12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2589)

27. mál, smáíbúðarhús

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem ég hef leyft mér að bera fram ásamt hv. 10. landsk., kom fram í byrjun þessa þings á þskj. 27, en hefur ekki komið til umr. hér fyrr.

Nokkru eftir að þessi till. kom fram, gerðist það, að fjárhagsráð gaf út nýjar reglur um stærð og gerð smáíbúðarhúsa, — það atriði, sem þessi þáltill. fjallar meðal annars um, — og breytti þar með þeim reglum, sem ráðið hafði sett í september í fyrra og höfðu þannig gilt í meira en ár. Fjárhagsráð hafði allt þetta ár verið alveg ófáanlegt til þess að víkja frá eða breyta nokkuð um, þrátt fyrir margar áskoranir frá byggingarfróðum mönnum og byggingarnefndum, eins og t. d. byggingarnefnd Reykjavíkurbæjar, og þrátt fyrir það að það væri sýnt og sannað, að þær reglur, sem ráðið hafði sett um takmarkanir á tryggingu smáíbúðarhúsa, voru bæði mjög óhagkvæmar og bagalegar fyrir þá, sem stóðu í að byggja þessi hús og eru nú orðnir nær þúsund manns, og þess vegna af sömu ástæðu stórskaðlegar fyrir þjóðina í heild, þótt það kynni síðar að koma í ljós. Ráðið hafði, rétt áður en Alþ. kom saman að þessu sinni, gert ráðstafanir til þess að kæra fjölda manna, sem höfðu talið sig nauðbeygða til að víkja frá þeim reglum, sem fjárhagsráð hafði sett um stærð og gerð og útlit um 900 íbúðarhúsa, sem það hafði leyft að byggja, og fá þá dæmda til sekta eða fangelsisvistar fyrir það að hafa vikið frá þessum reglum. Það er nú auðvitað ekki nema gott um það að segja, að ráðið hefur, þótt seint sé, vikið frá villu síns vegar í þessu efni og loksins breytt þessum reglum, sem hafa gilt í meira en ár, öllum til stórskaða. En þó að segja megi, að einn efnisliður þessarar þáltill. hafi þannig komið til framkvæmda, þá hef ég samt talið rétt, að þessi till. kæmi til umr. hér á hv. Alþ. og yrði fjallað um hana af þingnefnd, bæði vegna þess, að í henni felast fleiri efnisliðir en ég er viss um að hafi komið til framkvæmda nú, og af því að ég tel, að það sé full ástæða til, að þingnefnd fjalli um og kynni sér þetta mál í heild, öll afskipti fjárhagsráðs af byggingu smáíbúðarhúsa og öðrum byggingarmálum.

Það má vera, að einhverjum hafi í fljótu bragði virzt, að efni þessarar till. sé ekki ýkja mikið og að það ætti ekki að þurfa að koma til þess, að það þyrfti að ræða eða gera áætlanir hér á hv. Alþ. um stærð og gerð smáíbúðarhúsa og þar á meðal það, hvort rishæð þeirra sé meiri eða minni. En það má nú í fyrsta lagi ekki gleyma því, að það er einmitt hv. Alþ. sjálft, sem hefur kveðið svo á, að ein stofnun í landinu hefur vald til þess að ákveða, hve mikið má byggja af húsum í landinu, hverjir megi byggja þau og jafnvel hvernig þau eigi að vera í laginu. Ef þess er enn fremur gætt, að nú á einu ári hafa mönnum verið veitt um 900 leyfi alls í landinu til þess að byggja sér smáíbúðarhús fyrir sig og fjölskyldur sínar, en þeir menn eru allir háðir þeim reglum, sem fjárhagsráð hefur sett um gerð og útlit þessara húsa, þá hygg ég, að menn geti fallizt á það, að það er ekki alveg þýðingarlaust fyrir þjóðina í heild sinni, hvernig þær reglur eru, sem settar eru um gerð þessara húsa. Í þessum um 900 húsum, sem eru í byggingu og eru háð reglum fjárhagsráðs, eiga um 5–6 þúsundir manna von á að fá húsnæði. Verð þessara húsa er áætlað einhvers staðar á milli 150 og 200 millj. kr., og þau eiga eftir að standa og verða að veita húsnæði ekki aðeins því fólki, sem fyrst flytur inn í þau, heldur væntanlega 2–3 kynslóðum. Að öllu þessu athuguðu hygg ég, að allir verði sammála um það, að ef byggingar húsa eru háðar ströngum reglum, þá er það þýðingarmikið, að þær reglur séu hagkvæmar þeim mönnum, sem eru að byggja húsin og eiga að nota þau, enda er samkv. l. um fjárhagsráð tilgangur ráðsins að stuðla að því, að heilsuspillandi húsnæði í landinu verði útrýmt sem fyrst með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.

Þetta mál er ekki heldur nýtt hér á Alþ. Það var fyrir tveimur árum — eða tæplega það — rætt hér mjög rækilega, hvort rétt væri að veita fjárhagsráði vald til þess að hafa afskipti af og leyfa eða banna byggingu smáíbúða, sem menn byggja yfir fjölskyldur sínar. Það var hér á ferðinni frv., flutt af fjhn. hv. Nd., sem fékk fljóta afgreiðslu í Nd., en stöðvaðist með undarlegum hætti á síðasta stigi málsins í Ed. En í framhaldi af því var samþ. áskorun til fjárhagsráðs um að rýmka um leyfi til smáíbúðarhúsa, sem menn ynnu að sjálfir. Samkvæmt því var það loksins í september í fyrra, að fjárhagsráð gaf út auglýsingu um, að leyfi skyldu vera veitt fyrir húsum, sem ekki væru stærri en um 80 m2 að gólffleti. En eftir að sú auglýsing var gefin út, kom það greinilega í ljós, hve þörfin var mikil hjá fólki fyrir að koma sér upp húsum, þannig að nú um það bil sem Alþ. kom saman höfðu þegar verið veitt um 900 leyfi til þess að byggja slík hús, og mér er tjáð, að fjárhagsráð geri ráð fyrir, að á þessu ári um áramót verði búið að veita um 1.100 slík leyfi. Í fjárfestingaráætlun fyrir árið 1953, sem þingmönnum hefur borizt, gerir ráðið ráð fyrir, að á næsta ári, 1953, muni verða veitt um 1.100 slík leyfi.

Í mínum augum er það nú atriði út af fyrir sig, hvort það er, þegar á allt er lítið, heppilegt og skynsamlegt að einbeita þannig miklum meiri hluta af byggingarstarfseminni í landinu að því að byggja eingöngu þessi smáíbúðarhús, en torvelda á ýmsan hátt, að menn geti byggt með öðrum hætti og í öðru formi, t. d. í sambyggingum. Ég álít meira en vafasamt, hvort það er heppilegt, og þyrfti athugunar við, hvort þyrfti ekki, um leið og rýmkað hefur verið um leyfi til þessara smáíbúðarhúsa — einbýlishúsa, að rýmka einnig um leyfi fyrir íbúðarhús, sem byggð eru í sambyggingum. En það hefur orðið svo af ýmsum ástæðum — m. a. vegna þess, að ríkisvaldið sjálft virðist vilja stuðla að því, — að byggingarstarfsemin í landinu beinist einkum að þessum smáíbúðarhúsum, eins og nú þegar hefur orðið á þessu ári, og menn halda, og það með fullum rétti, að fremur fáist leyfi til þess að byggja slík hús, og enn fremur gera menn sér vonir um, að það fáist helzt lán til þess að koma upp slíkum húsum. En af því hvoru tveggja hefur leitt, að það lítur út fyrir, að yfirgnæfandi meiri hluti allrar byggingarstarfsemi í landinu beinist að því, að menn byggi slík smáíbúðarhús — einbýlishús, en ekki í félagi, eins og hefur víða tíðkazt, einkum hér í Reykjavíkurbæ og stærri bæjum. En ef á næsta ári verða byggð um 1.100 smáíbúðarhús, sem öll verða háð reglum fjárhagsráðs um alla stærð og gerð, þá held ég, að það væri full ástæða til, að þær reglur væru teknar til athugunar og endurskoðunar, eins og farið er fram á með þessari þáltill., og að sérfróðum mönnum, fulltrúum frá samtökum byggingarmanna í landinu, væri gefinn kostur á að koma fram með till. um gerð þessara húsa og þá þær takmarkanir, sem ríkisvaldið vildi setja á þær byggingar, ef þær ættu að vera nokkrar.

Það mætti ef til vill segja, að það væri ástæða til, að þn. tæki einnig til athugunar önnur afskipti fjárhagsráðs af byggingarmálum, t. d. það atriði, hvort fjárhagsráð eigi framvegis að hafa, eins og það hefur haft hingað til, vald til þess að tefja, torvelda og jafnvel banna byggingarframkvæmdir og aðrar framkvæmdir, sem Alþ. og ríkisstjórn hafa ákveðið að skuli gerðar, en fjárhagsráð vill koma í veg fyrir og hefur komið í veg fyrir. En það er annað mál, sem ekki felst í þessari till.

Ég vil að síðustu endurtaka það, að þó að nokkur hluti og veigamikill hluti þessarar till. hafi þegar komið til framkvæmda, þá tel ég, að það sé full ástæða til, að till. öll verði athuguð af þn., og óska því eftir, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til n., væntanlega hv. allshn.