04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

143. mál, Flóa- og Skeiðaáveiturnar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún afgr. þessa till. Ég býst reyndar við, að við hefðum nú fremur kosið, flm. hennar, að hún hefði verið nokkuð á annan veg. En vera má, að það beri nú reyndar ekki svo mikið á milli okkar upphaflegu till. og þessarar till., er hv. fjvn. ber fram, brtt. hennar, þannig að það megi að minnsta kosti með góðum vilja ná sama árangri og það er vitaskuld höfuðatriðið.

Ég hef ekkert við það að athuga, þó að hv. fjvn. felldi niður ábyrgðarheimildina. Það hefði verið í sjálfu sér eðlilegra, þar sem fjárl. voru á ferð, að maður hefði tekið þá upphæð og komið henni inn í fjárl., ef það hefði álitizt nauðsynlegt. Ég get búizt við því, að samkv. athugun og till. þeirrar n., sem fær málið til rannsóknar, hefði hvort sem er tæpast unnizt tími svo tímanlega sumars, að hægt hefði verið að framkvæma mikið, og þá þarf ekki að koma að sök, þó að þessi ábyrgðarheimild sé ekki veitt.

Um efni brtt., borið saman við þá till., sem við flm. bárum fram, ber nú reyndar, sýnist mér, ekki svo mjög á milli. Það er gert ráð fyrir í brtt., að rannsókn fari fram, eins og er í upphaflegu till., bæði á löggjöfinni og staðháttunum, mannvirkjunum. Vitaskuld er það fyrst og fremst það, sem máli skiptir, og má segja, að þetta bindi hvað annað, og þess vegna gerir ekki svo mikið, þó að þessi munur sé nú á till., því að það má segja, að það sé meira orðamunur en efnis. Ég fyrir mitt leyti hefði nú kosið heldur, að maður frá Skeiðaáveitunni hefði tekið þátt í störfum, þegar athugun þeirrar áveitu fer fram, en mér skilst nú, að þeir geti komið því ósköp vel fyrir, svo að það þurfi ekki að valda neinni hindrun á athuguninni, þó að sami maðurinn starfi að því á báðum stöðunum. Það verður vafalaust samvinna við kunnuga menn um þetta hvort sem er á báðum áveitusvæðunum, svo að þetta þarf ekki að hindra góða niðurstöðu.

Hv. frsm. fjvn. getur þess, að n. hafi eiginlega ekki verið ljóst, hvað hér kynni að vera mikið um að ræða, og það þykir mér ofur eðlilegt. Ekkert þess konar liggur fyrir, og ég hygg, að án undangenginnar nákvæmrar athugunar geti eiginlega enginn sagt um það, því að þetta svæði er svo stórt og áreiðanlega margt, sem kemur til greina, þegar athugun og rannsókn fer fram, að fyrir fram er ekki hægt að staðhæfa neitt um slíkt. Vera má, að hv. n. hafi líka gert sér nokkra hugmynd um það eða fundizt ástæða til þess út af því bréfi, sem hv. búnaðarmálastjóri hefur sent fjvn. Og ég verð að láta það í ljós, að mér þykir miklu miður, að búnaðarmálastjórinn skuli hafa haft svona rangar fregnir um áveituna, því að ég sé það af áliti hans, að hann hefur hvorki haft sannar spurnir af ástandi hennar né hvernig hún hefur verið rækt á þessu svæði. Það er fjarri því, að meginþorri bænda á þessu svæði hafi ekki reynt að sinna áveitunni. Þeir hafa varið miklum tíma og miklum fjármunum til þess að halda henni við. Einstaka undantekningar eru vitaskuld, en það stafar þá mest af því, að á stöku stað hafa menn ekki haft aðstöðu til að notfæra sér áveituna. Til þess að svo hefði mátt vera, hefði þurft að gera miklar breytingar, sem hafa vafalaust verið mörgum ofvaxnar. Það er rétt að geta þess einmitt í þessu sambandi, að í raun og veru var aldrei lokið við á.veituna til fulls. Áveitan var tekin út þremur árum eftir að byrjað var að starfrækja hana, og allýtarlegt álit, sem var um mannvirkið gert, er prentað og liggur fyrir, og er þar drepið á það á nokkrum stöðum, hvað mikið skorti á, að verkinu væri fullkomlega lokið, og það þyrfti að endurbæta. Eitthvað kann að hafa verið gert að því á nokkrum stöðum, það þori ég ekki um að segja, því að það er fyrst nú seinni árin, sem ég hef haft meiri kunnugleika af þessum málum en áður var, og stafar það af því, að nú er ég búsettur á þessu svæði, en áður átti ég heima langt í burtu og hafði ekki önnur kynni af þessu verki en það, sem mér var sagt, og lítið eitt var það, sem ég fór um svæðið.

Ég skal taka fram til upplýsinga um það, hvort þeir, sem fyrir áveitunni hafa ráðið, hafi ekki reynt að halda í horfi, að nú eru greiddar — og hafa verið um nokkurt skeið — 10 krónur af hverjum hektara áveitulands til viðhalds, og það er ekki tekið tillit til þess, hvort landið er allt undir áveitu eða ekki. Og þessi greiðsla, þó að hún sé allmikil — það veit ég, að hv. þm. gera sér alveg ljóst, — hefur hvergi nærri hrokkið til fyrir viðhaldi áveitunnar og því, sem gera hefði þurft henni til umbóta. Ég skal nefna það sem dæmi, svo að mönnum verði það enn ljósara, að maður, sem á eyðijörð, sem hefur lítið land og vitaskuld ekki stórt engi, þar sem enginn kofi er uppistandandi og er fyrir alllöngu komin í eyði, verður að borga 600 kr.

Ég vil vona, að menn sjái á þessu, að menn hafa gjarnan viljað halda þessu mannvirki við. Hitt er svo annað mál, að þó að áveituengið sé gott eða sá gróður, sem af því sprettur, þá er engu að síður, hvar sem mögulegt er að koma því við, nauðsynlegt að stækka túnin, því að með heyi af meginhluta þessa lands verða ekki mjólkurkýr fóðraðar öðruvísi, en með því að gefa þeim með erlendan fóðurbæti. Og þeir, sem til þekkja, vita, hvað dýrt það er og óhagkvæmt.

Ég vænti, að hv. Alþ. geti á þessa till, fallizt.