29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um það, hvaða aðferð mætti teljast heppilegust til þess að bæta bátaútveginum það, sem hann þarf til þess að geta rekið atvinnu sína hallalaust, en ég ætla að leitast við að sýna fram á með fáum orðum, að það, sem gert hefur verið með ráðstöfun bátagjaldeyrisins, byggist á fullkomnum heimildum. Samkv. 11. gr. l. um fjárhagsráð má engar vörur flytja til landsins nema að fengnu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Frá þessu ákvæði getur fjárhagsráð gefið undanþágu og hefur gert, sbr. frílistann og bátalistann. Samkv. 13. gr. sömu laga má engan gjaldeyri láta af hendi án leyfis innflutnings- og gjaldeyrisdeildar fjárhagsráðs, nema um opinberar greiðslur sé að ræða. Fjárhagsráð hefur því óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum eða einhverri sérgrein útflytjenda að hafa frjáls umráð gjaldeyris síns að öllu eða einhverju leyti til innflutnings almennt eða bundið við sérstakar vörutegundir, sbr. bátalistann. Þeim, sem fá þennan ráðstöfunarrétt, er heimilt að notfæra sér hann á hvern þann hátt, er ekki brýtur í bága við fyrirmæli fjárhagsráðs, þ. á m. að selja gjaldeyrinn með hagnaði í einu formi eða öðru, ef slík sala er heimiluð af fjárhagsráði. Það er þetta, sem gert hefur verið í sambandi við ráðstöfun á svo kölluðum bátagjaldeyri. Og að mínu áliti leikur enginn vafi á því, að fjárhagsráð hefur heimild til að gera þessar ráðstafanir. Þess vegna er þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, með öllu ástæðulaus, og legg ég til, að hún verði felld.