26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

92. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Flm., (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þessa tillögu um að fela Þingvallanefnd að láta hætta allri bílaumferð um veginn eftir Almannagjá og leggja nýjan bílveg, er ekki liggi gegnum gjána, vegna þess að mér finnst það óviðeigandi, hvaða áhrif bílaumferðin um Almannagjá hefur.

Raunverulega er nú þannig komið, að Almannagjá er orðin eins og umferðarbraut. Það, sem var meiningin með því að friðlýsa Þingvelli, okkar helzta sögustað, nær ekki tilgangi sínum, ef vegurinn fyrir bíla er látinn liggja áfram gegnum gjána. Búðarústirnar, sem þarna eru, Lögberg, sem þarna er rétt hjá, allir þessir staðir, sem fólk gjarnan vill skoða og dvelja við, verða í miðri stórkostlegri umferð. Fólk, sem vill vera þarna í gjánni, setjast niður við þessar búðarústir, dvelja yfirleitt í friði á þessum sögustað, hefur engan frið og enga ró. Þarna þeysa bílarnir um, þarna þyrlast rykið upp, þarna dunar næstum Almannagjá undir, liggur við, að veggirnir hristist, þegar stærstu bílarnir fara þarna um.

Þegar vegur var upprunalega lagður þarna, var það fyrir hesta og gangandi menn. Menn bjuggust þá ekki við þessum miklu, þungu tækjum, sem við nútímamenn notum svo mikið. Það var raunverulega kyrrt í Almannagjá, þó að menn gengju þar eða þótt þeir færu þar um ríðandi. En þegar þessir stóru bílar, sem nú tíðkast og alltaf verða stærri og fyrirferðarmeiri og þyngri, þjóta þarna áfram, þá verður ekki neitt, sem heitir friður, til í Almannagjá. Og tilgangurinn með l. um friðlýsingu Þingvalla var að skapa frið þar eins og annars staðar.

Mér finnst, að Almannagjá eigi að fá að vera friðaður reitur, þar sem menn fara um fótgangandi, ef menn vilja fara þar um, þar sem menn geti verið í næði við að skoða það litla, sem við eigum yfirleitt af gömlum rústum, og verið í næði að njóta þeirra minninga, sem menn eiga, og njóta þeirrar náttúrufegurðar, sem þar blasir við. Ég held, að við ættum að lofa Almannagjá að vera í friði fyrir okkar nýtízku tækni, lofa blómunum og grösunum að vaxa þar, eins og náttúran gerir þau úr garði, ekki fara að planta þar neinu nýju þar með, heldur láta þetta halda sér sem allra mest eins og það hefur verið lengst af.

Ég trúi ekki öðru en það hljóti að vera hægt að leggja veginn niður að Valhöll og þaðan áfram um Þingvelli, þannig að hægt sé að komast hjá að láta hann liggja um Almannagjá. Það liggja nú vegir þegar frá Kárastöðum niður að vatninu, og það ætti að mega nota einhvern af þeim vegum og tengja úr þeim vegasamband til Valhallar. Ég skil að vísu vel, að þeir, sem eiga sumarbústaði á þessum svæðum, mundu ógjarnan vilja fá þessa miklu bílaumferð þar, og það ætti að vera hægt að sneiða hjá því að valda þeim mönnum, sem þar búa og líka eru að sækjast eftir að fá að vera í friði, ófriði. Ég trúi ekki öðru en það hljóti að vera hægt að finna þarna vegarstæði, sem frelsaði Almannagjá frá okkar nýtízku tækni og óróaði samt sem allra minnst þá menn, sem þarna eiga litla bústaði. Ég treysti því, að Þingvallanefnd mundi finna heppilegasta lausn í þessu máli, ef hún aðeins sjálf sannfærðist um vilja Alþingis í því og er honum sammála og fær til þess það fé, sem til þess þyrfti. Og það mundi hún fá með samþykkt þessarar tillögu.

Ég skal að vísu viðurkenna, að það gæti auðvitað komið fyrir, að það þyrfti að vera hægt að veita undanþágu undan svona banni, undan banni við bílaumferð um gjána. Við skulum segja til dæmis, ef farlama fólk er þarna á ferð og langar til þess að sjá Almannagjána, þá væri, jafnvel þó að öll bílaumferð væri bönnuð niður í gjána, þar sem nú er keyrt niður í hana, hægt með sérstöku leyfi að leyfa mönnum að keyra yfir brúna inn í gjána þeim megin, til þess að þeir, sem annars gætu ekki borið sig um, gætu komið þarna og notið þess að koma á þessa staði.

Ég trúi ekki öðru en það yrði gott samkomulag um að finna heppilegasta lausn í þessu máli og við séum allir sammála um, að rétt sé að taka af bílaumferðina um veginn eftir Almannagjá. Og ég vil leyfa mér að leggja til að lokinni þessari umr., að þessi till. fari til fjvn., og ég treysti henni fyllilega til að gera hana þannig úr garði og afgreiða hana þannig, að það, sem fyrir mér vakir með flutningi hennar, megi nást.