23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Þeir hv. ræðumenn, sem undanfarið hafa talað af hálfu stj., hafa verið að leggja áherzlu á það, að það væru nú máske ekki sérstaklega stórar upphæðir, sem hér væri um að ræða og Ræktunarsjóðnum og Byggingarsjóðnum yrði gert að greiða með þessu móti, og það er rétt, að það eru ekki neinar gífurlegar upphæðir, sem um er að ræða hérna. Að vísu hefur dálítið stangazt hjá þessum hv. þm., sem þarna hafa talað. Sá hv. forsvarsmaður stj., sem síðast talaði, sagði, að þetta væri nú svo lítið, en hv. frsm. og form. fjhn. talaði um, að þetta væri nú þó svo tilfinnanlegt, að það væri eiginlega skömm að því, að mínni hl. hefði ekki gert grein fyrir, hvaðan ætti að skaffa önnur eins framlög og þyrfti til þess að bæta þetta upp. Það er rétt, að það eru ekki nema nokkur hundruð þúsunda, sem hérna mundi vera um að ræða, en hvað er það þá, sem lagt er til af hálfu meiri hl. fjhn. með því að leggja til að láta Ræktunarsjóðinn og Byggingarsjóðinn greiða þetta? Hv. þm. V-Húnv. benti á, að það væru til framlög í fjárl. til þessara sjóða, t.d. er framlagið til Ræktunarsjóðs 500 þús. kr. Hv. 2. þm. Rang. sýndi fram á, að það væru 200–300 þús., sem hér væri um að ræða. Nú, það samsvarar þó helmingnum af því framlagi, sem á fjárl. er ætlað til Ræktunarsjóðs. Það er sem sé greinilegt, ef menn vilja nú skella þessu öllu saman yfir á Ræktunarsjóðinn og miða það við framlag hans, að þá er hér á ferðinni till. frá hæstv. ríkisstj., studd af Framsfl. og Sjálfstfl., um það að taka helminginn af því framlagi, sem nú er ætlað til Ræktunarsjóðs, og taka það til ríkissjóðsteknanna almennt, verja því til þess að greiða það niður. Ég býst við, að ef það kæmi fram brtt. við fjárl. um að minnka úr 500 þús. í 250 þús., — við skulum nú segja, að það yrði látið óskert, sem væri hjá Byggingarsjóðnum, það er náttúrlega miklu hærri upphæð, — þá mundi nú koma hljóð úr horni. En það er bara það, sem er verið að gera með þessu. Það er verið að ákveða að minnka raunverulega þau framlög, sem ríkið leggur fram til þessara sjóða, og það hefði einhvern tíma heyrzt hljóð úr horni frá Framsfl., ef till. hefði komið fram um slíkt, en það er annað, ef ríkisstj. gerir það sjálf og ef það er Alþjóðabankinn, sem stendur á bak við fyrirskipunina; þá á að hlýða, þá er það ekki árás á bændur. — Ég held þess vegna, að þessir hv. þm. ættu að fara sér rólega í þessum efnum; þeir mundu vera viðkvæmir, ef þessi árás hefði komið úr annarri átt.

Þá talaði hv. þm. V-Húnv. um, að það væri nú eiginlega anzi hart, að þessir þm., sem flyttu þessa brtt. eða stæðu að henni, sýndu ekki fram á neinar tekjur til þess að afla í staðinn. Hv. 5. landsk. hefur nú rætt það mál nokkuð frá sínu sjónarmiði, en mig langaði nú aðeins til að skjóta því að hv. þm. V-Húnv., þegar hann er að prédika það, að við stjórnarandstæðingar ættum að gera grein fyrir tekjuöflun í hvert skipti, sem við kæmum fram með till., sem næmu þó ekki meiru en 200-300 þús. kr., — þá held ég, að hann ætti að beina geiri sínum þangað, sem þörfin er meiri fyrir, og athuga frv., sem hv. þm. Framsfl. bera fram nú á Alþ. Við skulum segja, að þeir vildu t.d. athuga þskj. 76, um Byggingarsjóð kauptúna, sem 3 hv. þm. Framsfl. flytja. Það eru litlar 5 millj. kr., sem ríkissjóður á að lána þar ákveðnum sjóði. Eða ef hann vill athuga frv. á þskj. 82, sem 4 þm. Framsfl. bera fram, litlar 4 millj. kr. árið 1953 og 2 millj. kr. árlega næstu 10 ár þar á eftir. Það er ekki verið að takmarka við hundruð þúsundin í þessum tillögum. Nei, það eru milljónirnar og milljónatugirnir; það er til Búnaðarbankans, en það er ekki verið að gera grein fyrir, hvar eigi að taka peningana, og vafalaust hafa þessi frv. verið rædd vel og skilmerkilega í Framsfl., áður en þau voru lögð fram hér á Alþ., og ég efast ekki um, að Framsfl. standi allur á bak við. Það eru þessi frv. um mjög þarfar framkvæmdir, sem annars vegar þrír og hins vegar fjórir af þm. hans leggja hér fram um milljónir og milljónatugi, án þess að gera nokkra grein fyrir, hvar eigi að afla teknanna. Ég efast ekki um, að Framsfl. og einn helzti fjármálaspekingur hans, hv. þm. V-Húnv., ekki aðeins viti af þessu, sé ekki aðeins samþykkur þessu, heldur áliti það alveg brýna nauðsyn, að þetta sé framkvæmt, og samt hirðir hann ekki nokkurn skapaðan hlut um að gera grein fyrir því, hvar eigi að afla peninganna til þess. Það er þess vegna alveg út í hött hjá þeim að vera að ásaka okkur sósialista eða stjórnarandstæðingana yfirleitt í þessum málum. Og ég efast ekki um, að þær till., sem sjálfstæðismenn hafa borið fram, séu líka góðar og nytsamar, eins og atvinnubótasjóður, um litlar 4 millj. kr. í hann, ef ég man rétt, að það sé líka gert ekki aðeins með fullri vitund Framsfl. og fullum stuðningi alls Sjálfstfl., heldur einnig með stuðningi Framsfl. sjálfs. Ég veit það, að þeir hv. þm. stjórnarflokkanna, þrungnir af ábyrgðartilfinningu gagnvart fjárhag ríkisins, bera ekki fram svona frv. hér á Alþ., án þess að vita, að þeir megi treysta á næga tekjuöflun, og vera búnir að hugsa sér tekjuöflunina fyrir þessu öllu saman. Hv. þm. V-Húnv. verður að fyrirgefa, að það, sem „höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“. Svoleiðis að meðan milljónatugafrv. rignir niður frá þm. stjórnarflokkanna, þá verður hann að fyrirgefa, þó að við gerum eina smávægilega brtt. upp á 200–300 þús. kr. við eitt stjfrv. og gerum það í anda, sem ég býst við, að Framsfl. venjulega mundi nú hafa talið sinn anda.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að þessi mál væru til íhugunar hjá ríkisstj. Já, það er nú svo margt, sem er til íhugunar hjá ríkisstj. Ég man satt að segja ekki eftir einu elnasta stórmáli þingsins, sem sé ekki búið að vera til íhugunar hjá ríkisstj., ekki aðeins síðasta þing, heldur mörg undanfarin þing. Ef við ætlum að bíða með afgreiðslu skattamála, afgreiðslu bankamála, afgreiðslu yfirleitt flestallra þeirra mála, sem frestað er frá þingi til þings, þangað til ríkisstj. væri búin að íhuga þau, þá er ég hræddur um, að það yrði lítið um framkvæmdir. Ég held þess vegna, að það sé rétt að láta hæstv. ríkisstj. vita alveg vilja þingsins í þessu máli, sem sé, að það sé ekki gengið á þessa sjóði og útlánakjör þeirra eins og yrði gengið með samþykkt stjfrv. óbreytts.