26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2676)

104. mál, bifreiðar ríkisins

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera langorður um tilgang þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Það er alkunna, að ýmislegt fer miður í opinberum rekstri, og gætir þar sums staðar helzt til lítils hófs í meðferð almannafjár. Sjálfsagt er það víða erfiðleikum háð að koma í veg fyrir slíkt, þó að eflaust sé þar minna að gert, en ástæða væri til. En á einu sviði, þ. e. hvað snertir misnotkun þeirra bifreiða, sem reknar eru fyrir almannafé, má þó fara hæga leið til úrbóta, og á þá leið er einmitt bent í þessari till.: þessar bifreiðar verði merktar sérstaklega.

Eins og segir í grg. með till., tíðkast þessi háttur víða um lönd, og virðist sjálfsagt, að þeir, sem falin yrði framkvæmd málsins, leituðu um það upplýsinga þaðan, sem þegar er fengin reynslan í þessum efnum, t. d. í Svíþjóð. Ættu slíkar upplýsingar að vera auðfengnar með einföldum bréfaviðskiptum.

Eins og einnig er um rætt í grg., mun þetta fyrirkomulag hafa þau áhrif, að almenningur fer að fylgjast með því, hvar þær bifreiðar, sem reknar eru fyrir það fé, sem hann greiðir í ríkissjóð, fara um, og getur gefið því gætur, hvort þær eru notaðar til annars, en nauðsyn viðkomandi embættis krefur. Sjáist t. d. slík bifreið á ferð úti um land með fjölskyldu þess manns, sem yfir henni ræður, eða eitthvert annað auðsæilegt skemmtiferðafólk, þá mega allir vita, að þar er um misnotkun að ræða. En þetta veitir aftur mönnum þeim, sem yfir þessum bifreiðum ráða, það aðhald, sem að mestu mun fyrirbyggja, að þeir misnoti þær.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta frekar að sinni, en legg til, að till. verði að lokinni þessari fyrri umr. vísað til síðari umr. og allshn.