05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2484)

136. mál, strandferðir m/s Herðubreiðar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og það er sakir þess, að ég treysti mér ekki til að dæma um það, hvort hægt væri að binda skipið svo í ferðum eins og till. ákvarðar, að skipið verði eingöngu í siglingu austur um land frá Reykjavík til Siglufjarðar. Því miður varð n. það á að senda ekki þáltill. til Skipaútgerðarinnar til þess að fá upplýsingar um, hvernig háttað væri um ferðir skipanna og möguleikana á því að ákvarða svona ferðir skipsins. Og það er sakir þess, að þessar upplýsingar lágu ekki fyrir og komu ekki fram í n., að ég skrifa undir með fyrirvara. Hins vegar mun ég greiða þessari till. atkv. Ég vil á engan hátt vera meinsmaður slíkrar ályktunar, en geri það í því trausti, að hæstv. ríkisstj. taki sínar ákvarðanir í þessu efni eftir því, sem málavextir eru.