20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2576)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það þarf út af fyrir sig ekki að furða sig á því, þó að þeir, sem voru á móti þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, — hafa verið það og eru það enn, — séu á móti þeirri viðbót, sem hér er verið að gera, vegna þess að þessi viðbót styrkir samtökin frá því, sem verið hefur.

Hinu verð ég að mótmæla, að í því, að einstakir þm. gagnrýna einhvern þátt eða hluta samninganna, sem voru gerðir um varnarliðið hér á landi, og framkvæmd þeirra samninga og telja, að ríkisstj. hafi þar linlega á haldið, — að í því út af fyrir sig felist það, að þeir séu nú horfnir frá sinni stefnu. Það er auðvitað þeirra að segja til um sína skoðun, en ekki annarra. En hitt má öllum vera vitanlegt, að það er einn meginþáttur lýðræðisins, frjáls skipulags, að menn bera fram sínar athugasemdir, að menn gagnrýna jafnvel þær ráðstafanir, sem þeir í heild eru sammála. Auðvitað geta slíkir annmarkar komið fram, að menn breyti um afstöðu til sjálfs meginmálefnisins. En af því einu, að menn beri fram gagnrýni á einstökum atriðum og sérstaklega þá að menn skammi blessaða stjórnina, hver sem hún er, þá er óheimilt af því að draga þá ályktun, sem hv. andmælandi þessarar till., 7. landsk., gerði áðan. Það þarf ekki einu sinni til frjálsa hugsun eða lýðræði á þann veg, sem við erum vanir, til þess að gagnrýni á einstökum atriðum sé í heiðri höfð. Ég held, að sjálfur Stalín, alfaðirinn mikli háttvirts 7. landsk. þm. og hans félaga, hafi nú nýlega hvatt sína fylgismenn til þess að bera fram gagnrýni og jafnvel leyft þeim að gagnrýna stjórnarvöldin, hvað þá heldur aðra. Hér á landi þurfa menn ekki að sækja um slíkt leyfi, sem betur fer, og þó að ríkisstj. telji, að gagnrýni sé oft ósanngjörn, sem að henni er beint, hverjir sem sitja í ríkisstjórn á hverjum tíma, þá vitum við það allir, að gagnrýnin er vissulega nauðsynleg og óhjákvæmileg, ekki sízt í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem segja má, að frjáls gagnrýni sé einn meginþátturinn, úr því að jafnvel í slíku undirokunar- og kúgunarþjóðfélagi eins og því, sem hv. 7. landsk. vill koma á, hefur alfaðirinn séð, að án gagnrýninnar varð ekki verið. — Þetta vildi ég nú segja almennt um þær hugleiðingar, sem komu fram hjá hv. þm.

Út af því, að hér væri um að ræða eitthvert sérmál Bandaríkjanna, að koma á endurhervæðingu Þýzkalands, þá má að vísu segja, að Bandaríkin og sum Vestur-Evrópuríkin hefur um sumt greint á um aðferðina við þá endurhervæðingu. En það er alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður tók fram, að jafnvel þeir, sem gagnrýna mest stefnu Bandaríkjanna í þessum efnum, eru ekki út af fyrir sig andvígir því, að Þýzkaland sé endurvígbúið. Þá kann að greina þar nokkuð á um einstök framkvæmdaratriði, en um heildarstefnuna eru þeir allir sammála, enda er það auðvitað alveg ljóst, að fyrir þá, sem telja völd Bandaríkjanna í Evrópu of mikil, og þeir menn finnast vitanlega, þá er það til frambúðar eitt öruggasta ráðið til að eyða óeðlilegum áhrifum þeirra, að fyllt sé upp í það valda tómrúm, sem nú er í Þýzkalandi, af einhverjum öðrum en Bandaríkjunum Meðan Vestur-Evrópa er þannig á vegi stödd, að varnir hennar verða ekki tryggðar nema með hersetu Bandaríkjanna í Þýzkalandi og um alla Vestur-Evrópu, þá skapar það Bandaríkjunum vitanlega styrkari aðstöðu heldur en ella. Þetta liggur í augum uppi. Þess vegna er uppi einmitt mikil hreyfing, sem er nátengd Evrópuráðinu, sem hefur bækistöðvar sínar í Strasbourg, þó að þar sé ekki beinlínis talað um sjálf hermálin enn þá, nema þá að þeim vikið í almennum umræðum um það að mynda þá raunverulegu ríkjasamvinnu í Evrópu, sem geti skapað verulegt jafnvægi á móti Bandaríkjunum. Slík ríkjasamvinna verður vitanlega aldrei neins megnug í því að veita jafnvægi, hvorki á móti Bandaríkjunum né á móti Rússum, nema því aðeins að Þýzkaland verði endurvígbúið, að vörnum verði komið upp í Þýzkalandi af þjóðinni sjálfri, en ekki af erlendum þjóðum.

Allt tekur þetta sinn tíma, og í þessu eru mörg atriði, sem þeim, er sammála eru um meginatriðin, kemur ekki saman um. En það breytir ekki heildarmyndinni og breytir ekki því, að þessi stefna er uppi og nálgast áreiðanlega óðum það að verða ráðandi í samskiptum þessara ríkja.

Þá mundu sumir spyrja: Af hverju eru Bandaríkin þá að sækjast eftir því að láta Þýzkaland vopnast, ef Vestur-Evrópuríkin hafa þá stefnu, sem ég áðan lýsti? — Það er vitanlega vegna þess, að Bandaríkin í andstöðu við sum önnur heimsveldi eru ekki að sækjast eftir heimsyfirráðum eða kúgun á öðrum þjóðum. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Við vitum það einmitt, að það eru einangrunarsinnarnir, afturhaldsmennirnir, þjóðernissinnarnir, sem stundum eru kallaðir, í Bandaríkjunum, sem vilja kalla liðið burt úr Þýzkalandi, sem vilja ekki hafa neitt setulið í öðrum löndum, heldur halda liðinu heima í Bandaríkjunum. Það eru hinir, þeir, sem kenndir hafa verið við frjálslyndari stefnuna, við alþjóðahyggjuna í hennar beztu merkingu, sem halda því fram, að þangað til Evrópa sjálf hefur skapað sér þann styrk, sem hún þarf að hafa, þurfi slíkt varnarlið af hálfu Bandaríkjanna á þessum slóðum, — það þurfi á meðan veikleikinn varir, en ekki lengur. Allir Bandaríkjamenn eru einhuga um, að liðið beri að kalla heim sem allra fyrst. Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta er það, sem sjá má i hverri einustu greinargerð, sem um þetta kemur fram. Það er í þessu, sem vandinn liggur, ef svo má segja, hvernig þessi sjónarmið má samræma, en alls ekki í hinu, sem hv. 7. landsk. þm. vildi vera láta, að hér væri um að ræða ásælni Bandaríkjanna til aukinna yfirráða.

Annars er því til að svara, að ef þannig fer, að einhver af þeim löndum, sem samþykkja þurfa þennan viðbótarsamning, gera það ekki, þannig að samningurinn í heild kemst ekki í gildi, þá hefur staðfesting af okkar hálfu enga þýðingu. Hún hefur því aðeins þýðingu, að samkomulagið komist á, og staðfesting okkar tekur ekki gildi út á við fyrr en sú staðreynd liggur fyrir. Þess vegna er síður en svo nokkur hætta á því, að með þessu verði stofnað til skuldbindingar eða ýtt undir skuldbindingar umfram það, sem allar þær þjóðir, sem hlut eiga að máli, vilja raunverulega gangast undir.