04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2436)

204. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur tekið til meðferðar till. þá á þskj. 538, um undirbúning heildaráætlunar í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins, sem nú er hér til umræðu.

N. var á einu máli um það, að málefni það, sem till. fjallar um, væri þess eðlis, að því bæri að gefa mjög gaum og mikilvægt væri að hraða aðgerðum þeim, sem um er rætt í þessari till., og þess vegna taldi n. sjálfsagt, að till. fengi afgreiðslu á þessu þingi, þótt hún kæmi seint fram.

Hv. 1. flm. till., þm. N-Ísf., rakti mjög ýtarlega í sinni framsöguræðu hér í hv. Alþ. þær röksemdir, sem liggja að baki þeirri hugmynd, sem í till. er, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það mál hér nánar, en allshn.-mönnum var það öllum ljóst, að það er mikils um vert fyrir þjóðfélagið og til þess að við getum í raun og sannleika byggt allt okkar land, en hrekjumst ekki með allt fólkið til örfárra þröngra, afmarkaðra svæða á landinu, að leitazt verði við eftir megni að sporna fæti gegn því, að fólkið streymi úr hinum strjálu byggðum víðs vegar um land og til hinna þéttbýlli svæða og þá fyrst og fremst höfuðborgarinnar og þéttbýlisins hér við Faxaflóa.

Það er auðvitað hægt að framkvæma margvíslegar aðgerðir á þessu sviði, og það verður auðvitað ekki tekin afstaða til þess, hvorki af allshn.Alþ. yfirleitt, hversu mönnum sýnist um þær till., sem fram kunna að koma við þessa rannsókn. Það getur auðvitað komið til greina, að menn verði ekki á eitt sáttir um þær leiðir, sem till. kynnu að koma fram um. En eitt hygg ég þó, að allir muni vera sammála um, að það verði að vinna að þessu máli og reyna sem allra fyrst að kanna allar hugsanlegar leiðir til þess að geta á heilbrigðan hátt stuðlað gegn þeirri óheillavænlegu þróun, sem óneitanlega hefur verið í þessu efni í þjóðfélaginu um alllangt skeið undanfarið, og af þeim sökum sé það mikilvægt, að þessi till. verði samþ. og sú athugun fari fram sem allra fyrst, sem í henni er gert ráð fyrir. Það er því samdóma álit allshn. að mæla með því, að till. verði samþ. eins og hún er á þskj. 538.