03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2525)

41. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með till. þeirri til þál., sem nú er til umræðu, er farið fram á það, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að fá hentugt skip, er annist landhelgisgæzlu fyrir Norðurlandi í vetur og aðstoði fiskiskip, ef með þarf. Fjvn. hefur athugað till. og leggur til, að hún verði samþykkt allverulega breytt.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir till., hefur verið mikið um útgerð smærri báta fyrir Norðurlandi undanfarandi ár, og gera má ráð fyrir því, að smábátaútgerð fari þar heldur vaxandi vegna rýmkunar landhelginnar. Veiðar á opnum bátum að vetrinum þóttu ávallt vera áhættusamar hér við land. Á þeim tíma árs er allra veðra von og veðurbreytingar oft og tíðum snöggar. Þegar þannig stendur á, er erfitt fyrir smábáta að ná landi og getur verið ómögulegt með öllu, ef eitthvað er að vél eða útbúnaði og aðstoð bregzt. Það má því segja, að þar sem smábátar eru gerðir út, sé nauðsynlegt, að alltaf sé tiltækilegt gott og traust skip, sem unnt sé að senda á vettvang fyrirvaralaust, ef á þarf að halda. Slíkt skip þarf að sjálfsögðu að vera vel mannað og jafnan tilbúið. Nú er svo háttað á Norðurlandi, að mörg stærri skipanna stunda veiðar hér sunnanlands að vetrinum. Ef engar ráðstafanir eru gerðar, getur því hæglega viljað svo til, að enginn stór bátur eða skip sé tiltækilegt, ef — beðið er um hjálp af bát í sjávarháska. Á það ber og að líta, að þótt góður bátur liggi í höfn, er ekki unnt að grípa til hans, nema allur útbúnaður sé í lagi. Einmitt af þessum ástæðum hafa Norðlendingar lagt á það mikla áherzlu að eignast eigið björgunarskip, sem allan tíma ársins yrði staðsett fyrir norðan. Slysavarnadeildirnar á Norðurlandi hafa beitt sér fyrir þessu nauðsynjamáli og með þeim árangri, að þegar hafa safnazt um 700 þús. kr. Geta má þess, að ríkisstj. hefur sýnt málinu skilning með því að taka upp á fjárlagafrv. fyrir næsta ár 500 þús. kr. til smíði björgunarskútu, en þrátt fyrir hinar góðu undirtektir allra aðila á það án efa nokkuð langt í land, að skútan verði fullgerð og taki að gegna hlutverki sínu við strendur landsins.

Á undanförnum vetrum hefur oft og tíðum ekkert varðskip eða eftirlitsskip verið fyrir Norðurlandi. Stafar það að sjálfsögðu af því, að landhelgisgæzlan hefur í mörg horn að líta, meiri ánauð bæði erlendra og innlendra togveiðiskipa annars staðar við strendur landsins á þeim tíma. Skip landhelgisgæzlunnar hafa einnig alltaf verið allt of fá. Hins vegar telja Norðlendingar, að ekki verði við annað unað en að eftirlitsskip, sem annist landhelgisgæzlu og aðstoð við báta, sé fyrir norðan allan veturinn. Vegna stækkunar landhelginnar er og sérstök ástæða til þess að auka eftirlitið.

Eins og ég hef áður tekið fram, er efni þessarar till. það, að ríkisstj. hlutist til um það, að orðið verði við þessum óskum Norðlendinga. Fjvn. leitaði þegar í stað umsagnar forstjóra landhelgisgæzlunnar um till. Í svari forstjórans, sem prentað er með nál., er fallizt á sjónarmið Norðlendinga og það tekið fram, að landhelgisgæzlan hafi frá því í vor og þar til nú að staðaldri haft varðskip fyrir norðan. Telur forstjórinn alveg öruggt, að hægt verði að hafa þar skip áfram, þar til aðalvertíðin byrjar fyrir Suður- og Vesturlandi. eftir þann tíma verði unnt að halda gæzlunni áfram fyrir norðan, ef landhelgisgæzlunni tekst að útvega skip, sem notað yrði í viðlögum, ef eitthvert varðskipanna bilaði. Bendir forstjórinn 3 því sambandi á vélskipið Fanney.

Þar sem forstjóri landhelgisgæzlunnar taldi líklegt, að landhelgisgæzlan hefði skip til þess að annast eftirlitið fyrir Norðurlandi, sem till. fer fram á, er n. sammála um að mæla með till. þannig breyttri, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að starfsemi varðskipanna verði þannig hagað, að innt verði af hendi fyrir Norðurlandi í vetur nauðsynleg landhelgisgæzla og aðstoð við fiskiskip og sé það samrýmt heildaráætlun um örugga gæzlu og eftirlit við strendur landsins.“

Í brtt. n. felst þá það, að ríkisstj. hlutist til um, að landhelgisgæzlan sjái fyrir skipi til þess að annast eftirlit og aðstoð við fiskiskip fyrir Norðurlandi í vetur, enda verði þær ráðstafanir samrýmdar heildaráætlun um örugga gæzlu og eftirlit við strendur landsins. Nefndin var algerlega sammála í málinu.