigi í Glæsibæjarhreppi kynni að vera lægri.

Þetta ásamt öðru gerir það að verkum, að þorpsbúar hafa allt óhagræðið af sinni aðstöðu, en hafa í raun og veru engin hlunnindi. Og ef hart verður gengið fram í því að útiloka þá frá vinnu á Akureyri, sem alltaf má gera ráð fyrir, eftir því sem erfiðleikar vaxa á vinnumarkaði, þá er í raun og veru aðstaða þeirra til lífsbjargar ákaflega erfið.

Um hafnarmál þeirra er alveg sömu sögu að segja. Úr Glerárþorpi er mikil smábátaútgerð. Þeir hafa hins vegar mjög erfið hafnarskilyrði. Meginhluti af þeirra framleiðslu fer að sjálfsögðu til frystihúsa og til annarrar sölu í bæinn, en þeir hafa engan aðbúnað innan bæjarins eða í höfninni til þess að stunda sína atvinnu.

Allt þetta gerir það að verkum, að ekki er sjáanlegt annað, en að brýn nauðsyn sé á því, að þessi sameining Glerárþorps við Akureyrarkaupstað geti farið fram sem fyrst, og ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að þessi till. hv. 1. þm. Eyf. verði samþ.