23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

17. mál, þingsköp Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umr. lýsti ég með nokkrum orðum þeirri brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 121 og er um það, að það sé breytt til um þann hátt, hvernig þm. séu ávarpaðir, þannig að í stað þess að kenna þá við kjördæmi og raðtölu séu þeir ávarpaðir með fullu nafni. Hv. n. hefur ekki getað fallizt á þessa till., og eins og gefur að skilja er þetta mál þannig vaxið, að það er ekki eðlilegt, að það verði neitt kappsmál, hvorki frá minni hendi né neinna annarra. Hér er í rauninni um að ræða formsatriði í háttum þingsins. Hins vegar verð ég að segja, að það er að öllu leyti eðlilegra að hafa þann hátt á, sem ég sting upp á, heldur en þann gamla, og einkum með tilliti til þess, að nú höfum við hér 8 þm. hlutfallskosna úr Reykjavík og 11 landsk. þm., sem kallaðir eru landsk. þm., en í raun og veru heita uppbótarþm. Þegar sagt er t.d. hv. 6. þm. Reykv. og honum gefið orðið, þá veit enginn, sem er tilheyrandi, hvaða maður þetta er, fyrr en hann kemur fram í ræðustólinn, og þá þekkja hann nokkrir menn o.s.frv. Ef forseti segir aftur á móti: Hv. þm. Sigurður Guðnason tekur til máls, — þá vita allir, hvaða maður það er, sem er gefið orðið. Við skulum segja, að sagt sé: Hv. 8. landsk., hv. 10. landsk. o. s. frv. — Engir nema þm. í salnum vita, hvaða menn þetta eru. Nokkrir af áheyrendum þekkja, þegar þeir koma fram, hvaða menn þetta eru, en aðrir ekki. Ef hins vegar er sagt t.d. um hv. 8. landsk.: Hv. þm. Stefán Jóh. Stefánsson — og um hv. 10. landsk.: Hv. þm. Jónas Árnason — o.s.frv., þá vita allir menn, hvaða persóna þetta er. Nú hefur það komið fyrir hér á þingi hvað eftir annað, að landsk. þm. voru ekki betur inni í raðtölunni sjálfir, heldur en að það henti þá að fara að skamma sjálfa sig. Ég efast um, að það séu nokkrir menn — að undanteknum forsetum þingsins — sem yfirleitt kunna allar raðtölur á þessum 11 uppbótarþm. Og ég verð að segja, að þessara hluta vegna er það miklu eðlilegra að hafa þann sama hátt á, sem ég gat um að ég hefði orðið var við að væri í enska þinginu og norska þinginu, að ávarpa manninn með nafni og segja hv. þm. þetta og þetta, eftir því sem hann heitir, og þetta kemur í alla staði betur fram að mér virðist.

Ekki mundi verða síður ástæða til þessarar breytingar, ef við fáum breytta kjördæmaskipun, breytta stjórnarskrá, eins og margir tala um nú á tímum. Það eru í því efni þrjár leiðir, sem nefndar eru aðallega til breytinga. Ein leiðin er sú, sem einn þingfl. hefur haldið lengi fram, að gera landið að einu kjördæmi, og þá mundu — eftir núverandi reglu og væri kosið eftir þeirri reglu — ávörpin verða eitthvað á þá leið: Hv. 1. þm. Alþfl., hv. 2. og 3. þm. Framsfl. o.s.frv. — eftir því í hvaða flokki þeir væru. Og út í frá, hvort sem það eru áheyrendur í þinginu eða þeir, sem lesa þingtíðindin, þá vita menn ekki, hvaða maður þetta er, nema nafnið sé birt þar með, eins og gert er ævinlega þegar útvarpsumr. eru. — Við skulum taka t.d. annað fyrirkomulagið, sem hefur verið líka nefnt, að skipta landinu upp í nokkuð mörg og stór kjördæmi, þá hefðum við hv. 1. þm. úr Vestfirðingafjórðungi, hv. 2. þm. t.d. úr Norðvesturlandi o.s.frv. og allt eftir því, sem kæmi að mér virðist heldur leiðinlegar fyrir heldur, en að nefna hlutaðeigandi menn með sínu rétta nafni. — Þriðja leiðin, sem nefnd er, er sú að skipta öllu landinu upp í einmenningskjördæmi og meira að segja að skipta Reykjavík þá upp í fjöldamörg kjördæmi. og þá kæmi eftir þessari sömu reglu fram, að það væri hv. þm. úr Kleppsholti og hv. þm. úr Norðurmýri, hv. þm. af Grímsstaðaholti o.s.frv.

Allra hluta vegna held ég þess vegna, að það sé eðlilegri aðferð að hafa það eins og ég sting upp á, að ávarpa mennina með sínu nafni. Það er alger misskilningur, sem hefur komið fram jafnvel í blöðum, að þessi till. þýði það, að við eigum að hætta því að kalla hver annan hv., því að það er ekki í till. Og það er ekki heldur í þingsköpunum, heldur er það bara siður, sem hefur verið hér ríkjandi.

Nú skulum við nefna annað, sem í þessu sambandi má minna á, og það er um ávarpið til hæstv. ráðh. Það er nú almennt venja, að alltaf er forsrh. ávarpaður sem hæstv. forsrh., og það rekur sig ekkert á, en þegar við höfum hér meðal okkar ráðh., sem hafa mörg embætti, þá eru ávörpin til þeirra orðin nokkuð sitt á hvað. Svo að ég nefni hér ljóslifandi dæmi, höfum við hér hæstv. menntmrh. og hæstv. viðskmrh. og hæstv. iðnmrh. Allt er þetta einn og sami maður. Og ég felldi mig miklu betur við, að sá væri háttur á hafður að segja: Hæstv. ráðh. Björn Ólafsson. — Ég tek nú þetta fram til þess að gefa skýringu á því, hvað það er, sem ég á við með þessari brtt., til þess að það verði ekki misskilið. En hins vegar þykist ég sjá, að úr því að hv. allshn. mælir gegn henni, þá verði hún að sjálfsögðu felld, og það er ekkert við því að segja. Það hefur verið hreyft þessari breyt., og kemur þá til kasta síðari þinga um það, hvort þessi breyt. verður seinna lögfest eða ekki.