13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

49. mál, laun forseta Íslands

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég get að öllu leyti staðfest það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði um þetta atriði, en vildi aðeins benda á það um leið, að það er a.m.k. óþarft að álita, að hv. alþm. þyrftu að líta á málið öðruvísi, en hann skýrði það, því að ég gerði mjög glögga grein fyrir því hér við 1. umr. málsins, hvernig þetta mál hefði verið til komið í upphafi og hér væri um lækkun að ræða frá þeim lagaákvæðum, sem í gildi hefðu verið. En hins vegar er rétt að geta þess um leið, að forsetinn, herra Sveinn Björnsson, fékk ekki laun eftir þessu, miðað við 150 þús. kr. grunnlaun, nema örfáa síðustu mánuðina. Laun hans voru alltaf reiknuð eftir allt öðrum skala og miklu lægri. En ég vil aðeins endurtaka það, sem ég tók fram hér við 1. umr. málsins, að þessi breyting á launakjörum forsetans var ákveðin í samráði við hann, áður en hann andaðist. Og af þeim ástæðum, sem frsm. þeirrar n., sem hafði þetta með höndum, lýsti hér við 2. umr. málsins, þá varð að gera þetta með brbl., af því að ekki er hægt að breyta launum á kjörtímabili forsetans.

Ég vildi aðeins rifja þetta upp, þó að það sé allt rétt, sem hv. þm. A-Húnv. sagði um þetta mál.