13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

49. mál, laun forseta Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og skýrt hefur verið, staðfesting á brbl., sem út voru gefin í marzmánuði s.l.

Ég hef orðið mjög var við þann misskilning meðal almennings og jafnvel hjá sumum hv. þm., að þetta frv. þýði hækkun á launum forseta Íslands, en þetta er þvert á móti, og því þykir mér ástæða til að segja nokkur orð.

Þetta er þannig, að þessi brbl. þýddu það að lækka grunnlaun forseta Íslands úr 150 þúsundum niður í 85 þúsund, m.ö.o. að lækka þau um 65 þúsund. Ég hygg, að þetta sé eina dæmið í mörg ár um það, að nokkur laun hafi verið lækkuð, og þess vegna finnst mér óþarfi að láta þann skilning vera ríkjandi meðal almennings. að þetta þýði hækkun, því að það hefur verið sagt þannig frá þessu eins og það væri hækkun úr 50 þús. kr. grunnlaunum upp í 85 þúsund. Þetta vildi ég aðeins taka fram, til þess að ekki væri neinn misskilningur um það, hvað í þessum lögum felst.