23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, að í ræðu hv. 2. þm. Reykv. kom það fram, að Búnaðarbankinn mundi eiga erfitt með í framtíðinni að standa undir þeim vaxtamismun og þeim mismun á lengd lána, sem fram kæmi í sambandi við lántöku annars vegar til bankans og hins vegar lánveitingar úr bankanum, en lánveitingar úr bankanum eru í ýmsum dæmum til lengri tíma en lánin, sem tekin eru. Og vextirnir á þeim lánum, sem Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður lána, eru yfirleitt mun lægri, en vextir af þeim lánum, sem tekin eru til bankans. Hv. þm. hefur nú sjálfsagt verið ljós þessi vandi nú um nokkurt skeið, eftir að farið var að taka lán til bankans, þannig að það er ekkert nýstárlegt, sem hv. þm. bendir á. Ríkisstj. hefur verið þetta ljóst og er þetta ljóst og er að athuga þessi mál, en ég get ekki um það sagt, hvenær till. hennar um það komi fram.

Síðasti hv. ræðumaður, 5. landsk. þm., sagði, að það væri til í þessu ein leið, sem manni skildist, að hann hefði uppgötvað; hún væri sú að gera ráðstafanir til þess, að Búnaðarbankinn þurfi ekki að borga ríkissjóði til baka vexti eða afborganir af þeim lánum,. sem ríkissjóður hefur sjálfur lánað bankanum af gengismun annars vegar og hins vegar af greiðsluafgangi. Þessi hugmynd hv. þm. er nú ekki ný, því að á síðasta aðalfundi sínum ályktaði einmitt miðstjórn Framsfl. að beita sér fyrir þessari lausn á því vandamáli, sem hér er verið að ræða, og er þetta eitt þeirra úrræða, sem í athugun eru. Ég stóð aðeins upp til þess að láta menn vita, að þetta vandamál er til íhugunar hjá ríkisstj. og að mönnum er þetta fullkomlega ljóst, að hér þarf að gera ráðstafanir, en hins vegar alveg ástæðulaust að tengja nokkuð þess konar við þetta frv., því að hér liggur það aðeins fyrir, hvort menn vilja heimila ríkisstj. þessa lántöku eða ekki.