05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

56. mál, endurskoða orlofslögin

Magnús Kjartansson:

Hv. 8. landsk. þm. (StJSt) kveinkaði sér mjög undan því hér áðan, að það mundi verða skýrt frá afstöðu hans og framkomu í þessu máli í Þjóðviljanum. Ég skil það ósköp vel, að hv. þm. kveinki sér undan því; hann hefur áður kveinkað sér undan því blaði, og hann mun eiga eftir að gera það áfram. Hann las upp aftur tilvitnanir þær, sem hann flutti úr ræðu Brynjólfs Bjarnasonar hér fyrir 10 árum. Þær voru, eins og ég sagði áðan í fyrri ræðu minni, slitnar úr samhengi. Það voru setningar, sem voru teknar hér og þar úr ræðunni, slitnar úr samhengi, og að slíta setningar þannig úr sínu eðlilega umhverfi er fölsun. Engu að síður heyrðu hv. þm. vel, við hvað hv. þm. Brynjólfur Bjarnason hafði átt, enda hafði formaður Dagsbrúnar skýrt frá því hér áður. Hann var að tala um samninga Dagsbrúnar vorið 1942, því að þá var reynt að hampa þessu sem þeirri einu hagsbót, sem verkamenn ættu að fá, og það væri nóg fyrir verkamenn að fá þessu framgengt. Það var þetta, sem Brynjólfur Bjarnason var að tala um, og það er alveg óþarfi að taka það sem nokkra túlkun á afstöðu hans til þessara mála í heild og rangt, algerlega rangt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara að lengja þessar umr. þær eiga frekar illa heima hér á Alþ., enda eru þær sprottnar af vanmetakennd Alþfl. Hv. 1. flm. þessa máls gat ekki haldið framsögu fyrir till. sinni án þess að krydda hana alls konar óhróðri og ákærum á Sósfl. að vanda. Hins vegar vitnaði hann mikið í það, að Brynjólfur Bjarnason hefði komizt þannig að orði, að framtak Alþfl. væri ákaflega lítilmótlegt og ákaflega lítilfjörlegt. Ég verð að segja það, að mér finnst þessi ummæli eiga næsta vel við um þau vinnubrögð Alþfl., sem fram koma nú á einu þinginu af öðru að flytja þáltill. á þáltill. ofan um að skipa n., skipa n. og skipa n., hvenær sem sósíalistar bera fram unnin frv. um, hvernig eigi að leysa þessi vandamál.