22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2605)

46. mál, samskipti varnarliðsmanna og íslendinga

Jónas Árnason:

Herra forseti. Eins og við höfum heyrt, er nú þeirri skoðun haldið fram með vaxandi alvöruþunga af áhrifafólki hér á Alþ., að hin svo nefnda hervernd landsins sé hið mesta mein fyrir menningu okkar og þjóðerni og mein þetta beri að einangra sem mest með hreinlæti og sótthreinsunarmeðulum, eins og þegar gröftur kemur upp í sári á líkama manns og óhjákvæmilegt er annað en bera a. m. k. á það joð. Er þetta góðra gjalda vert. En sjúkdómar verða yfirleitt ekki læknaðir til fulls, nema menn geri sér grein fyrir orsök þeirra, og því virðist mér vel til fallið að skyggnast nokkuð að rótum þessa meins og athuga, hvernig á því stendur, að það hefur gert um sig á þjóðarlíkama Íslendinga. Skal farið fljótt yfir sögu.

Þegar þátttaka Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu var á döfinni, vöruðu sósíalistar við því, að hún mundi leiða til hernáms landsins á friðartímum og hafa í för með sér hinn mesta háska fyrir sjálfstæði og menningu þjóðarinnar. Úr hópi fyrrnefnds áhrifafólks, sem nú berst með vaxandi krafti gegn meinsemd hernámsins, voru einnig menn, sem drengilega vöruðu við hættunni. Þetta gerðist þegar ekki var nema rúmlega hálft ár til kosninga. En þátttakan í Atlantshafsbandalaginu var engu að síður samþykkt, svo sem frægt er orðið, og hættunni boðið heim. Þann 7. maí 1951 sannaðist það, sem sósíalistar höfðu varað við: landið var hernumið. En nú brá svo við, að það áhrifafólk, sem áður var nefnt, talaði næsta lítið um hættur þær fyrir þjóðerni okkar og menningu, sem það hafði áður haldið fram, að hernámið mundi hafa í för með sér. Þvert á móti samþykkti það hernámið orðalaust. Þetta gerðist, þegar langur tími var til kosninga.

Hætturnar af hernáminu komu fljótt í ljós og urðu að ægilegum veruleika. Sósíalistar héldu vakandi athygli almennings á þeim og stóðu þar lengstum einir; þar til nú fyrir skemmstu, að títtnefnt áhrifafólk hér á Alþ. fór sem sagt að tala með alvöruþunga um þá meinsemd, sem hernámið er fyrir þjóðerni okkar og menningu. Þetta gerist þegar ekki er nema rúmlega hálft ár til kosninga.

En fólk þetta þykist sem kunnugt er hafa miklar afsakanir fyrir aðild sinni að þeirri þróun, sem málið hefur fengið. Vorið 1951 var óhjákvæmilegt að biðja góðrar þjóðar menn að vernda þetta land, því að eins og allir hafa heyrt, vofði þá yfir því árás og hefur vofað síðan. Málið stóð meira að segja svo tæpt, samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj., að ábyrgðarleysi var talið að fara með þetta eftir fyrirmælum stjskr. og láta málið bíða eftir þinglegri afgreiðslu, þar eð árásin mundi sennilega hafa skollið á í millitíðinni. Var látið nægja að ræða við þm. þriggja pólitísku flokkanna og fá þá til að samþ. hernámssamninginn sem prívatmenn. Sagði svo í tilkynningu ríkisstj., að hún hefði ekki viljað skýra frá samningnum, fyrr en hann var kominn til framkvæmda, þar sem slíkt hefði verið mjög óvarlegt með tilliti til „hins algera varnarleysis Íslendinga“. M. ö. o.: Hefði vitnazt um samninginn, áður en hann kom til framkvæmda, mátti búast við, að árásin yrði gerð á samri stund og verndin þannig afnumin fyrir fram. Svona tæpt hefði málið sem sé staðið við sólarupprás þann 7. maí 1951.

Það vildi svo til, að ég fór suður á Keflavíkurflugvöll strax eftir hádegi þennan fyrsta hernámsdag, enda lék mér forvitni á að sjá, hvernig farið væri að því að vernda fátæka smáþjóð á þessum alvarlegu tímum. Herliðinu hafði verið komið fyrir í svo nefndum Camp Geck. Þetta voru 250 — í hæsta lagi 300 manns. Flestir voru inni í hinum aldurhnignu bröggum herbúðanna að fá sér miðdegisblund; hinir dustuðu rúmfötin sín á móti íslenzkri vorgolunni. Þann 6. maí vofði yfir landinu ægileg hætta á vopnaðri árás. Þarna var þá það herlið, sem átti að hafa afstýrt hættunni þann 7. maí, — í hæsta lagi 300 syfjaðir menn.

Herlið Bandaríkjanna hér á landi var að vísu aukið, þegar frá leið, en þó hefur það aldrei — enn sem komið er — verið fjölmennt í þeim skilningi, sem tíðkast um hernað nú á tímum. Lengst af hefur það að líkindum verið um 3–4 þúsund manns, og svo mun það vera nú. Lið þetta hefur til afnota um 30 orrustuflugvélar af svo nefndri Mustanggerð. Sú gerð var tekin að úreldast þegar í seinasta stríði og þykir nú yfirleitt ekki henta nema til æfingaflugs. Þrýstiloftsflugvélar mun liðið engar hafa til fastra afnota; vélar af þeirri tegund, sem við höfum orðið varir við yfir höfuðstaðnum, og nú seinast í morgun, eru yfirleitt á ferð hér um til Evrópu. Fáeinir skriðdrekar munu vera þarna suður frá. Einhver hernaðarmannvirki mun liðið að líkindum hafa gert á vellinum, en þó áreiðanlega tiltölulega mjög lítil, enda munu mannvirki þar mest bundin við smíði notalegra íbúða fyrir hermennina.

Og nú vil ég spyrja: Getur nokkur trúað því, að sá, sem hagar sér eins og Bandaríkjaher gerir hér á landi, eigi von á vopnaðri árás á hverri stundu? Mundi ekki hitt sönnu nær, að sá, sem þannig hagar sér, þykist mega hafa alla hentisemi um undirbúning vopnaðra átaka í fullri vissu þess, að á hans valdi sé að ákveða, hvenær byrjað verði að skjóta? Þrjú til fjögur þúsund manns, sem hafast við á einu nesi, eiga að verja víðáttur Íslands fyrir yfirvofandi árás. Hvaða heilvita manni er annars, þegar þetta er athugað, ætlað að trúa þeirri fullyrðingu, sem borin hefur verið fram sem hin eina ástæða fyrir nauðsyn hernámsins, þessari margendurteknu fullyrðingu um, að yfirvofandi sé árás á landið?

Nei, 3.000–4.000 manns er ekki mikill her til þess að verja víðáttur Íslands, ef til styrjaldar kæmi. Hins vegar getur kveðið mikið að slíkum her á öðrum sviðum. Þegar þessari tölu ungra manna er hleypt á hina fámennu höfuðborg okkar fámennu þjóðar, fer vissulega að kveða meira að hernum. Þegar hann er búinn að festa tök á æsku okkar og leiða hana á siðferðislega og þjóðernislega glapstigu, þá fer heldur betur að muna um hann, enda má segja, að hermennirnir hafi verið þeim mun ötulli við að herja á menningu okkar og sjálfstæði. sem þeir hafa haft minna að gera við að verja land okkar.

Nú er mikið talað um þá meinsemd, sem hernámið er orðið þjóðlífi Íslendinga, og nauðsyn þess, að eitthvað sé gert til þess að sporna við henni. Og í krafti þessa viðhorfs er komin fram tillaga sú, sem hér er til umr. Allt er þetta góðra gjalda vert. Að vísu má vissulega ýmislegt að till, finna, en ég mun annars um það gera nánari grein fyrir afstöðu minni í sambandi við aðra till., sem ég flyt ásamt hv. 1. landsk. þm.

Að þessu sinni vildi ég sem sagt aðeins nota tækifærið til að vekja athygli á þeim kjarna málsins, sem fyrir er að vikið, að þetta mein verður ekki frekar en önnur læknað til fulls, nema menn geri sér grein fyrir orsökum þess og taki fyrir rætur þess. Það áhrifafólk hér innan Alþingis, sem nú er tekið að beita sér með alvöruþunga fyrir því, að mein þetta sé einangrað, en átti jafnframt sinn þátt í því að kalla það yfir okkur vorið 1951, verður að fara að sjá að sér hvað snertir grundvallarafstöðu til málsins. Ef allt væri með felldu, ætti maður að geta sagt, að það hljóti að fara að sjá að sér. Hafi það samþ. hernámið af raunverulegri trú á yfirvofandi árás, þá ætti það nú óðum að hafa fengið nægar sannanir fyrir því, að þetta var blekking. Bandaríkjaher hagar sér hér í engu tilliti eins og sá, sem er við því búinn, að á hann verði skotið þá og þegar. Þvert á móti hagar hann sér í öllu tilliti eins og sá, sem er þess fullviss, að hann ráði því sjálfur, hvenær byrjað verði að skjóta.

Nýjasta dæmið um þetta er hið margumtalaða leyfi, sem hermennirnir hafa fengið til að eyða frítímum sínum hér í Reykjavík og annars staðar óeinkennisbúnir. Hugsum okkur, að hér yrði skyndilega gerð árás, eins og alltaf er sagt að sé yfirvofandi, og Keflavíkurflugvöllur t. d. umkringdur, en Reykjavík hertekin af innrásarhernum í skjótri svipan. Allir þeir óeinkennisbúnu hermenn, sem hér væru þá staddir og þannig komnir að baki víglínunni, yrðu eftir algildri venju í stríði skoðaðir sem njósnarar og meðhöndlaðir samkvæmt því. Meðferð njósnara er sem kunnugt er hjá öllum þjóðum allt önnur en meðferð venjulegra stríðsfanga. Njósnarar eru umsvifalaust dregnir fyrir rétt og dæmdir sem slíkir. — En Bandaríkjamenn vita, að þeir þurfa ekkert slíkt að óttast hér, og því er hermönnunum veitt leyfi til þess, sem varla mun þekkjast annars staðar, að ganga óeinkennisbúnir. Það er líka miklu þægilegra að njóta á þann hátt lífsins, sem þeir sækjast eftir hér í Reykjavík, í borgaralegum fötum heldur en hermannaklæðum. Annars mun ég sem sagt ræða þetta atriði nánar í sambandi við till. mína og hv. 1. landsk. þm.

Ég sagði, að þess mundu ekki mörg dæmi annars staðar, að hermönnum leyfist að klæðast borgaralegum fötum. Hins vegar hefur það víða þekkzt, að yfirdrottnunarþjóð sendi borgara sína inn á meðal smáþjóða, sem hún vill undiroka, til að veikja þjóðerni þeirra og menningu; og þetta verður þá eitt meðal margs fleira, sem í dag setur svip nýlendunnar á Ísland, svip þeirrar bandarísku hernaðarnýlendu, sem það er að verða. Enda bendir margt til þess, að „kólonísasjónin“ taki bráðum að færast í aukana. Talað er um miklar vegaframkvæmdir, sem hefjast muni á næstunni, enn fremur mjög auknar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, og enn þá meiri vegaframkvæmdir með vorinu, og í sambandi við þetta auðvitað mjög mikil aukning hernámsliðsins. Svo er það höfnin í Þykkvabænum og flugvöllurinn austur þar, auk flugvalla víðs vegar um landið. Sá, sem þykist mega ráða, hvenær byrjað verður að skjóta, býr sig nú undir að skjóta.

Ég vildi sem sagt nota tækifærið til að vekja athygli á því, að hin eina raunverulega lækning þess meins, sem hér um ræðir, er að segja upp herverndarsamningnum svo nefnda og vísa hernum úr landi, enda virðist fyrir löngu orðin full ástæða til að ætla, að þeir, sem kunna að hafa verið blekktir til að samþ. hernámið, hafi nú gert sér blekkinguna ljósa. Og jafnframt ætti þeim þá að hafa orðið ljóst, að það, sem glataðist 7. maí 1951, verður ekki bætt með einni saman till. sem þessari.