10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2379)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég flutti samhljóða þáltill. á síðasta þingi, en hún fékkst ekki útrædd.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar um það, að Sþ. skori á ríkisstj. að hefja sem fyrst smíði innanlands á 10 fiskibátum að stærð 25–60 tonn brúttó, er seldir væru útvegsmönnum með góðum greiðsluskilmálum og vaxtakjörum. Það hefur verið svo undanfarin ár, að lítið sem ekkert — og má sennilega frekar segja ekkert — hafi verið byggt af nýjum skipum hér innanlands. Þetta er ákaflega bagalegt vegna þess, að það er óhjákvæmilegt að reka viðgerðarstöðvar báta hér við land til viðhalds þeim bátum, sem núna eru í gangi, en hins vegar mjög erfitt að reka þær, ef þær hafa enga nýsmíði með höndum. Þetta er svo bagalegt, að það stendur beinlínis öllum viðgerðum bátanna fyrir þrifum, og má búast við því, að það verði miklu dýrara yfirleitt að fá eðlilegar viðgerðir, þegar skipasmíðastöðvarnar hafa enga nýsmíði, ekkert verk, sem þær geta sett sinn fasta mannskap í á milli þess sem viðgerðirnar ber að, en það er vitanlega mest þegar verið er að útbúa skipin á vertíð, bæði síldarvertíð, vetrarvertíð og yfirleitt á önnur úthöld, og þá mjög oft á svipuðum tíma margir bátar í einu. Þess á milli verða þær að standa uppi með mennina, ýmist að segja þeim upp eða hafa kostnað af því að greiða þeim kaup án þess að geta falið þeim ákveðin verkefni, sem verður til þess, að skipasmíðastöðvarnar hyllast til þess að taka óeðlilega mikið fyrir viðgerðir sínar til þess að standa undir þessum kostnaði. Þetta er sem sagt óhjákvæmileg nauðsyn til þess að geta haldið uppi eðlilegri starfsemi í skipasmíðastöðvum eða bátasmíðastöðvum landsins.

Nú er það svo, að á undanförnum 2–3 árum hafa verið fluttir inn nokkrir bátar, sem hafa verið smíðaðir erlendis, þrátt fyrir það þó að reynslan sýni, að íslenzku bátarnir eru betri, ódýrari í viðhaldi og á allan hátt betur við hæfi og eftir óskum íslenzkra sjómanna og fiskimanna heldur en hinir erlendu bátar. Það hafa margir þeir gallar komið fram t. d. á þeim bátum, sem smíðaðir voru í Svíþjóð, sem ekki hafa komið fram á þeim bátum, sem smíðaðir voru hér heima. Og yfirleitt hafa þeir bátar, sem smíðaðir voru hér heima, 26 talsins, á vegum ríkisstj. reynzt mjög vel. Það hafa líka verið smíðaðir fleiri bátar á vegum einstaklinga. Þeir hafa líka reynzt mjög vel hér og sýnt sig að vera ódýrustu bátarnir í rekstri. Það er oft svo, að þótt þessir bátar, sem koma erlendis frá, séu nokkru ódýrari en innlendu bátarnir, þá hefur það unnizt upp og meira til í alls konar viðgerðum, sem hefur verið nauðsynlegt að framkvæma á hinum erlendis byggðu bátum strax eftir að þeir komu frá útlöndum eða mjög fljótlega eftir að farið var að nota þá hér. Verst hafa þó reynzt hinir gömlu erlendu bátar, sem ekki hafa verið smíðaðir eftir íslenzkum kröfum, heldur smíðaðir eftir erlendum kröfum í skipasmíðastöðvum erlendis og fluttir inn gamlir, sérstaklega frá Svíþjóð. Þeir hafa reynzt mjög illa, og hafa margir farizt með allri áhöfn, og ber kunnáttumönnum saman um, að það muni stafa af því, að yfirbygging þessara báta sé óhæfilega veikbyggð miðað við íslenzkt sjólag og íslenzka veðráttu, og bátarnir muni hafa farizt með þeim hætti, að tekið hafi ofan af þeim og skipið opnazt. En þeir hafa nokkrir farizt alveg. Þetta hefur sýnt, að þær kröfur, sem gerðar eru til íslenzkra báta, og sá byggingarmáti, sem íslenzkir skipasmiðir fylgja, er ekki út í bláinn, þrátt fyrir það þótt það sé nokkru dýrara, en erlendis. Það er nauðsynlegt til þess að tryggja öryggi sjómanna okkar í hinum miklu veðrum, sem Íslendingar verða að stunda sjó í, þegar tillit er tekið til þess, að aðalvertíð íslenzkra fiskibáta er um erfiðasta tíma vetrarins.

Ég tel það vera mikla nauðsyn, að hafizt verði handa um byggingu báta til þess að halda við þeim bátaflota, sem við höfum. Við eigum stóran bátaflota og mikinn, og því miður hefur ekki orðið eins mikið gagn og brúk af þeim bátaflota eins og við hefðum vænzt, vegna þess að síldin hefur brugðizt okkur í svo mörg ár. Engu að síður er nauðsynlegt, að okkar bátafloti minnki ekki verulega eins og nú hefur verið, enda telja, skýrslur, að heildarburðarmagn þeirra báta, sem tölunni týna á hverju ári, bæði með því að verða ónýtir fyrir aldur og með því að farast á einn eða annan hátt, muni vera allt að um þúsund tonn brúttó. En það, sem hér er farið fram á, er, að smíðaðir verði 10 fiskibátar að stærð 25–60 tonn, sem ætti að vera aldrei meira, en svona ca. 500 tonn samtals. Það sést af þessu, að þetta er ekki nema upp í nokkurn hluta af því skarði, sem heggst í bátaflota okkar á hverju ári, og er þegar orðið þannig, að menn sætta sig ekki við að fá ekki báta í skörðin og eru sífellt að sækja um það til hins opinbera að fá að kaupa báta erlendis til þess að þurfa ekki að hætta þessum atvinnurekstri, þeir sem misst hafa sína báta.

Það mun vera nokkur munur á verði báta, sem byggðir eru erlendis, og báta, sem byggðir eru innanlands, en verulegur hluti af þeim mismun er þó hlutir, sem við getum ráðið við sjálfir. Það eru t. d. skattarnir. Um það liggja sérstaklega fyrir í máli hér í þinginu ákveðnar till. Það eru tollar alls konar á innfluttu efni til bátanna. Ef þeir tollar væru felldir niður og íslenzkum skipasmíðastöðvum þannig veitt sama aðstaða og erlendum skipasmíðastöðvum hvað verðlag snertir á bátum hér innanlands, þá er mismunur á verðlagi báta, sem smíðaðir eru hér innanlands, og báta, sem keyptir eru erlendis frá og smíðaðir þar, svo óverulegur, að hagræðið af því fyrir þann, sem er að byggja bátinn, fyrir væntanlegan eiganda, að geta fylgzt sjálfur með eða látið fylgjast sjálfur daglega með allri smíðinni og þar með fyrirbyggja ýmsa vankanta, sem oft vilja verða á bátum, sem eru smíðaðir undir minna eftirliti, er fyllilega endurgjald fyrir það, sem þessir bátar kunna að verða dýrari. Ég vænti þess því, að hv. þm. athugi gaumgæfilega þetta mál og kynni sér hver í sínu byggðarlagi, hvernig ástand og horfur eru með þessa hluti þar, og býst við því, að það sé ekki farið neitt óvarlega, þá að ríkisstj. sé heimilað að hefja smíði á 10 fiskibátum af þeirri stærð, sem hér um ræðir. — Ég vil svo leggja til, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.