05.12.1952
Sameinað þing: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (2554)

119. mál, varahlutir til bifreiða

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. 2. þm. Rang. um það, að ég hefði sagt, að n. teldi ekki rétt að fella varahluta vegna bifreiða af bátagjaldeyrisskrá, meðan þar væru margar aðrar vörur, sem ekki væru siður nauðsynlegar, þá vil ég til að forðast misskilning taka það fram, sem ég hélt mig hafa sagt skýrt í minni framsöguræðu, að það væri hér átt við bifreiðavarahluta almennt, þ. e. a. s. að fella niður af þeirri skrá bifreiðavarahluta einnig til þeirra bifreiða, sem væru ekki nauðsynlegar til atvinnurekstrar. Ég tók það hins vegar fram, og það var eindregið álit n., að það bæri mjög að taka það til athugunar, hvort hægt væri að gera einhvern greinarmun á bifreiðavarahlutum að þessu leyti. Hv. 2. þm. Rang. benti hér á eina leið, sem hugsanleg væri í því sambandi, — ég skal ekkert um það segja, hvort hún væri framkvæmanleg eða ekki, en það er skoðun n., að það væri mjög æskilegt, ef hægt væri að finna slíka leið og gera þannig einhver skil á milli bifreiða eftir notkun þeirra. Nú er það að vísu svo, að það getur alltaf verið mikið ágreiningsefni, hvaða bifreiðar ættu að falla undir slíka undanþágu og hverjar ekki. Það er nú eitt atriði málsins. En það, sem réð afgreiðslu n., var fyrst og fremst sú skoðun, að það væri ekki rétt að leggja til, að bifreiðavarahlutar almennt væru teknir út úr öðrum vörum og felldir niður af bátagjaldeyrislista, meðan bátagjaldeyrisálagið væri innheimt af ýmsum vörum, sem væru ekkl aðeins jafnnauðsynlegar, heldur nauðsynlegri en bílanotkun og bílaeign margra manna er, sem ekki nota þær bifreiðar í atvinnuskyni. Það var því ekki verið á neinn hátt af n. hálfu að amast við bifreiðaeign almennt eða því, að hlynnt væri að bifreiðaeigendum, heldur var þetta meginsjónarmið, sem ég hygg að hv. þm. muni geta fallizt á að eðlilegt sé, meðan þetta bátagjaldeyrisálag helzt, að það sé reynt að gera þar skýr mörk á milli, hvað sé nauðsynlegt og hvað ekki nauðsynlegt.

Hv. flm. till. beindi þeirri fyrirspurn til n. áðan, hvort hún hefði rætt þetta mál við hæstv. ríkisstj. Það hefur hún að vísu ekki gert, og ég vil benda á það, að svo sem till. er orðuð, þá er hún aðeins orðuð sem áskorun á ríkisstj. að fella þessa varahluta niður, en ekki nein fyrirmæli um það, að þetta skuli gert, þannig að mitt álit er, og ég hygg það vera skoðun n., að það muni ekki neitt fremur torvelda eðlilegan framgang og úrlausn þessa vandamáls, þó að sú aðferð væri höfð, sem n. leggur til, að vísa till. til ríkisstj. með því fororði, sem í grg. segir, að n. telji mjög eðlilegt, að það verði kannað, hvort hægt sé að setja einhver slík mörk í sambandi við bifreiðavarahlutana. Ég vil ekki fallast á það, að þessi afgreiðsla málsins sé sú sama og hv. flm. sagði hér áðan, að drepa till. Hún getur skilað alveg jafngóðum árangri, hvort sem hún er afgreidd í þessu formi, sem n. leggur til, eða í hinu forminu, að öðru leyti en því, að ég hygg, að síðara formið, þ. e. a. s. till. n., sé líklegri til árangurs, vegna þess að ég býst ekki við, að hæstv. ríkisstj. hefði talið eðlilegt að fella varahluta til bifreiða almennt niður af bátagjaldeyrisskrá, meðan slíkt álag helzt og þarf að gera upp á milli hinna ýmsu vara, sem til landsins eru fluttar, hvort þær eiga að koma á þá skrá eða ekki. Af þeim sökum tel ég, að það sé málinu til alveg jafnmikillar þurftar að hafa þá aðferð á afgreiðslu þess, sem allshn. hefur lagt til, eins og þó að þessi almenna áskorunartill. hv. flm. hefði verið samþykkt.