10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (2691)

129. mál, endurskoðun á frílistum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 184 till. til þál. um endurskoðun á núgildandi frílistum. Það, sem hér er farið fram á, er tiltölulega auðvelt framkvæmdaratriði, sem ætti þó, ef vel fer um framkvæmdina, að geta haft mikla þýðingu fyrir innlendan iðnað.

Iðnaður okkar, einkum sá, þar sem unnið er að mestu úr erlendum efnum, er mjög ungur og hefur átt við mikla byrjunarörðugleika að stríða. Að vísu óx hér ýmiss konar iðnaður í skjóli haftanna á sínum tíma, en hann var mjög misjafn að gæðum, og olli því stundum kunnáttuleysi, stundum vöntun á heppilegu efni og stundum skortur á vandvirkni. Þegar innflutningurinn var gefinn frjáls að nokkru leyti, komu á innlenda markaðinn alls konar erlendar iðnaðarvörur, sem kepptu við íslenzka framleiðslu, og hefur sú samkeppni orðið íslenzka iðnaðinum þung í skauti. Í mörgum tilfellum er innhald framleiðsla jafngóð hinni erlendu og ódýrari, þegar t. d. er um vörur að ræða, sem fluttar eru inn fyrir bátagjaldeyri. En það verður ekki annað séð, þótt hvor tveggja varan sé á boðstólum, en að hin erlenda seljist langtum betur þrátt fyrir verðmismuninn, og virðist svo sem verzlanir jafnvel vilji heldur selja útlendu vöruna, en þá innlendu, og mun því valda það, að þær telja sig hafa af því meira hagræði vegna verðmismunarins. Og þótt margur skilji það, að okkur er það mikið fjárhags- og atvinnumál, að íslenzk framleiðsla seljist fremur en erlend, þá fer því fjarri, að íslenzkir kaupendur geri sér það að kappsmáli að kaupa fremur þann varning, sem unninn er af íslenzkum höndum, heldur en hinn, sem útlendingar hafa haft atvinnu af að búa til. Meðan hér voru verzlunarhöft, þá er það mála sannast, að erfitt var fyrir heimilin að fá efni til þess að vinna úr, m. a. af því, að starfsemi, sem að nokkru leyti var iðnaður og að nokkru leyti getur tæpast kallazt iðnaður, sogaði til sín það efni, sem heimilin áttu að fá. Nú er úr þessu bætt, og heimilin hafa möguleika til þess að fá efni til þess að vinna úr. Ber að sjálfsögðu að gæta þess í framtíðinni eins og nú er, að svo verði. En það verður ætíð að vera kappsmál öllum Íslendingum, heimilunum líka, að hinn innlendi iðnaður fái sinn rétt.

Í till. þessari er lagt til, að núgildandi frílistar verði endurskoðaðir og að við þá endurskoðun sé tekið tillit til þarfa iðnaðarins. Er bráðnauðsynlegt, að endurskoðun þessi fari fram, bæði til leiðréttingar á því misræmi, sem kann að hafa verið á frílistunum frá byrjun, og til samræmis við þá þróun iðnaðarins, sem síðan hefur orðið. Þarf við athugun þessa máls að stefna að því, að innflutningurinn sé, bæði hvað snertir fullunnar vörur og hráefni til iðnaðar, miðaður við þarfir iðnaðarins eins og hann er í dag.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að till. þessari verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.