03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2456)

146. mál, verðtrygging sparifjár

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt tveim hv. þm., hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) og hv. þm. S-Þ. (KK), till. um verðtryggingu sparifjár.

Efni till. er um það að fela ríkisstj. að taka nú þegar til gaumgæfilegrar rannsóknar, hvort eigi sé hagkvæmt og framkvæmanlegt að koma á þeirri skipun, að bankar og sparisjóðir taki fé til ávöxtunar með skuldbindingu um að greiða uppbætur á það samsvarandi þeirri hækkun, sem verða kann á vísitölu, annaðhvort kaupgjalds- eða framfærslukostnaðarvísitölu á þeim tíma, sem féð er geymt til ávöxtunar hjá þeim óhreyft á sama reikningi, enda sé það eigi skemur en 5 ár, og jafnframt verði þá lántakendum þessa fjár sett það skilyrði, að þeir greiði verðuppbætur á lánsféð á sama hátt, ef vísitalan hækkar á lánstímanum. Þá er og lagt til í till., að ríkisstj. verði falið að vinna að því, að þetta fyrirkomulag um vöxtun sparifjár og útlán þess verði upp tekið, ef rannsóknin leiðir í ljós, að þetta sé hagkvæmt og auðvelt að framkvæma það.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að peningar hafa rýrnað stórkostlega í verði hér á undanförnum árum, og vegna þessara breytinga á verðgildi peninganna hafa orðið mjög miklar eignatilfærslur í þjóðfélaginu. Um þetta er auðvelt að nefna dæmi. Maður, sem seldi húseign sína hér í Reykjavík fyrir 12 árum og lagði andvirði hennar á vöxtu í banka, getur nú ekki keypt nema mjög lítinn hluta af jafngóðu húsi fyrir þann höfuðstól. Hinn, sem keypti húsið og átti til andvirði þess, hefur með þessum viðskiptum varðveitt gildi peninga sinna. Selji hann þessa eign sína nú, getur hann keypt aðra jafngóða í staðinn. En hafi kaupandinn fengið andvirði hússins að láni fyrir 12 árum, þarf hann nú ekki að selja nema örlítinn hluta af húseign sinni til þess að ljúka þessari skuld. Hitt, mestan hluta húseignarinnar, hefur hann raunverulega eignazt fyrir ekki neitt vegna verðbreytinganna, sem orðið hafa á þessu tímabili. — Annað dæmi vil ég nefna. Maður, sem seldi 100 ær fyrir 12 árum og lagði andvirði þeirra í banka, getur nú ekki keypt 10 ær fyrir þá peninga, en hafi kaupandinn fengið andvirði ánna að láni, þarf hann nú innan við 10 ærverð til þess að borga skuldina. Bæði þessi dæmi, sem ég hef nefnt, sýna það sama. Þeir, sem hafa átt peninga geymda í peningastofnunum, hafa tapað meiri hluta eignanna vegna þeirrar stórkostlegu röskunar, sem orðið hefur á fjármálasviðinu. En hinir, sem hafa fengið fé að láni, hafa sloppið við greiðslu á meiri hluta skulda sinna af sömu ástæðum.

Verðgildisrýrnun peninganna hefur haft margar óheillavænlegar afleiðingar. Almenn vantrú á gildi peninga hefur skapazt, svo sem eðlilegt er, og áreiðanlega hefur það orðið til þess að auka eyðsluna í þjóðfélaginu. Margir hafa litið svo á, að flest annað væri betri eign en peningar, og hagað sér samkvæmt því, jafnvel fremur keypt óþarfa eða lítt þarfa hluti en að leggja féð fyrir. Þetta hefur líka leitt til kapphlaups um að eignast ýmislegt það, sem menn hafa talið öruggast að ekki lækkaði í verði eða jafnvel búizt við að hækkaði í gildi, eins og t. d. fasteignir. Þetta hefur stuðlað mjög að verðhækkun slíkra eigna. Sú verðhækkun hefur svo aftur leitt til hækkunar á húsaleigu, sem hefur átt mikinn þátt í hækkun á framfærslukostnaði og þar með valdið hækkun á framfærslukostnaði, sem hefur haft í för með sér erfiðleika fyrir þá atvinnuvegi, sem framleiða vörur til útflutnings. Fleiri slík dæmi mætti nefna um óheppilegar afleiðingar af þeirri fjármálalegu röskun og tilfærslu verðmæta, sem orðið hefur í þjóðfélaginu síðasta áratuginn. Af þeim sökum stafar m. a. lánsfjárskorturinn, sem nú er.

Það er því vissulega tímabært að taka til athugunar, hvort ekki sé unnt að koma á verðtryggingu sparifjár. Enginn vafi er á því, að slík ráðstöfun mundi öðrum fremur hvetja til aukins sparnaðar og þar með vinna gegn veltufjárskortinum, sem nú veldur erfiðleikum í atvinnulífinu. Það er einnig réttlætismál, að hér verði sú breyting á, að stöðvuð verði rýrnun á peningaeignum jafnt einstaklinga sem ýmissa sjóða og stofnana, þ. á m. margra gjafasjóða, sem myndaðir hafa verið á liðnum tímum af góðviljuðu og fórnfúsu fólki til stuðnings góðum málefnum. En slíkir sjóðir hafa rýrnað stórkostlega að undanförnu, og má vel halda því fram, að þjóðfélaginu beri siðferðisleg skylda til að bæta slíkt að nokkru eða a. m. k. að koma í veg fyrir, að verr fari, en þegar er orðið.

Ég hef þegar lýst efni till., og ég vil enn fremur vísa til þeirrar grg., er henni fylgir. Ég vil vænta þess, að allir hv. þm. séu á einu máli um það, að rétt sé að láta fram fara rækilega athugun á því, hvort ekki sé heppilegt og einnig framkvæmanlegt að koma á verðtryggingu sparifjárins. Þá ætti ekki heldur að vera ágreiningur um það, að rétt sé að koma slíkri verðtryggingu á, ef rannsókn sú, sem ríkisstj. lætur fram fara, leiðir í ljós, að það sé hagkvæmt og hægt að koma verðtryggingunni fyrir. Þar sem ég geri þannig ráð fyrir, að ekki sé ágreiningur um, að rétt sé að fela ríkisstj. að láta slíka rannsókn fara fram, þá geri ég ekki till. um, að máli þessu verði vísað til þn. Mun ég þó ekki beita mér gegn því, að till. fari til n., ef ósk kemur fram um það, en vænti hins vegar, að þingið geti fallizt á að samþykkja tillöguna.