20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2573)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af vissum atriðum í ræðu síðasta alþm., sem hér tók til máls rétt áðan, út af afstöðu brezkra og þýzkra jafnaðarmanna til þessa máls, sem hér liggur fyrir. Þar var hvorki rétt né nákvæmlega frá skýrt í ræðu þm. Hvað brezka jafnaðarmenn varðar, þá hafa þeir lýst því yfir, og það var gömul yfirlýsing frá fyrrv. forsrh., Clement Attlee, um það, að Alþýðufl. eða Jafnaðarmannafl. brezki vildi fyrir sitt leyti leyfa Þýzkalandi að hervæðast, en með ákveðnum skilyrðum af hálfu flokksins, og þau skilyrði voru, að Bandaríkin færu ekki að veita fjárhagsaðstoð eða aðstoð með sendingu vopna og annarra slíkra hluta til Þýzkalands, fyrr en búið væri að sjá öðrum ríkjum Norður-Atlantshafsbandalagsins fyrir nægilegu í þessu efni. Það var einmitt utanrrh. brezku jafnaðarmannastjórnarinnar, Morrison, sem um þetta ræddi ýtarlega í Bandaríkjunum á sínum tíma, og segja má, að brezki Jafnaðarmannaflokkurinn sé „prinsipielt“ fylgjandi því, að Þýzkaland verði einn þáttur í varnarsamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins. — Þetta er nú það, sem við kemur afstöðu brezkra jafnaðarmanna.

Þá skal ég snúa mér að afstöðu þýzkra jafnaðarmanna, og hún er sú, eins og kom skýrlega fram á nýafstöðnu þingi þeirra, að þeir vilja fyrst, áður en nokkuð verður ákvarðað um inngöngu vestur-þýzka lýðveldisins eða bandalagsins inn í Atlantshafsbandalagið eða varnarsamtökin, freista þess, eftir því sem þeir frekast geta, að sameina allt Þýzkaland í eitt ríki. Þeir hafa samtímis lýst yfir því, að þeir séu í meginatriðum fylgjandi þátttöku Þýzkalands, sameinaðs Þýzkalands, í varnarsamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Ég vildi bara leiðrétta þessa frásögn hv. þm., af því að annaðhvort gætti í ræðu hans mikils misskilnings eða löngunar til þess að skýra ekki nákvæmlega rétt frá. En þannig er sagan rétt sögð í höfuðatriðum. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að snúa mér að sjálfu þessu frv., sem hér liggur fyrir, en vildi aðeins upp1ýsa þetta varðandi afstöðu jafnaðarmannaflokkanna í Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi.