26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2538)

103. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með lögunum um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins frá 25. maí 1949 var gerð tilraun til að stíga merkilegt spor í þá átt að takmarka þá fjárhagslegu áhættu, sem einlægt fylgir bátaútgerð okkar. Þegar lögin voru samþ., var talin mikil nauðsyn á að hraða sem mest fyrir, að hlutatryggingasjóðurinn gæti tekið til starfa, og var svo ákveðið, að hefjast skyldi strax handa um tekjuöflun og bótareglugerðir skyldu samdar svo fljótt, að sjóðurinn gæti hafið störf sín árið 1950.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er hlutatryggingasjóðnum skipt í tvær deildir, síldveiðideild og hina almennu fiskideild. Reglugerð um síldveiðideildina var tilbúin í tæka tíð, og tók sú deild til starfa 1950. Hins vegar dróst mjög úr hömlum, að reglugerð fyrir fiskveiðideildina væri samin, og var hún ekki gefin út fyrr, en seint á árinu 1951, eða nálægt 2½ ári eftir að lögin voru samþ. Það vantaði þó ekki, að með málinu væri fylgzt af áhuga af hv. Alþ., því að ekki færri, en tvær fyrirspurnir komu fram um samningu reglugerðarinnar og ein þáltill. um að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að samningu þessarar reglugerðar yrði hraðað. Sú þáltill. var samþ. einróma, án þess að málinu væri vísað til n.

Ég veit, að það hefur verið mikið vandaverk að semja þessa reglugerð. Og ég efa ekki heldur, að þeir menn, sem þar áttu að að vinna, hafi viljað skila góðu verki og í tæka tíð. þótt þar hafi augljóslega tekizt verr til, en skyldi. Mér er hins vegar kunnugt um, að það olli allmikilli gremju á Norðausturlandi, þegar svo tókst til, að vegna skorts á reglugerð féllu bætur niður hjá fiskideildinni árið 1950. En svo bættust við ný vonbrigði, þegar reglugerðin kom út og séð var, að ákvæði hennar eru á þann veg, að þau virðast brjóta í bága við anda hlutatryggingasjóðslaganna, með því að bótavon stórlækkar eða jafnvel hverfur í sumum tilfellum á heilum veiðisvæðum og á ég þar við Norðausturlandið. Það mátti einatt búast við því, að í upphafi mætti finna eitt og annað að slíku nýsmíði sem þessi reglugerð er, en að svona stórfelldur galli kæmi fram, getur ekki skýrzt á annan hátt en þann, að þeim mönnum, sem sömdu, hafi orðið sú skyssa á að leita ekki nægilega álits kunnugra manna í hinum einstöku verstöðvum.

Til þess að ráða bót á alvarlegustu misfellunum, sem ég og hv. þm. N-Þ. teljum að séu á reglugerðinni um hina almennu fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins, höfum við talið nauðsynlegt að bera fram þáltill. á þskj. 134, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta endurskoða umrædda reglugerð. Í þessari till. er gert ráð fyrir, að þeirri endurskoðun sé lokið fyrir 1. maí n. k. og lögð verði áherzla á að leita umsagna kunnugra manna í verstöðvum landsins, sérstaklega á Norðausturlandi. Þá viljum við flm., að bótaréttur úr sjóðnum fyrir árið 1951 geymist, þar til endurskoðunin hefur farið fram. Þarf slíkt að standa sem bráðabirgðaákvæði í hinni endurskoðuðu reglugerð til tryggingar fyrir því, að útgerðarmenn og sjómenn, sem telja sig ekki geta notið réttar síns samkv. ákvæðum gildandi reglugerðar, fái notið hans, þótt síðar verði. Þetta bráðabirgðaákvæði er sjálfsagt, en vel má vera, að það reynist ekki mjög nauðsynlegt í framkvæmd, því að ég hef ástæðu til að ætla, að þeim mönnum, sem sjá um framkvæmd þessara mála, séu nú ljósir ýmsir þeir gallar, sem við flm. teljum á reglugerðinni, og hafi fullan hug á að reyna að komast fram hjá þeim ákvæðum, sem við teljum varhugaverðust.

Eins og til er ætlazt í l., skiptir reglugerð fiskideildarinnar veiðiskipunum í flokka, fiskimiðunum í veiðisvæði og ákveður, hvaða hluti ársins telst veiðitími eða vertíð, sem í reglugerðinni nefnist bótatímabil. Ef um aflabrest er að ræða samkv. ákvæðum hlutatryggingasjóðslaganna, þá bætir sjóðurinn, en þó aldrei meira en upp í 75% af því magni, sem kallað er meðalveiði. Sé útgerðartímabil einhvers báts styttra, en 75% af núgildandi bótatímabili. þá lækkar bótaréttur bátsins að sama skapi. Fyrir opna vélbáta — eða trillur öðru nafni — eru fiskimiðin milli Rifstanga og Gerpis talin eitt veiðisvæði. Í flestum verstöðvum innan þessa veiðisvæðis eru fiskveiðarnar nær eingöngu stundaðar á trillubátum og aðeins yfir sumarið. Samkv. reglugerðinni er bótatímabilið fyrir trillubáta á þessu veiðisvæði ákveðið frá 1. maí til 30. nóv., eða 7 mánuðir. Nú er það staðreynd, að á þessu veiðisvæði er yfirleitt aðeins fiskvon á trillubátamiðum frá því í júní þar til í september ár hvert, eða í hæsta lagi 4 mánuði. Er reynslan yfirleitt sú, að það má ekki reikna með lengri útgerðartíma, en nálægt 3 mánuðum, eða frá 15. júní til 15. sept. Undir engum kringumstæðum má þess vegna bótatímabilið teljast lengra, en 4 mánuðir. Þetta er staðreynd, sem hverjum kunnugum manni á þessu veiðisvæði er vitanleg. Sé nú úrskurðaður aflabrestur hjá trillubátum á þessu veiðisvæði, þá er augljóst mál, að menn missa mikið af rétti sínum til bóta sökum þess, að bótatímabilið er ákveðið allt of langt, eða 210 dagar í staðinn fyrir 120, sem við flm. þessarar till. teljum að það ætti að vera. Réttindaskerðingin er augljós, ef við tökum dæmi. Við skulum segja, að meðalafli fyrir trillubát á þessu veiðisvæði sé ákveðinn 40 tonn, og miðast þá bætur við 30 tonn. Útgerðartími þessa báts var 3 mánuðir, eða 90 dagar. Sökum þess, hve útgerðartíminn er stuttur miðað við hið ákveðna bótatímabil samkv. reglugerðinni, lækkar meðalaflinn, sem bætur miðast við, ofan í tæplega 22,8 tonn. Hafi nú þessi bátur aðeins fiskað 10 tonn og sé tonnið metið á 1.000 krónur, þá er bótavon bátsins nálega 4.600 kr., en hefði orðið nálægt 10.800 kr., ef bótatímabilið hefði verið ákveðið 4 mánuðir. Ef sami bátur hefði hins vegar aflað 20 tonn, þ. e. 50% af þeim meðalafla, sem ég geri ráð fyrir í dæminu, hefði hann engar bætur fengið samkvæmt þeim ákvæðum, sem gilda þar um í reglugerðinni nú. — Sé tekið annað dæmi, þar sem reiknað er með 30 tonna meðalafla á veiðisvæði, á trilla með 10 tonna aflamagni bótavon í 1.660 kr. samkv. gildandi ákvæðum um 7 mánaða bótatímabil, en hefði átt von á 7.200 kr., ef gilt hefði 4 mánaða bótatímabil. Er af þessu augljóst, að óhjákvæmilegt er að breyta ákvæðum reglugerðarinnar varðandi bótatímabil trillubáta á veiðisvæðinu Rifstangi –Gerpir. Sjómenn á þessu veiðisvæði greiða eins og aðrir gjöld sín til sjóðsins og eiga því kröfu til þess, að umrædd reglugerð gefi þeim sama rétt og öðrum. — Þá vil ég enn fremur benda á, að ákvæði reglugerðarinnar um 3. flokk veiðiskipa eru mjög vafasöm með tilliti til Norðausturlands. Er í þessum flokki um að ræða þilfarsbáta undir 30 tonn. Samkv. reglugerðinni nær áttunda veiðisvæði þessara báta yfir fiskimiðin Langanes-Vattarnes, og er bótatímabilið ákveðið frá 1. marz til 31. des., eða 10 mánuðir. Sjöunda veiðisvæðið, sem er næst fyrir norðan, hefur 9 mánaða bótatímabil, og níunda veiðisvæðið, sem er Vattarnes-Hornafjörður, er ákveðið með 8 mánaða bótatímabil. — Ég fæ ekki séð; hvers vegna veiðisvæðinu Langanes-Vattarnes er ætlaður lengri veiðitími, en svæðinu næst fyrir sunnan. Það er þvert á móti hægt að leiða rök að því, að hann á frekar að vera styttri, því að fyrir Norðausturlandi er yfirleitt ekki veiðivon fyrir smærri þilfarsbáta nema á tímabilinu frá 1. maí til 1. desember, eða 7 mánuði. Hér þarf því einnig að lagfæra reglugerðina.

Ég hef nú lítillega rætt þetta mál og að mestu með tilliti til þess svæðis, sem við flm. þekkjum bezt. Við vonum, að samþ. verði að endurskoða reglugerðina og þar með reynt að sníða af henni mestu vankantana, og á það að koma öllum til góða, sem kunna að vera óánægðir. Þeir, sem eru hins vegar ánægðir með reglugerðina eins og hún er, munu víssulega una bezt sínum hlut með því að vita, að aðrir njóta sama réttar og þeir. Ég ætla, að þetta mál geti ekki orðið neitt ágreiningsmál hér í hv. Alþ., og geri því í raun og veru ráð fyrir, að óþarfi sé að fresta umr. og vísa málinu til n., en þar um verður hæstv. forseti að fella sinn úrskurð. En byggt á þessari skoðun geri ég ekki till. til að vísa málinu til n.