04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2417)

73. mál, rannsókn á jarðhita

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hef ekkert við það að athuga, að þessi till. sé samþykkt. Það er ekki nema gott um það að segja, að mönnum er nú almennt í þessu landi, bæði þm. og öðrum, orðið það ljóst, að jarðhitinn er mjög mikils virði, og það má segja, að bæði utan þings og innan sé mjög mikill áhugi ríkjandi á því, að þessar rannsóknir, sem hér er um rætt, fari fram.

Það er einnig nauðsyn á því að fá almenna löggjöf um jarðhita, en það er ekki vandalaust verk að semja löggjöf um jarðhita. Raunverulega þurfa víðtækar rannsóknir að fara fram á jarðhitanum, eins og raforkumálaskrifstofan bendir á, áður en löggjöf verður sett. Ég hygg, að það hafi fáar stofnanir hér í landi meiri áhuga á því að fá almenna löggjöf um jarðhitann heldur en raforkumálaskrifstofan, sem mikið hefur við þessi mál fengizt, en fáum sennilega ljósara, hvað það er vandasamt að setja löggjöf um jarðhitann, meðan við vitum ekki, hvernig honum er háttað. Það er m. a. ekki vandalaust að setja ákvæði um það, hvað einstaklingar eiga og hvað ríkið á, og draga mörkin þar á milli. Kemur þar til athugunar margt, m. a. hvort einstaklingar eiga að eiga nokkuð af hitanum, sem er á yfirborðinu, og þá hvað langt niður í jörðu. Allt þetta er erfitt að setja löggjöf um, fyrr en maður veit nánar um jarðhitann.

Nú er mjög mikill áhugi á því að rannsaka, hvernig jarðhitanum er háttað, og það eru ákaflega tíðar fyrirspurnir frá einstaklingum um það, hvort þeir geti fengið rannsakað hjá sér möguleika fyrir notkun jarðhita, sem þeir álita að sé þar og þar í jörðu.

Þegar ég tók við þessum málum, höfðu rannsóknir farið fram og boranir allvíða í landinu, og ríkið hafði haft í notkun allmarga jarðbora til þess að láta rannsaka jarðhita, og það er skemmst af því að segja, að þetta var framkvæmt fyrir áhugasama einstaklinga, sem þá voru til staðar og enn eru margir til staðar, en skuldirnar voru orðnar 700 þús., sem fjöldi manna og sveitarfélaga stóð í við raforkumálaskrifstofuna fyrir framkvæmdar mannsóknir og fyrir framkvæmdar boranir, sem einnig eru hluti af rannsókninni.

Það var þess vegna breytt þannig til, að raforkumálaskrifstofan var látin segja til um það, hvar væru mestar líkur fyrir því að beita þeim jarðborunum, sem raforkumálaskrifstofan eða m. ö. o. ríkið gegnum raforkumálaskrifstofuna réð yfir, og síðan var hætt að láta ríkið framkvæma þessar boranir, en borarnir voru lánaðir gegn sanngjörnu endurgjaldi sveitarfélögunum og stofnunum, sem vildu bora á þeim stöðum, sem raforkumálaskrifstofan áleit að mundu geta gefið fljótan árangur. Nægir að nefna hitasvæðið nálægt Selfossi. Þar var unnið með jarðborum, sem ríkið lánaði gegn hæfilegri leigu, og enn fremur í námunda við Sauðárkrók. Sömuleiðis hafa verið lánaðir jarðborar til þess að rannsaka kolalögin vestur í Dölum.

Af þessari stuttu sögu sést það, að það vantar ekki áhugann hjá landsmönnum til að framkvæma þetta, en menn verða að minnast þess, að þessar rannsóknir eru mjög dýrar. Enn þá eru rannsóknir á yfirborði jarðar ekki komnar á það stig, að þær gefi neina fullvissu um það, hvort heitt vatn er í jörðu, þó að það gefi bendingar, og á því vil ég vekja athygli í sambandi við þetta mál og reyndar annað mál, sem hér er á dagskrá, um rannsókn náttúrusuðæfa almennt, að vitanlega er sjálfsagt, að ríkisstj. framkvæmi eða láti framkvæma þessar rannsóknir, eftir því sem unnt er, — allar þær rannsóknir, sem stofnanir ríkisins geta framkvæmt án sérstaks kostnaðarauka, er sjálfsagt að láta framkvæma, en þm. verða að gera sér það ljóst, að rannsóknir, sem kosta fé, er ekki hægt að framkvæma hraðar en fjárveiting er veitt til þess á fjárlögum að framkvæma rannsóknirnar. Þetta vil ég hafa sagt um þær óskir, sem hér koma fram í tveim þáltill., þannig að ríkisstj. verði ekki eftir á krafin um meiri verk í þessum málum, en þingið hefur markað ríkisstj. með fjárveitingu til þessara mála.

Meira sé ég ekki ástæðu til þess að segja um þessa þáltill., og ég hef síður en svo neitt við það að athuga, að þingið sýni áhuga sinn í þessu máli með því að samþ. þessa till., þó að ég hefði kosið heldur, að fjárveitingin til rannsóknanna væri meiri, en hún er og það hefði verið a. m. k. gert samhliða till.