14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2384)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur nú fyrir á þskj. 511 nál. hv. allshn. um till. þá um smíði 10 fiskibáta innanlands, sem flutt var hér á Alþ. fyrir nokkru á þskj. 257.

Eins og hv. frsm. n. tók fram, þá leggur n. til og er sammála um það, að till. verði breytt nokkuð og að hún verði samþ. þannig. Í till. eins og hún yrði, ef breyt. hv. n. yrði samþ., eru tvö meginatriði. Annars vegar er gert ráð fyrir, að skorað sé á ríkisstj. að láta athuga, hve mikið fiskibátafloti landsmanna hafi rýrnað á síðustu þrem árum. Hins vegar svo að athuga möguleika á því að láta smíða hentuga fiskibáta í íslenzkum skipasmíðastöðvum.

Ég tel sjálfsagt að samþ. fyrra atriði till. eins og n. hefur gengið frá því. Það er nauðsynlegt að athuga þá breytingu, sem hefur orðið á fiskiflotanum. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. tók fram í sinni ræðu, að þar hefur orðið um verulega rýrnun að ræða, og þarf að fá það nánar upplýst, hve mikil hún er og hvers konar, þ. e. a. s., hvað mikið hefur farizt eða gengið úr skaftinu af nýjum bátum og hvað mikið af eldri skipum og þess háttar.

Viðvíkjandi síðara atriðinu vil ég segja örfá orð. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hv. n., hvort það sé meiningin með þessari orðun till., að lögð verði einhliða áherzla á smíði báta í innanlands, hvort það sé tilgangur n. með þessu orðalagi, að lögð verði einhliða áherzla á að bæta úr þeirri rýrnun, sem orðið hefur, með smíði innanlands, og ef svo er ekki, hvort n. þyki þá ekki ástæða til þess að gera orðalagið að þessu leyti nokkru rýmra en það er í till. hennar. Aðalatriðið er að sjálfsögðu það, a. m. k. frá sjónarmiði þeirra, sem við útveginn fást, að fá báta í skarðið fyrir þá, sem hafa gengið úr skaftinu, farizt eða á annan hátt. Hitt er svo fremur áhugamál annarra, hvort þeir eru smíðaðir innanlands eða ekki, þó að innanlandssmíði sé þjóðhagslega séð mjög æskileg, ef möguleikar eru til þess. En frá sjónarmiði útgerðarinnar er það að sjálfsögðu aðalatriðið að fá bættan þann missi, sem orðinn er, hvort sem það er gert með því að smíða bátana innanlands eða kaupa þá erlendis. En ég nefni þetta hér vegna þess, að um það eru nokkuð skiptar skoðanir, hvort eigi að gera, og a. m. k. allmargir hafa lagt áherzlu á það af þeim, sem hafa verið að reyna að koma upp nýjum bátum, að þeir yrðu einmitt keyptir frá útlöndum, en ekki smíðaðir innanlands, og það er vegna þess, að talið er, að hinir erlendu bátar séu miklu ódýrari en þeir, sem smíðaðir eru hér á landi. Það hafa verið nefndar tölur, sem virðast sýna það, ef réttar eru, að þetta geti munað svo að ekki sé of mikið sagt — 30–40% á því, hvort bátur er smíðaður innanlands eða keyptur erlendis og það jafnvel þó að eftir væru gefnir þeir tollar, sem nú eru á smíðaefni til báta, og þetta er náttúrlega ákaflega mikill munur. Mér finnst því fyrir mitt leyti ekki ástæða til þess að slá því á nokkurn hátt föstu, að það eigi að auka flotann einhliða á þann hátt að smíða skipin innanlands, heldur sé a. m. k. ástæða til þess, að það mál sé enn athugað nokkuð, hvort hagkvæmara sé, og ekki slegið neinu föstu um það af hálfu Alþ. Nú má það líka vel vera, að það vaki alls ekki fyrir hv. n. að leggja einhliða áherzlu á smíði innanlands, þó að það sé sérstaklega nefnt, en þá væri æskilegt, að það kæmi fram hér í umr., t. d. að með þessu væri ekki verið að gefa það í skyn af hálfu Alþ., að það ætti að fresta eða ef til vill stöðva um hríð innflutning á erlendum skipum, því að það finnst mér að gæti verið nokkuð varhugavert, ef það væri gert. — Það var aðallega út af þessu atriði, sem ég kvaddi mér hljóðs, af því að mér finnst æskilegt, að það komi nokkru gleggra fram hér í umr., áður en till. er afgreidd, hver hugur hv. n. er í því efni.