19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

79. mál, iðnaðarframleiðsla

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég efast ekki um, að hv. þm. Hafnf., sem hér talaði síðast, ber fölskvalausa og einlæga umhyggju fyrir iðnaðinum, en hitt er ljóst, að þessi till. er ekki fram komin vegna þess. Hún er fram komin í allt öðrum tilgangi. Hún er fram komin í pólitískum tilgangi, sem nokkurs konar kosningaundirbúningur af hendi Alþfl. Sá flokkur hefur undanfarið verið að reyna að nota sér iðnaðarmálin í pólitískum tilgangi og þrengja forsjá sinni upp á iðnaðarmenn og iðnrekendur. En fyrir þeim síðarnefndu hafa þeir ekki alltaf borið jafnnæma umhyggju og þeir virðast gera nú.

Það, sem fram kemur í þessari þáltill., er fyrst og fremst að fá því slegið föstu, að stefna ríkisstj. í viðskiptamálunum sé að koma iðnaðinum á kaldan klaka. Og þeir sjá nokkur ráð, þ. á m. innflutningshöft og aftur innflutningshöft, til þess að bjarga iðnaðinum. En það einkennilega er nú við þetta, að hér skýtur nokkuð skökku við og fellur lítt við skoðanir þeirra manna, sem í þessum iðnaði standa og bera af honum hita og þunga dagsins, því að á ársþingi iðnrekenda á síðasta ári var gerð ályktun, þar sem segir, að ársþing iðnrekenda 1951 lýsi ánægju sinni yfir vaxandi viðskiptafrelsi í landinu og fagni því, að stjórnarvöld landsins skuli vera í þann veginn að aflétta öllum innflutningshöftum og verðlagseftirliti. Úr því að hv. Alþfl.-menn hafa nú hugsað sér að gerast forgöngumenn iðnaðarins, þá hefðu þeir átt að vera svolítið betur í samræmi við óskir iðnrekenda, heldur en fram kemur í þeirra þáltill., sem hér er til umr.

Ég skal þá athuga lítils háttar nokkur atriði í sambandi við þær ásakanir á hendur ríkisstj., sem fram koma í þessari till. og grg. hennar. Skal ég þá fyrst snúa mér að atvinnuleysinu í iðnaðinum, sem hefur verið gert að miklu máli á hinum pólitíska vettvangi og þá ekki sízt í málgagni Alþfl., sem hefur haldið því fram nú í meira en ár, að ríkisstj. væri að leggja iðnaðinn í landinu í rúst með ráðstöfunum sínum og að atvinnuleysi færi svo hraðvaxandi, að helzt mætti skilja, að um enga atvinnu væri lengur að ræða í þessum atvinnugreinum.

1947–49 hafði Alþfl. forsæti í ríkisstj., en þá gerðust þau tíðindi, að svartur markaður komst á kreik, miklu víðtækari en nokkurn tíma hafði áður þekkzt hér. Þá gerðist m. a. það einstaka fyrirbrigði, að fjölda af saumastofum var komið á fót, svo að segja mátti, að þær spryttu eins og gorkúlur á haugi í þessu ástandi, sem þróaðist í stjórnartíð Alþfl. Jafnframt gerðist það, að húsmæður áttu svo að segja ómögulegt með að fá nokkra pjötlu sjálfar til að sauma úr. Frjáls innflutningur, sem hafinn var árið 1951, breytti þessu svo mjög, að saumastofurnar hurfu að miklu leyti úr sögunni, þær sem sprottið höfðu upp á þessu tímabili, en jafnframt var húsmæðrunum gefinn kostur á að geta keypt allt það efni, sem þær þurftu með og gátu unnið úr heima hjá sér. Ég bendi á þetta sérstaklega með tilliti til fullyrðingarinnar um atvinnuleysið, sem gerðist á árunum 1950 og 1951, því að þetta er nauðsynlegur þáttur að hafa í huga þegar það er athugað.

Það hefur verið gerð athugun nýlega um atvinnu í iðnaðinum á árunum 1949–1951. Eru það ábyggilegustu heimildir, sem fyrir hendi eru í þeim efnum. Það kemur í ljós, að vinnuvikur í iðnaðinum voru 115.243 1949. 1950 eru vinnuvikurnar taldar 109.223, eða um 5% færri en 1949, en það ár má telja að hafi verið hámark vinnu í iðnaðinum, ekki sízt vegna þess ástands, sem ríkti á árunum 1947–49. 1951 eru taldar 102.945 vikur, eða 12% lægri en 1949.

En svo gerist það, sem ég veit ekki, hvort þeir hv. „pólitísku forsvarsmenn“ iðnaðarins hafa gert sér grein fyrir, að á árinu 1952 hefur atvinna aukizt í flestum greinum iðnaðarins. Vil ég þar vísa til skýrslu, sem gerð hefur verið af félagi verksmiðjufólks, Iðju, um félagsbundna starfsmenn í iðnaði. Af 15 iðngreinum hafa 13 iðngreinar fleira fólk í vinnu í júní 1952 heldur en 31. des. 1951, og aukningin er 86 manns. Tvær iðngreinar hafa á sama tíma fækkað mönnum um samtals 5 menn.

Ég skal taka hér tvö dæmi úr sjálfum iðngreinunum og eitt dæmi, sem hv. frsm. gat um. — Það er dúka- og garnframleiðsla, aðallega dúkaframleiðsla, sem hefur verið haldið á lofti, að mjög hafi rýrnað síðan verzlunin var gefin frjáls: 1950 vinna í dúkaverksmiðju á Akureyri 149 manns og í dúkaverksmiðju við Reykjavík 71. En 1952 vinna í sömu verksmiðjum: á Akureyri 130 manns, en í verksmiðjunni við Reykjavík 22. Mönnum verður nú spurn: Hvernig stendur á því, að dúkaverksmiðjan á Akureyri heldur hér um bil alveg starfsmannafjölda sínum í þessum þrengingum, sem yfir hafa gengið, en dúkaverksmiðjan við Reykjavík segir upp nálega 3/4 af starfsmönnum sínum? Hér hlýtur að liggja eitthvað annað til grundvallar, en viðskiptastefna ríkisstj.

Ég skal einnig minnast á aðra iðngrein, það er skógerð. 1950 unnu í einni skógerð á Akureyri 55 manns, í 4 skógerðum í Reykjavik 120 manns. 1952 vinna á Akureyri í skógerð í sömu verksmiðju 57 manns, en í nefndum 4 verksmiðjum í Reykjavík vinna 42. Hvernig stendur nú á þessu? Getur það verið, að viðskiptastefna ríkisstj. hafi einungis komið við þær verksmiðjur, sem starfa í Reykjavík, en hafi alls ekki snert þá verksmiðju, sem vinnur á Akureyri og hefur bætt við sig 2 mönnum í starfsemina? Nei, það er allt annað, sem hér liggur til grundvallar, og ef hv. flm. þessarar till. vildu athuga það, þá mundu þeir komast fljótt að þeirri niðurstöðu, að ekki er verzlunarstefnu ríkisstj. um að kenna, að verksmiðjuvinna við skógerð í Reykjavík hefur dregizt eins saman og raun ber vitni.

Ég skal láta þetta nægja að því er snertir atvinnuleysið í iðnaðinum. Það er alveg rétt, að orðið hefur nokkur samdráttur á árunum 1949, 1950 og 1951, en frá árinu 1949 til ársloka 1951 hefur hann orðið um 12%. En ef þetta er athugað nánar ofan í kjölinn, kemur í ljós, að rýrnunin stafar að miklu leyti frá því, að viss fataiðnaður dettur úr sögunni, og á ég þar við m. a. og ekki sízt þær saumastofur, sem hér spruttu upp, þegar svarti markaðurinn var í almætti sínu. Hins vegar má benda á, að fatagerð, svo sem vinnufatagerð, hefur aukið við sig starfsfólki í stórum stíl, og svo er um margar fleiri iðngreinar, þær hafa aukið við sig fólki á þessu tímabili.

Ég skal þá koma að öðru atriði, en það er mjög veigamikið í málaflutningi þeirra manna, sem eru að reyna að kenna ríkisstj. um alla erfiðleika iðnaðarins. Það eru áhrif frílistans á iðnaðinn í landinu.

Þeir, sem þekkja lítið til þessara mála, gætu haldið af því, sem sagt er um þessi mál í vissum málgögnum, að frílistinn væri að leggja iðnaðinn í landinu í rúst. Þetta er mjög langt frá veruleikanum. Því til sönnunar skal ég lofa hv. þm. að heyra, hvað það er af innlendum iðnaði, sem lendir í samkeppni við frílistann. Þær vörur, sem eru á frílistanum og framleiddar eru hér innanlands, eru þessar: málningarvörur, vinnuvettlingar, veiðarfæri nærfatnaður úr ull og bómull, sokkar og leistar, lífstykki, ullargarn og bækur og blöð.

Þetta er nú 511 samkeppnin frá frílistanum á íslenzkan iðnað. Og ef menn athuga þetta með nokkurri alvöru, þá hygg ég, að þeir komist að raun um það, að hér er ekki verið að reiða öxina að rótum trésins. Ég geri ráð fyrir því, að það komi mörgum á óvart, hversu lítið frílistinn gengur inn á svið innlendrar framleiðslu. Ég skal taka þessa liði til athugunar, og mun þá koma nokkuð í ljós, hvers vegna þessir liðir hafa verið settir á frílistann.

Ég skal þá taka málningarvörurnar. Þær eru framleiddar hér, og mætti segja, að komast mætti hjá því að flytja inn erlenda málningu. En fyrst og fremst er því til að svara, að eftir því sem ég veit bezt, standa innlendu verksmiðjurnar mjög vel að vígi í framleiðslu sinni. Í öðru lagi er þessi framleiðsla öll á einni hendi, og ég verð að segja það, að undir slíkum kringumstæðum tel ég ekki að samkeppni utan að sé með öllu óæskileg.

Vinnuvettlingar eru framleiddir hér. Þessa vöru nota verkamenn og sjómenn í stórum stíl, og það er stór útgjaldaliður hjá þeim. Það hefur alltaf verið viðurkennt, eftir því sem ég veit bezt, frá því að höftin voru sett á, að þessa vöru þyrfti að útvega sem ódýrast, hvort sem hún væri flutt inn eða búin til í landinu.

Sama er að segja um veiðarfærin. Síðan höftin voru sett á 1930, hefur raunverulega verið frjáls innflutningur á veiðarfærum. Hér hefur vaxið upp myndarleg veiðarfæraframleiðsla, sem að mörgu leyti stendur fyllilega á sporði erlendri framleiðslu. Mér vitanlega hefur henni aldrei verið gefin vernd með banni á innflutningi, og ég fyrir mitt leyti tel ekki að eigi að gefa henni slíka vernd, sökum þess að útvegurinn verður að fá að kaupa veiðarfæri sín og aðrar nauðsynjar við lægsta verði, hvort sem um innlenda eða erlenda framleiðslu er að ræða, enda byggist útflutningur landsins á því, að við getum framleitt afurðirnar fyrir sem lægst verð.

Um nærfatnað úr bómull og ull er það að segja, að þeir, sem þessa vöru framleiða, hafa nokkra ástæðu til umkvörtunar, sökum þess að voðin er á bátalistanum, en tilbúna varan erlenda er á frílistanum. En þetta er eitt af þeim atriðum, sem sjálfsagt er að leiðrétta strax og tækifæri er til.

Um sokka, lífstykki og ullargarn get ég verið fáorður. Um það má deila, hvort á að takmarka innflutning á slíkum vörum, þó að eitt fyrirtæki vinni að því í hverri grein, en hitt er þá líka ljóst, að þetta skiptir iðnaðinn í landinu í heild litlu máli.

Um bækur og blöð er það að segja, að af þeim er mikil framleiðsla hér innanlands, og innflutningur erlendra bóka og erlendra blaða keppir mjög við bókaframleiðslu hér innanlands; því er ekki að neita. En sú skoðun er yfirleitt ríkjandi hér á landi og annars staðar, að engar hömlur eigi að leggja á innflutning bóka og blaða og á þann hátt hefta menningarsamband og skoðanafrelsi meðal þjóðanna.

Þetta er þá það, sem snýr að iðnaðinum í sambandi við frílistann, og ég hygg, að menn, sem vilja vera sanngjarnir í dómum sínum, verði að viðurkenna, að áhrif hans á iðnaðinn eru miklu minni en almenningi hefur yfirleitt verið talin trú um, og er fjarstæða ein að halda því fram, að frílistinn sé að leggja iðnaðarframleiðsluna í rúst.

Ég skal þá koma að því með nokkrum orðum, hver áhrif bátalistans eru á iðnaðinn. Það hefur oft verið kvartað undan því, að bátalistinn gerði iðnaðinum mjög erfitt fyrir. Samkeppni bátalistans gagnvart innlenda iðnaðinum kemur ekki svo mjög fram í því, að erlenda varan sé ódýrari, enda leggst á hana sérstakt bátagjald, eins og kunnugt er, heldur liggur samkeppnin venjulega í því, að kaupendurnir taka erlendu vöruna fram yfir þá innlendu, oft vegna þess, að gæðin eru meiri eða þeir halda, að gæðin séu meiri. Ef hins vegar eitthvað af hinum innlendu vörum getur ekki keppt í verði við þá erlendu þrátt fyrir bátaálagið, 61% eða 26% þá virðist ekki vera grundvöllur fyrir því að vernda svo dýra framleiðslu eins og sú framleiðsla þá væri, með innflutningshöftum. En ef erfiðleikar þeirra, sem keppa við erlendu vöruna, eru fólgnir aðallega í útliti vörunnar eða gæðum, þá ætti að vera innan handar fyrir innlenda framleiðslu að bæta úr því og mæta á þann hátt þeirri samkeppni.

Af því að ég minntist áðan á skógerðina, þá vil ég með nokkrum orðum koma að henni aftur. Þessi iðngrein hér í Reykjavík hefur átt í talsvert miklum erfiðleikum, og hefur innflutningi erlends skófatnaðar verið um kennt. Innflutningur erlends skófatnaðar er ekki frjáls. Hann er bundinn leyfum, en skófatnaður frá Spáni hefur verið leyfður svo að segja óhindrað. En þess er þá að gæta, að spánski skófatnaðurinn er talinn miklu dýrari en skófatnaður, sem hægt er að kaupa í þeim löndum, sem taka sterlingspund í greiðslu. Margir vilja halda því fram, að spánskir skór séu í allt að 50% hærra verði en svipaðir skór, sem hægt er að kaupa í Bretlandi. Verður því varla sagt, að innflutningur erlends skófatnaðar keppi við innlenda framleiðslu að því er verðið snertir, nema því aðeins að sú innlenda sé rekin með óhæfilega miklum kostnaði, sem geri verð hennar allt of hátt til neytendanna. Samkvæmt upplýsingum, sem mér hafa borizt, er samanburður á verði á íslenzkum og spánskum skófatnaði þannig, að innflutt efni og vinnulaun aðeins kosta hér 140 kr. fyrir parið af skóm á móti innkaupsverði á spönskum skóm 112 kr. af fob.-verði, en tollur af þeim er 70 kr. af innkaupsverðinu, sem ekki leggst á innlendu skóna.

Þá kem ég að síðasta liðnum, sem máli skiptir, og það er sú staðhæfing, að iðnaðurinn eigi í vök að verjast, vegna þess að mest af hráefnum hans sé bundið og þurfi að sækja um innflutningsleyfi, sem mönnum gangi erfiðlega að fá. Það er ákaflega auðvelt að setja fram slíkar staðhæfingar, og það er afar erfitt fyrir þá, sem hlusta á eða lesa slíkar staðhæfingar, að sannprófa, hvort þær eru réttar eða rangar. En ég fullyrði, að þessar staðhæfingar eru rangar. Ég hef látið gera skýrslu um þau hráefni, sem notuð eru í 31 iðngrein, og þar verður allt annað uppi á teningnum, en fullyrt hefur verið. Þessa skýrslu lét ég gera til þess, að hægt væri að gera sér glögga grein fyrir því, hvað þyrfti að taka af vörum á frílistann af þeim vörum, sem nú eru á bundnum lista og iðnaðurinn notar til framleiðslu sinnar. Mér til mikillar ánægju komst ég að raun um það, að þær vörutegundir voru harla fáar, rúmar 20 vörutegundir. Skal ég gera hér nokkra grein fyrir einstökum iðngreinum, svo að menn geti glöggvað sig á þeim. Ég vil vekja athygli á því, að B-listinn er „frílisti“ eins og frílistinn, þó að hann sé hafður undir öðru formi. Allar þær vörur, sem á þeim lista eru, er mönnum frjálst að flytja inn.

Smjörlíkisgerð, svo að segja öll hráefni í þann iðnað eru frjáls. Sömuleiðis ullarþvottur, kembing, spuni og vefnaður. Prjónaiðnaður, allt frjálst. Nærfata- og millifatagerð, að öllu leyti frjálst á frílista og B-lista. Sútun skinna, svo að segja allt frjálst og sömuleiðis fyrir leðuriðnað. Þar er á bundnum lista unnið skinn í veski. Að öðru leyti þarf ekki sá iðnaður að sækja um nein leyfi. Málningar- og lakkiðnaður er allur á frílista. Hér er að vísu um að ræða mjög margar efnategundir, en þar er allt frjálst nema dextrín. Klæðskera- og saumakonustörf, þar er svo að segja allt annaðhvort á frílista eða B-lista, nema vatt, loðskinn og umbúðir. Trésmíði og húsgagnagerð, svo að segja allt, nema viður, viðarull, húsgagnatróð og slípað gler. Málmiðnaður, rafmagnstækjagerð og viðgerðir eru að mestu leyti á frílista. Timbur og byggingarvörur eru yfirleitt ekki á frílista. Efni til skipasmíða og skipaviðgerða, frjálst að öðru leyti en eik, fura, birki, masonit, asbest, krossviður, skrúfur og fittings. Hampiðja, netjagerð og viðgerðir, allt frjálst, nema netjakorkur, sem hefur verið hafður á bundnum lista vegna viðskiptanna við Spán. Skógerð, svo að segja allt frjálst, nema korkur, filt, flóki og öskjur. Vinnufatagerð, allt frjálst. Sjóklæðagerð, allt frjálst, nema gúmmíborinn dúkur og límbönd. Nærfata- og millifatagerð, allt frjálst annaðhvort á frílista eða B-lista.

Þessar athuganir, sem að vísu geta haft í sér einhverjar villur fólgnar, því að það er vandaverk að taka þetta saman, sýna, að það þarf lítið að gera til þess, að allar þarfir iðnaðarins séu komnar á frílista, svo að sú ásökun, að innflutningur iðnaðarins sé torveldaður, fellur algerlega um sjálfa sig og hefur ekki við rök að styðjast.

Ég vænti, að þetta, sem ég hef sagt hér nú, gefi dálitla bendingu um það, að þessar ásakanir, sem fram koma í þessari þáltill., hafi ekki við mikil rök að styðjast, og sýni þá það, að þáltill. er með öllu óþörf, vegna þess að mikið af því, sem hv. flm. fullyrða að þurfi að kippa í lag, er ekkert við að athuga, vegna þess að það er í lagi.

Hv. frsm. ræddi nokkuð um fyrirframgreiðslur bankanna. Það er alveg rétt, að iðnaðurinn verður að borga inn á sína „rembursa“ og sín greiðsluloforð eins og aðrir innflytjendur, og þetta kemur hart niður á innflytjendum yfirleitt. En þetta er mál, sem bankarnir hafa í sínum höndum, og ríkisstj. getur ekki skipað bönkunum, að þeir skuli taka fyrirframgreiðslu af einum, en ekki öðrum. Þetta yrði að vera samkomulag við bankana, en það hefur gengið mjög erfiðlega til þessa að fá þessu breytt, þó að um það hafi verið rætt.

Um endurskoðun tollskrárinnar er það að segja, að ég geri ráð fyrir því, að það sé full nauðsyn að endurskoða hana með tilliti til iðnaðarins. En það er þá ekki heldur vandalaust að gera það, svo að það komi að fullu gagni, því að iðnaðurinn hér notar mikið af efnum, sem eru almenns eðlis og ákaflega erfitt er að breyta í tollskrá. Hins vegar mætti hugsa sér, og það er nú til athugunar, að tollur yrði endurgreiddur iðnfyrirtækjunum í einu formi eða öðru af þeim iðnaðarhráefnum, sem talið væri sanngjarnt að undanþiggja tolli.