05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2494)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er sammála þeim hv. þm., sem talað hafa hér á undan mér, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. landsk., um, að bátagjaldeyrisskipulag hæstv. ríkisstj. sé ólöglegt og hún þurfi lagaheimild til þess, að þetta fyrirkomulag megi vera í gildi áfram. En mér finnst jafnvel hægt að taka enn dýpra í árinni, en þetta. Mér finnst jafnvel vera hægt að segja, að hæpið sé, að sjálft Alþ. gæti lögleitt slíka skipun eins og þá, sem nú gildir. Ég skal í fáum orðum reyna að renna nokkrum rökum undir þessa skoðun og minnast þar sérstaklega á eitt atriði, sem mér finnst tæplega hafa verið nóg áherzla á lögð í þeim umræðum, sem á undan eru gengnar.

Alþingi Íslendinga ákveður gengi erlends gjaldeyris. Við verðum að minnast þess, að þannig hefur þetta ekki ávallt verið og þetta er í sjálfu sér ekki sjálfsagt. Fram til 1923 var gengi frjálst hér á Íslandi, þ. e. a. s., verð á erlendum gjaldeyri ákvarðaðist af framboði og eftirspurn í bönkunum. En þá mun hafa verið sett á laggirnar gengisnefnd, eins konar verðlagsnefnd, til að ákveða gengi erlends gjaldeyris, opinber nefnd, sem ákvað gengið. Hins vegar var það ekki fyrr en 1939, sem Alþ. sjálft tók gengisskráningarvaldið ótvírætt í sínar hendur. Þá var gengi erlends gjaldeyris í fyrsta skipti ákveðið með lögum, og þannig hefur það verið síðan. Í hvert skipti, sem bankarnir hafa breytt gengi erlends gjaldeyris, hefur sú breyting verið gerð samkvæmt lögum frá Alþ. Og það álit hefur skapazt og er ómótmælt af öllum, að þjóðbankinn gæti nú ekki breytt skráningu erlends gjaldeyris, nema fyrir lægju lög frá Alþingi þar að lútandi. Verðlag á erlendum gjaldeyri er m. ö. o. ekki frjálst á Íslandi, og þjóðbankinn hefur ekki vald til þess að breyta verði erlends gjaldeyris, svo sem þó er víða í nágrannalöndunum, heldur er hér á landi það ástand, að Alþ. hefur tekið gengisskráningarvaldið í sínar hendur. Er um þetta mér vitanlega enginn ágreiningur. Hér er m. ö. o. opinber verðlagsákvörðun á gengi erlends gjaldeyris, og sjálft Alþ. er verðlagsnefndin.

Hvers vegna er þetta haft þannig? Gengi erlends gjaldeyris er mikilvægasta verð þjóðfélagsins. Undir gengi erlends gjaldeyris eru komnar tekjur útflytjenda og jafnframt verðlag á vörum neytenda í landinu að mjög verulegu leyti vegna þess, hversu mikið við kaupum erlendis frá. Tilgangurinn með því að ákveða eitt gengi, þ. e. sama gengi á hverri tegund erlends gjaldeyris, er auðvitað að tryggja öllum útflytjendum hliðstæð tekjuöflunarskilyrði, ef þeir flytja út, og öllum neytendum hliðstætt verðlag á þeim vörum, sem fluttar eru inn og þeir kaupa. Það hefur mér vitanlega ekki verið talið koma til mála hér, á Íslandi að taka upp tvöfalda gengisskráningu, en með því er átt við það, að sama erlenda myntin væri skráð á tvenns konar verði, þ. e. a. s., að á sterlingspundi eða dollar eða danskri krónu væri skráð tvenns konar gengi í bönkunum hér, enda er tvímælalaust, að slík aðferð væri ekki í samræmi við reglur alþjóðasamtaka á fjármálasviði, sem við erum aðilar að, þ. e. a. s. reglur alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sú hugmynd mun hafa komið upp fyrir nokkrum árum í sambandi við lausn fjárhagsvandamála Íslendinga að taka hér upp tvöfalda gengisskráningu. Menn munu hafa verið sammála um það þá, að það kæmi ekki til greina, í fyrsta lagi væri það ekki í samræmi við reglur alþjóðagjaldeyrissjóðsins og auk þess mjög hæpið, að Alþ. gæti gert slíkar ráðstafanir. En hins vegar er það svo, að bátagjaldeyriskerfið er í eðli sínu tvöföld gengisskráning. Með upptöku bátagjaldeyriskerfisins var í raun og veru tekið að skrá tvenns konar gengi á íslenzku krónuna, tvenns konar gengi á þær erlendar myntir, sem bátagjaldeyrisvörurnar eru seldar fyrir.

Allir hv. þm. vita auðvitað, hver er kjarninn í bátagjaldeyriskerfinu, og því þarf ég ekki að lýsa nema með örfáum orðum. Útflytjendur vissra afurða hafa heimild til þess að ráðstafa sjálfir ákveðnum hluta af útflutningstekjunum og selja þann gjaldeyri, og síðan má ekki flytja inn vissar vörur, nema þær séu keyptar fyrir þennan gjaldeyri. Þessi einokunaraðstaða í innflutningsverzluninni skapar síðan eigendum bátaútflutningsvaranna skilyrði til þess að selja gjaldeyri sinn með álagi, bátagjaldeyrisálaginu. Niðurstaðan er því þessi: Eigendur þeirrar útflutningsvöru, sem heyrir undir bátagjaldeyrinn, geta fengið hærra verð fyrir sinn gjaldeyri heldur en eigendur annarra útflutningsvörutegunda, og það er kjarni málsins. Í því er fólginn styrkurinn til þeirra. Þeir, sem kaupa þær vörur, sem einungis má flytja inn fyrir bátagjaldeyri, greiða þeim þennan styrk. Niðurstaða kerfisins er þannig nákvæmlega sú sama og vera mundi, ef gjaldeyrisbankarnir ákvæðu tvenns konar gengi á öllum erlendum gjaldeyri, ef bankarnir segðu blátt áfram: Þeir, sem flytja út bátaafurðirnar, bátagjaldeyrisvörurnar, skulu fá t. d. 65 krónur fyrir sitt sterlingspund, ef þeir selja til sterlinglandanna, þeir skulu fá 23 –24 krónur, ef þeir selja til dollaralanda, — og þar fram eftir götunum, og síðan væru innflytjendur, sem keyptu vissar vörur, látnir borga þetta verð, rúmar 60 krónur fyrir sterlingspund t. d. og rúmar 20 krónur fyrir dollar, fyrir þær vörur, sem þeir keyptu. Afleiðing bátagjaldeyriskerfisins er nákvæmlega sú sama og ef tekin væri upp tvöföld skráning á genginu, og þetta er mjög athyglisvert, þegar það er haft í huga, að áður munu menn hafa verið almennt sammála um — einnig mjög valdamiklir menn í núverandi stjórnarflokkum — að tvöföld gengisskráning hér á Íslandi kæmi ekki til mála, fyrst og fremst vegna samþykkta alþjóðagjaldeyrissjóðsins og enn fremur vegna þess, að hún bryti í bága við viss grundvallaratriði í viðskiptum, sem ég mun víkja örlítið að rétt á eftir.

Ég hygg, að þessi rök dugi algerlega til þess að sannfæra þá menn, sem um þetta vilja hugsa af alvöru um, að bátagjaldeyriskerfið má ekki framkvæma án lagaheimildar, fyrst ekki má framkvæma tvöfalda gengisskráningu nema með lögum, því að afleiðingin er nákvæmlega sú sama. Þetta hlýtur líka að vekja athygli á því, að ef tvöföld gengisskráning er brot á skuldbindingum okkar í alþjóðlegum samtökum og ef tvöföld gengisskráning er brot á vissum grundvallaratriðum í viðskiptum, þá er bátagjaldeyriskerfið þetta hvort tveggja líka. Og það er mjög mikilvægt.

Nú má auðvitað enginn skilja þessi orð mín svo, að ég sé með þessu að segja, að ekki komi til mála, að ríkisvaldið styrki einstakar greinar útflutningsins og afli tekna til slíkra styrkja með því að leggja byrðar á neytendur, þ. e. a. s. á neyzlu vissra vörutegunda. Ríkisvaldið, löggjafarvaldið, hefur auðvitað heimild til slíks. Slíkt er gert t. d., þegar lagðir eru tollar á vissa innflutta vöru og tekjurnar af því síðan notaðar til þess að greiða uppbætur á vissar útflutningsafurðir, svo sem gert var t. d. í tíð fyrrverandi ríkisstj. Slíkar ráðstafanir eru auðvitað löglegar. Engum dettur í hug að halda því fram, að Alþ. hafi ekki slíkt vald né heldur að slíkar ráðstafanir væru grundvallarbrot á almennum og þýðingarmiklum reglum í viðskiptum. En öllum er augljóst, að ríkisstj. getur ekki framkvæmt slíkar ráðstafanir án lagaheimildar. Ríkisstjórn getur ekki upp á eindæmi lagt á tolla né heldur ákveðið, hvaða útflutningsgreinum skuli greiddar uppbætur af þessum tolltekjum. Slíkt verður Alþ. að gera. Afleiðing bátagjaldeyriskerfisins er raunar alveg sú sama, og hljóta þá allir að sjá, hversu fráleitt það er, að ríkisstj. skuli telja sig hafa heimild til slíkra ráðstafana að Alþ. algerlega fornspurðu.

En nú vaknar þessi spurning: Hvers vegna er tvöföld gengisskráning hæpnari og varhugaverðari, en sú leið t. d. að leggja tolla á innfluttar vörur og nota tolltekjurnar til uppbótargreiðslna? Ástæðan til þess, að tvöföld gengisskráning er alls staðar talin hæpnari, svo miklu hæpnari, að t. d. alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heimilar hana ekki, þó að hann hafi ekkert við það að athuga, að lagðir séu á tollar og greiddar með tolltekjunum uppbætur, er sú, að tollarnir eru innheimtir samkv. almennum, opinberum töxtum, sem gilda jafnt fyrir alla innflytjendur og allir vita hversu háir eru, svo og að uppbæturnar yrðu auðvitað einnig greiddar samkv. opinberri reglugerð, sem öllum væri kunnugt um, og allir vissu, hvað hver einstakur fær í uppbætur og hvað hver einstök atvinnugrein fær. Þegar þannig er að farið, að lagðir eru á tollar og tolltekjurnar notaðar til uppbótargreiðslna, þá er um algerlega opinbert kerfi að ræða, sem hefur hliðstæð áhrif fyrir alla hlutaðeigendur. Tvöföld gengisskráning, sérstaklega ef hún er þannig, að það er ekki í raun og veru frjálst verðlag á hluta af gjaldeyrinum, verkar hins vegar allt öðruvísi. Hún hefur þau áhrif, að það þarf engan veginn að vera tryggt, að það gjald, sem fæst fyrir gjaldeyrinn, sé það sama fyrir alla útflytjendur. Það getur vel verið, að einstakar greinar og einstakir útflytjendur fái misjafnt út úr því kerfi. Þar er m. ö. o. skapað skilyrði til misréttis á milli greinanna og milli einstaklinga innan hverrar greinar, og í raun og veru veit enginn, hvað hver einstakur fær út úr þessu. Nokkuð svipað gildir um verðlag á innfluttu vörunni. Það er ekki algerlega víst, að allir innflytjendur hafi setið við sama borð hvað þetta snertir, vegna þess að þeir kunna að hafa þurft að greiða útflytjendunum misjafnlega hátt álag fyrir þann gjaldeyri, sem þeir hafa fengið til umráða frá neytendum.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því, að stofnanir, sem eru engin börn í fjármálum, eins og t. d. alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, fordæma algerlega tvöfalda gengisskráningu, sérstaklega ef hún væri framkvæmd þannig, að það væri frjálst verðlag á hluta af gjaldeyrinum, svo sem hér á sér stað, en hefur ekkert að athuga við tollaálagningu og uppbótargreiðslur.

Það, sem ég tel að Alþ., en auðvitað ekki ríkisstj., gæti hér gert, væri að gefa gjaldeyrisverzlunina algerlega frjálsa, þ. e. að segja sem svo: Alþ. skiptir sér ekki af því, hvert verðlag er á erlendum gjaldeyri; við skulum láta framboð útflytjenda og eftirspurn innflytjenda ráða því, hvert er gengið á erlenda gjaldeyrinum. — Þetta er stefna, sem hægt er að hafa, og þessi stefna hefur kosti og galla. Meiri hluti Alþ. Íslendinga, líklega Alþ. allt, er á þeirri skoðun, að hér sé annað skipulag heppilegast, að það sé heppilegra, að gengið sé ákveðið af hinu opinbera, þ. e. a. s. af Alþ. En meðan svo er, þá er auðvitað hæpið, að jafnvel Alþ. geti gefið hluta af gjaldeyrisverzluninni frjálsan, en haft hinn hlutann bundinn, vegna þess að þá eru útflytjendur og innflytjendur ekki allir settir við sama borð. Ég tel, að sama verði að gilda um allan gjaldeyri, annaðhvort verði gjaldeyrisverzlunin að vera algerlega frjáls eða verðlagningin á gjaldeyrinum að vera algerlega bundin. Það er þetta, sem ég átti við, þegar ég sagði áðan, að ég teldi hæpið, að jafnvel Alþ. sjálft gæti lögfest reglugerð eins og bátagjaldeyrisreglugerðina, vegna þess að kjarni hennar er sá, að hún lætur mestan hluta gjaldeyrisins vera háðan opinberri verðákvörðun, en undanþiggur nokkurn hluta gjaldeyrisins þessari opinberu verðákvörðun, þ. e., lætur gengið á honum myndast frjálst í bátagjaldeyrisálaginu. Það er þetta, sem ég tel vera hæpið að jafnvel Alþ. gæti lögfest. Hitt tel ég alveg tvímælalaust, að það sé skylda hæstv. ríkisstj. að leggja slíkt mál undir Alþ. til samþykktar eða synjunar.