12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

92. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Flm. þessarar till. hefur nú lýst ástæðum fyrir því, að hún er flutt, og er ég síður en svo mótfallinn hans röksemdum fyrir nauðsyn þess, að vegurinn um Almannagjá verði lagður niður sem bílavegur. Ég held meira að segja, að mönnum sé almennt ekki ljós sú mikla hætta, þó að maður sleppi nú öllu, sem snertir friðhelgi staðarins, — sú mikla slysahætta, sem getur af því stafað að halda áfram bílaumferð um Almannagjá, eftir að þau sérstaklega þungu akfæri eru komin í notkun, sem nú tíðkast. Þegar litið er á bergið í gjánni, þá er sýnilegt, að þetta er ákaflega laust, og raun ber því vitni, að úr þessu bergi falla iðulega niður björg, og þegar þungir bílar fara þarna um, þá dunar jörðin undir, og ekki ólíklegt, að einmitt sú mikla umferð, sem er þarna af þungum ökufærum, geti orðið þess valdandi, að það komi einhvern tíma hrun úr bjarginu, jafnvel á ökufærin, þegar þau fara þarna um. Ég vildi þess vegna, af því að þessi till. fer sýnilega í n., sem ég á ekki sæti í, leggja með því, að þessu atriði væri gaumur gefinn.