22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

46. mál, samskipti varnarliðsmanna og íslendinga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Áður en till. þessi fer til n., langar mig til þess að láta í ljós með örfáum orðum stuðning minn við þá grundvallarhugsun, sem í henni felst. Ég hefði að vísu viljað, að hún væri nokkuð öðruvísi og greinilegar orðuð, en það breytir ekki því, að ég tel stefnu þá, sem í henni felst, rétta.

Þegar herverndarsamningurinn var gerður á sínum tíma, lagði ég á það megináherzlu, að vist hersins hér yrði ekki látin setja neinn svip á þjóðlífið og þá sérstaklega ekki á lífið í Reykjavík. Ég áleit, að það, hvort samningurinn og sú stefna, sem í honum felst, mundi hljóta stuðning þjóðarinnar til frambúðar, væri algerlega komið undir því, hvort það tækist að skilja svo greinilega milli þjóðarinnar og hersins, að vist hans hér yrði ekki alvarlegt, félagslegt vandamál. Þetta hefur því miður ekki tekizt. Á því ber hæstv. ríkisstj. ábyrgð, og sú ábyrgð er þung.

Það má vel vera, að útlendir menn eigi erfitt með að skilja, að vist nokkurra þúsunda útlendinga í landi geti orðið þjóð landsins alvarlegt vandamál, en því má ekki heldur gleyma, að þeir eiga líka erfitt með að skilja, að til skuli vera sjálfstæð menningarþjóð, sem telur ekki hálft annað hundrað þúsunda. En sú þjóð hefur verið til í nær 1100 ár, reynt bæði margt og mikið, oft verið nær dauða en lífi, þolað hungur og hörmungar, barizt í aldir gegn erlendri kúgun, en alltaf viljað vera íslenzk þjóð. Saga Íslendinga og örlög þeirra í aldaraðir gera þá, sem fullorðnir eru, tortrygga að eðlisfari gagnvart erlendum áhrifum. Fámennið og fásinnið gera unglinga hins vegar fíkna í tilbreytingu og þá ekki hvað sízt í það, sem útlent er. Og af báðum þessum sökum verða skipti Íslendinga við aðrar þjóðir með nokkuð öðrum hætti, en gerist milli stærri þjóða. Af báðum þessum sökum hlýtur dvöl erlends hers meðal Íslendinga að verða annað og meira vandamál en vist erlends eða innlends hers meðal annarra stærri þjóða, og vita þó allir, að alls staðar er um slík vandamál að ræða.

Íslendingum mun yfirleitt ljóst, að því fylgir hætta fyrir grannþjóðir þeirra og þá sjálfa, ef hér væru engar hervarnir, svo voveiflegir sem tímarnir nú eru. En þeim er líka ljóst, að engar hervarnir tryggja fullt öryggi, að auknum hervörnum fylgir líka aukin áhætta. Við þetta bætist svo, að þegar samningur um hervarnir er framkvæmdur eins og hér hefur orðið raunin á, fylgir honum félagsleg og þjóðernisleg hætta. Afstaða Íslendinga til varnarmálanna hlýtur að fara eftir því, hvernig þeir meta þessar hættur. Ég er sannfærður um, að verði ekki breytt til um þá stefnu, sem fylgt hefur verið við framkvæmd samningsins, þá muni meiri hluti þjóðarinnar snúast gegn því, að annarri þjóð séu faldar varnir landsins, og vilji, að við tökum þær í eigin hendur og takmörkum þær þá að sjálfsögðu við litla fjárhagsgetu þjóðarinnar. Ríkisstj. verður að gera sér ljóst, hver er vilji þjóðarinnar í þessum efnum. Það er engum efa undirorpið, að Reykvíkingar eru því yfirleitt andvígir, að herverndarsamningurinn sé framkvæmdur á þann hátt, sem hér hefur verið gert varðandi dvöl hermanna í bænum. Ríkisstj. þarf að gera hernaðaryfirvöldunum ljóst, að hér á Íslandi er ekki aðeins um hernaðarvandamál að ræða, heldur einnig félagsleg vandamál og þjóðernisleg vandamál, sem leggja þarf engu minni rækt við að leysa. Íslendingar hafa ávallt verið viðkvæmir í skiptum sínum við aðrar þjóðir. Útlendingum hefur oft fundizt þeir of viðkvæmir. Íslendingar eiga sér þá afsökun eina, og hún er nóg, að án þessarar viðkvæmni er vafasamt að þeir væru til.

Í þessu ljósi verður að skoða álit Íslendinga á þessu máli.