20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2574)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Finnbogi R. Valdimarsson:

Ég skal ekki tefja þessar umr. Það er aðeins út af ummælum hv. síðasta ræðumanns. Hann vildi telja, að ég hefði farið ónákvæmlega og jafnvel rangt með um afstöðu brezkra og þýzkra jafnaðarmanna til þessa máls, til þeirrar stefnu, sem hér er um að ræða eða felst í þeim samningum, sem hér eru til umr. Ég sé nú ekki, hvað honum tókst að hrekja af því, sem ég sagði um afstöðu þessara merku flokka.

Þýzkir jafnaðarmenn skilja það, og foringi þeirra nýkosinn, Ollenhauer, gerði það alveg ljóst á flokksþingi þeirra nýafstöðnu í Dortmund, að vegna þess, að sameining Þýzkalands og innlimun þess nú í Atlantshafsbandalagið eða Litla varnarbandalagið geta alls ekki farið saman, verða þýzkir jafnaðarmenn og eru á móti innlimun Þýzkalands nú í þetta varnarkerfi. Það er alveg skýr afstaða þeirra. Þeir verða, þegar það kemur til umr. og úrslita, hvort eigi að staðfesta þessa samninga, að vera á móti þeim, vegna þess að þeir munu endanlega koma í veg fyrir sameiningu Þýzkalands, sem er fyrst og fremst áhugamál þýzka Jafnaðarmannaflokksins.

Um afstöðu brezkra jafnaðarmanna hefði hv. þm. getað frætt þingheim betur en hann gerði, því að á flokksþingi þeirra var það alveg ljóst, að þau öfl, sem standa sterkast á móti endurhervæðingu Þýzkalands og gegn yfirgangi Bandaríkjanna í þessum málum, gengu þar með hreinan og skýran sigur af hólmi innan flokksins.