14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Út af aths. hv. þm. N-Þ. vildi ég geta þess, að sú þáltill., sem hér er til umr., ræðir um smíði fiskiskipa innanlands, en n. bætti því við, að hún teldi rétt að láta rannsaka rýrnunina á flotanum og athuga jafnframt möguleika á því að láta smíða hentuga fiskibáta í íslenzkum skipasmíðastöðvum. Með þessu er á engan hátt verið að segja, að það megi ekki bæta úr bráðri þörf útvegsmanna með því að veita þeim innflutningsleyfi fyrir bátum, því að sú smíði, sem gæti farið fram a.. m. k. í nálægri framtíð, yrði aldrei það mikil að vöxtunum, þegar þess er gætt, að skipasmíðastöðvarnar liggja eiginlega alveg niðri og hafa hvorki efni né annað til þess að vinna úr, — hún yrði aldrei svo mikil að vöxtunum, að hún megnaði einvörðungu að ráða bót á skortinum, sem er alltaf að koma fram í bátaflotanum.

Það er fjarri allshn. og fjærst mér með þessari samþykkt að leggja neinn stein í götu þeirra manna, sem neyðast til þess, vegna þess að ekkert íslenzkt nýtt skip er á boðstólum m. a., að sækja til fjárhagsráðs um innflutningsleyfi fyrir báti, eða leggja nokkurn stein í þeirra götu, því fer fjarri. Ég hef komið of mikið nálægt því sjálfur á undanförnum árum að reyna að bæta úr þörf minna kjósenda og sjómanna þar með því að herja á fjárhagsráð æ ofan í æ og mánuðum saman til þess að fá innflutningsleyfi fyrir bátum, — ég hef gert of mikið að því til þess, að ég ætti að snúa við blaðinu í þessu efni. En jafnvel þó að horfið væri einvörðungu að því ráði að veita innflutningsleyfi fyrir bátum smíðuðum frá útlandinu, þá er ekki fullnægt nema annarri hlið þessa máls. Það er fullnægt þörf útgerðarmannsins í bili. En honum er hins vegar ekki séð fyrir því, að fagmaður eða fagmenn starfi áfram á skipasmíðastöðvunum, sem hann geti leitað til, þegar hann þarf að fá eitthvað gert við þennan eða aðra báta sína, og það er með því að hafa báta í smíðum á sem flestum skipasmíðastöðvunum, að þar standi skip, sem smiðirnir geti horfið að, þegar þeir eru ekki að vinna við viðgerðir, að þeir geti haft eitthvað í smíðum, hægt að halda sérfræði þeirra við og tryggja það, að góðir skipasmiðir séu fyrir hendi, — það fengist tryggt með því, að nokkuð væri að því gert að smíða innanlands jafnframt. Að sjálfsögðu verður að sinna bráðri þörf útvegsmanna með því að leyfa þeim að flytja inn útlenda báta, ef engir íslenzkir eru til ellegar þá verðbilið á milli er svo gífurlegt, að þeir fá ekki við ráðið. Og það er einmitt þarna, sem sérstaklega reynir á skilning hins opinbera og þörf er á aðstoð hins opinbera við að minnka þetta bil, því að þá þori ég að segja, að 9 af hverjum 10 útvegsmönnum mundu kjósa íslenzk-smíðaða bátinn fram yfir þann útlenda, ef verðið væri, sem maður segir, nokkurn veginn sambærilegt.

Hv. þm. N-Þ. má ómögulega misskilja mig svo eða n., að hún vilji með þessu leggja nokkurn stein í götu fyrir það, að menn geti fengið sér innflutningsleyfi fyrir bát. Hún er þvert á móti að reyna að greiða fyrir því og greiða fyrir því um leið, að skipasmíðastöðvarnar hafi eitthvað handa á milli. Það eru svo miklu fleiri bátar, sem þarf á hverju ári, heldur en það, sem flm. þessarar till. fór í fyrstunni fram á að smíðaðir yrðu; það eru svo miklu fleiri, sem þarf til landsins á hverju ári, heldur en þar eru taldir. Og vitaskuld þarf að halda í fyrsta lagi opnum leiðum að því, að menn geti bætt bátakost sinn, á hvern hátt sem er. En með þessari þáltill. og brtt., sem henni fylgir frá n., er bent á það, sem nauðsynlegt er að þurfi að gera jafnframt hinu. Ætla ég svo, að hv. þm. þurfi ekki að vera í neinum vafa um, hvað hér er meint, eftir þessar útskýringar.

Það er svo mál út af fyrir sig, sem vel væri þess vert að þingið athugaði, hvað óendanlega mikil tregða getur verið fyrir hendi í fjárhagsráði að greiða fyrir því, að menn geti fengið sér bát frá útlandinu, þó að þeir standi uppi bátlausir, eins og oft vill verða og nú er t. d. tilfellið, og þarf ekki að taka það upp í beinu samhengi við þetta mál, sem snertir hvort tveggja í senn þörf útgerðarmanna og þörf iðnaðarins. Ég veit t. d. um menn í Vestmannaeyjum, sem misstu bát sinn í fyrra, og þótt bæði ég og þeir höfum farið margar ferðir og skrifað mörg bréf til fjárhagsráðs til þess að reyna að fá leyfi fyrir bát í stað þess, sem brann, — því að hann brann, þessi bátur, — þá hefur það ekki lukkazt. Og ég er sízt af öllu að mæla þeirri tregðu bót og tel hana mjög átöluverða, en það þarf ekki að standa í vegi fyrir því, að till. sú, sem hér liggur fyrir, sé samþ.