23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það var ræða hv. þm. V-Húnv., sem kom mér til þess að biðja um orðið aftur, og skal ég gera lítið eitt frekar grein fyrir þessu máli. — Hann vildi verja afstöðu meiri hl. n. með því, að bæði Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður fengju nokkurt árlegt framlag frá ríkinu, sem þyrfti ekki að endurgreiða. Þetta er rétt. Þegar lögin um þá sjóði voru samþ. á Alþingi, þá var svo ákveðið, að þeir skyldu fá það fasta framlag um 10 ára bil, hvor sjóður. Nú eru liðin 6 ár af þeim tíma. En það var einnig gert ráð fyrir í l. þá, að gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir þá þegar til þess að afla þeim meira stofnfjár, og var gert ráð fyrir, að það yrði gert að sumu leyti með útgáfu bankavaxtabréfa, og að öðru leyti, hvað snertir Ræktunarsjóðinn, þá var svo ákveðið í 8. gr. l. um hann, að seðladeild Landsbankans væri skyldug til að lána honum 10 millj. kr., ef ríkisstj. óskaði þess, og skyldi það greiðast aftur á 20 árum með 11/2 % vöxtum. Þessari skyldu hefur aldrei verið fullnægt, hvort sem það er fyrir það, að engin þeirra ríkisstjórna, sem hefur farið með völd síðan 1947, er l. voru samþykkt, hafi óskað þess, eða hitt, að Landsbankinn hafi ekki viljað leggja fram þessa upphæð. Þetta skal ég láta ósagt, en staðreynd sú liggur fyrir, að þessari skyldu, sem búin er að vera í lögum í 5 ár, er ófullnægt enn þá, og afleiðingin hefur verið sú, að allt það framlag, sem sjóðurinn hefur fengið og átti að fara til þess að greiða vaxtamismun, sem hv. þm. V-Húnv. var að tala um, fór beint til þess að lána út og hefur ekki nærri hrokkið til þess.

Þá skal ég enn fremur benda á það, að gagnvart Byggingarsjóðnum hefur ekki heldur verið gengið inn á þá braut, sem gert var ráð fyrir í l., að afla stofnfjár með útgáfu bankavaxtabréfa, og afleiðingin var sömuleiðis sú gagnvart honum, að hið árlega framlag hefur farið til þess að lána út, í staðinn fyrir að anna því hlutverki, sem það átti að gera, og afleiðingin er svo sú, að sjóðurinn hefur verið meira og minna tómur nú um lengri tíma. Það hefur að vísu verið hlaupið undir bagga af hálfu Alþ. við og við með það að bæta úr allra brýnustu þörfum, þegar komið var í óefni. Þetta var gert með ákvæðunum, sem samþykkt voru í gengisskráningarl., að sjóðir þessir tveir skyldu fá nokkurn hluta af gengishagnaði bankanna; það bætti úr brýnustu þörf í bili. Þegar aftur var komið í þrot, bætti það úr brýnustu þörf í bili, þegar ákveðið var, að sjóðirnir skyldu fá nokkurn hluta af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1951, og það er núna aðeins í bili að bæta úr, að á þessu ári hefur fengizt hluti af erlendu láni, sem ríkisstj. hefur verið heimilað með lögum að taka í Alþjóðabankanum, og til þess að bæta úr brýnustu þörf, en þó hefur ekki tekizt enn þá að fá nema 6 millj. í bankann af þeim 16 millj., sem heimilað var að taka.

Enn fremur skal ég benda á það í sambandi við þetta, að þessu síðasta láni, sem tekið er núna á þessu ári, fylgja þau ákvæði frá Alþjóðabankanum, að það má ekki nota það til neinna framkvæmda, sem unnar hafa verið fyrir 1. nóv. 1951, og afleiðingin er sú, að þó að það bæti úr brýnustu þörf, hvað snertir að greiða út lán fyrir framkvæmdir, sem verið er að vinna á þessu ári, þá er bankinn núna í alveg hreinum vandræðum með að lána til vissra framkvæmda, sem búið var að vinna fyrir þennan tíma, fyrir 1. nóv. 1951, og ekki má nota þetta lán til og hann hefur ekkert fé til þess að lána út á.

Hvorugur þeirra hv. þm., sem hafa talað hér fyrir hönd hv. fjhn., hefur neitað því, að það mundi skapa vandræði, áður en langt líður, að bankanum skuli vera gert að skyldu að lána fé út til helmingi lengri tíma, en hann þarf til að borga sín eigin lán. Það liggur líka í augum uppi, að slíkt hlýtur að valda vandræðum. En þá var hv. þm. V-Húnv. með aths. um það, að það vantaði gersamlega frá okkur, mér og hv. 2. þm. Reykv., till. um það, hvernig ætti að afla fjár til þess að standa straum af þeim mun, sem verður hér á milli, t.d. þeim vaxtamun, sem um er að ræða hér. Það er rétt, þetta kom ekki fram í minni ræðu, og sennilega ekki heldur í ræðu hv. 2. þm. Reykv. En ég skal núna benda hv. þm. V-Húnv. á þá leið, og ég skal bæta við, að ég mun benda á hana í frv., sem ég mun leggja fram um þessi mál alveg nú á næstunni. Sú leið. er að hætta að kalla inn frá bankanum þau lán, sem ríkið hefur lagt honum af fé, sem það hefur fengið í hendur meira af tilviljun, en að það hafi verið gert ráð fyrir, að því væru ætlaðar þær tekjur. Ég ætla að benda á það, að gengishagnaður bankanna kom upp í hendur ríkisins vegna ákvæða gengislækkunarl., en alls ekki vegna þess, að með þeim væri beinlínis verið að hugsa um að afla ríkissjóði tekna. Og ég vil enn fremur benda á það, að greiðsluafgangur ríkissjóðs 1951 skapaðist vegna þess, að eftir að fjárlög voru samþykkt fyrir það ár, var stórbreytt um fyrirkomulag á verzluninni, stóraukinn innflutningur með erlendu lánsfé, og það skapaði ríkissjóði miklu meiri tekjur, en gert var ráð fyrir áður og mikinn greiðsluafgang. Þetta fé, þessi lán bæði, sem Búnaðarbankinn hefur fengið, bæði af gengishagnaði og greiðsluafgangi, eru þess vegna fengin frá ríkinu af því fé, sem því ber ekki nauðsyn til aðinnheimta aftur. Þess vegna er það, sem gera þarf í þessu máli, það, að í staðinn fyrir þessi lán, sem Búnaðarbankinn fær og þarf að lána út, sumt til 20 ára, sumt til 25 ára og sumt til 42 ára, en þarf aftur að greiða ríkinu á 20 árum, þá er það einfaldasta leiðin, að ríkið hætti við að innheimta þessi lán og þeim verði breytt í fast framlag. Það mundi verulega mikið leysa úr þessu vandamáli, sem þessir hv. þm. viðurkenna, að hlýtur að koma til, áður en langt liður, ef svo verður haldið áfram sem nú virðist vera gert, þ.e. að lána bankanum fé með miklu verri kjörum, en hann er skyldaður til að lána út aftur.