05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2562)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Emil Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til, að gefnu tilefni frá hv. frsm. fjvn., að fara um þetta mál nokkrum orðum.

Það er nú svo með framkvæmd og gerð hafnarmannvirkja, að þau eru tíðum með nokkuð öðrum hætti en gerð annarra mannvirkja, vegna þess fyrst og fremst, að þar verður oft að tefla á tvær hættur vegna veðurlags, og það er t. d. þess vegna, að ekki er unnt að vinna þær að vetrarlagi, þegar allra veðra er von. Ef svo kemur eitthvert áhlaup eða illviðri, meðan á gerð mannvirkisins stendur, þá getur það í vissum tilfellum valdið nokkru tjóni. Eins er það líka, að eins og vinnu hefur verið hagað við hafnarmannvirki hér á landi að undanförnu, þar sem höfð hafa verið undir í einu kannske 30 mannvirki eða fleiri, þá er það oft svo, að það er ekki auðvelt að hafa fullnægjandi eftirlit með framkvæmd verksins á öllum stöðum, vegna þess að þar eru ekki til staðar nema tiltölulega fáir verkfræðingar. venjulegast 4, sem skipta sér af þessum störfum og verða oft og tíðum meira bundnir á einum stað en æskilegt væri og geta svo ekki sinnt fullkomnum störfum á öðrum. Einnig er það að athuga, að þegar unnið er á svona mörgum stöðum eins og ég nú gat um, þá hefur ekki ævinlega tekizt að fá vana verkstjóra alls staðar til þess að standa fyrir verkum, og hafa líka af því hlotizt nokkur óþægindi.

Engu af þessu er þó sennilega til að dreifa í þessu tilfelli, sem hér um ræðir. Hér hefur það komið fyrir, að uppfylling, sem gerð var á Ísafirði 1948, hefur sigið nokkuð, eða frá því um nokkra cm og allt upp í rúman metra mest. Nú hefur hv. þm. Ísaf. farið þess á leit, að ríkissjóður bætti þetta tjón. Eftir því, sem ég hef getað séð á þeim gögnum málsins, sem fyrir liggja, — en eins og hv. frsm. tók fram, þá hafði ég ekki beint með þetta verk að gera þá, þar sem ég gegndi öðrum störfum, — en eftir því sem ég fæ bezt séð, þá mun þetta koma til af því, að botn hafi ekki verið fullkomlega traustur undir mannvirkinu og þess vegna sigi þetta niður í heilu lagi, án þess að þeir „konstruktions“-partar, sem þarna var um að ræða, bæði festing, járn og annað, hafi að nokkru leyti gefið sig. Spurningin er þess vegna eingöngu um það í þessu tilfelli, hvernig búið hafi verið um verkið, áður en það var hafið.

Nú skýrði ég hv. fjvn., samkvæmt ósk hennar, frá því, sem fyrir lá um þetta mál, í bréfi til n., dags. 6. jan., sem prentað er hér með nál. og hv. þm. hafa getað lesið og kynnt sér. Hefur hv. fjvn. óskað eftir því, að með frekari rannsókn yrði aflað frekari upplýsinga um ýmislegt í sambandi við þetta verk, og kemur það fram í breytingum, sem n. flytur á þskj. 608. Eins og hv. frsm. sagði, hefur hann og flm. till. átt viðræður við mig um málið, eftir að þetta kom fram, og hefur sú orðið niðurstaðan af þeim viðræðum, að ég hef lagt til að taka að mér, með aðstoð verkfræðinga eða verkfræðings a. m. k., þá rannsókn, sem hér er farið fram á af hálfu n. að gera, og mér finnst það raunar eðlilegasta leiðin, frekar en að fá til þess utanaðkomandi menn á þessu stigi málsins. Sú leið er alltaf opin, ef hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. gera sig ekki ánægðar með þær upplýsingar, sem fram kynnu að koma við mína athugun. Ég vildi þess vegna, eins og hann óskaði raunar eftir, lýsa yfir því, að ég mun taka að mér að kynna mér þetta mál til hlítar og rannsaka það ofan í kjölinn og reyna að svara öllum þeim spurningum, sem felast í brtt. n. Ég tel víst, að þessu megi takast að ljúka áður en sá tími er liðinn, sem í till. n. segir, sem er 1. júlí n. k. Þó er þar við að athuga, að sá verkfræðingur, sem hafði umsjón með framkvæmd þessa verks og var danskur maður, er ekki lengur búsettur hér á landi, ef til hans þyrfti að ná, sem ég veit ekki um á þessu stigi, hvort talið verður nauðsynlegt, en hann var af öllum, sem til hans þekktu, talinn mjög gegn og starfhæfur maður í sinni stöðu.

Ég sem sagt vil taka að mér, eftir ósk hv. frsm. n., að leitast við að svara þeim spurningum, sem gert er ráð fyrir að svarað verði í till. n., og leggja þær fyrir hæstv. ríkisstj. og þá Alþ., ef þess kann að verða óskað. Eðlilegur gangur á málinu teldi ég því að væri nú á þessu stigi sá, að till. væri vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að þessi athugun, sem ég nú hér hef lofað, yrði látin fara fram. Afgreiðsla málsins yrði þinglegust á þann hátt.