03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2700)

137. mál, nýting vatns frá hitaveitum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 194 till. til þál. um rannsókn á nýtingu vatns frá hitaveitum í kaupstöðum.

Þetta mál er eiginlega tvíþætt, þótt till. sé ekki margorð. Hún er annars vegar um það, að hve miklu leyti megi spara erlendan gjaldeyri með því að nýta hið heita vatn, og hins vegar er hún um það að finna ráð til þess að framleiða verðmæti með aukinni nýtingu heita vatnsins.

Af þessum tveim atriðum er náttúrlega sparnaður hins erlenda gjaldeyris nærtækari, og maður tekur meira eftir möguleikum, sem eru fyrir hendi á því sviði, heldur en þar sem mundi vera um nýjungar að ræða, þar sem væri um framleiðslu nýrra verðmæta að ræða með aukinni nýtingu vatnsins.

Að því er varðar sparnað á erlendum gjaldeyri með aukinni nýtingu heita vatnsins, þá er það mál alveg sérstaklega augljóst hér í Reykjavík. Og með því að ég þekki það bezt, þá þykir mér þægilegt að hafa viðmiðun við það.

Hér háttar svo til, að hitaveitan var lögð fyrir mörgum árum og þá að mesta leyti í þau hverfi, sem þá voru byggð. Ofur lítið hefur hún fært út kvíarnar síðan, en það hefur ekki verið mikið. Síðan hafa risið upp ný hverfi í bænum, stór hverfi með rúmgóðum íbúðum og hitafrekum. Öll þessi nýbyggðu hús og nýju hverfin öll nota eingöngu erlent eldsneyti, kol og olíu, til upphitunar. Þetta eldsneyti er keypt fyrir erlendan gjaldeyri, og það er sannarlega ekki svo, að kol og olía fáist í vöruskiptum, heldur verður að nota til þess hinn torfengnasta gjaldeyri að kaupa þessar vörur, þ. e. sterlingspund og dollara.

Nú er það þannig, að náttúrlega er það mikið áhugamál öllum þeim, sem búa þannig, er þeir sjá heita vatnið gufa upp úr jörðinni eða renna fram hjá sér án þess að fá að hafa þess not, að þeim sé gert kleift að nota þetta vatn að einhverju meira eða minna leyti. En það mál er nú náttúrlega ekki beinlínis það, sem gæti legið fyrir Alþ. að ráða fram úr; það er frekar bæjarins. En þrátt fyrir það má náttúrlega á það minnast, hverja þýðingu þetta hefur almennt fyrir fólk, sem býr þannig, að það verður að kynda með hinu rándýra eldsneyti, á meðan heita vatnið flýtur fram hjá. Af þessum sökum er það, að það hafa verið uppi um það margar raddir og miklar í hinum nýrri hverfum Reykjavíkur að fá einhver not, þótt takmörkuð væru, af heita vatninu, þótt ekki væri nema svo kallað kranavatn eða sumarhitun. En út af þessum umr. hefur komið í ljós og hefur verið reiknað út af fagmönnum, ekki einasta fagmönnum innan þeirra áhugamannahópa, sem að þessu hafa starfað, heldur einnig fagmönnum, sem bærinn hefur haft á sínum vegum, að það muni vera svo langt frá því, að heita vatnið hér í þessum bæ sé gernýtt, að það sé mikil sóun. En til þess að gernýta heita vatnið þarf miklar athuganir og algerlega nýtt skipulag. Það þarf í fyrsta lagi að finna út möguleika til þess að hindra þá uppgufun eða þá eyðingu, sem verður á hitamagninu við rennslið í lögnunum og kvað vera um 20%. Það þarf einnig að finna möguleika til þess að nota vatnið aftur, láta það fara meira en eina hringferð. Og ef heita vatnið, sem rennur hér til sjávar í Reykjavík, ætti að notast bænum að fullu, þá mundi jafnframt þurfa einhverjar toppstöðvar til þess að nota þá fáu frostdaga, sem við höfum hér í Reykjavík að jafnaði og taldir eru vera um 50. Þeir öruggustu útreikningar, sem fyrir hendi liggja, sýn, að það mundi vera hægt með því heita vatni, sem við höfum hér yfir að ráða, að kynda upp um 60 þús. manna bæ með því að hafa toppstöðvar fyrir allra köldustu dagana. Þetta þýðir í gjaldeyri hvorki meira né minna en um 20 millj. kr. á ári hverju. Þetta er því ekki neitt smáræðis sparnaðarmál, hvernig með þetta mál er farið, og ég vil segja það, að þegar um það er að ræða að spara gjaldeyri, hvort heldur það er á þessu sviði eða öðru, hvenær sem við getum fundið möguleika til þess að búa að því, sem við eigum sjálf, í staðinn fyrir að kaupa það inn, þá er það sama sem unninn gjaldeyrir. Og hversu mikið hefur það ekki að þýða fyrir okkur, sem ár eftir ár búum við aflaleysi og erfiða framleiðslumöguleika, ef við þurfum að afla að sama skapi minna af gjaldeyri fyrir það, að við höfum fundið möguleika til þess að hagnýta eitthvað af því, sem við eigum sjálf? Af þessum sökum er þetta stórkostlegt fjárhagsmál, sem snertir þjóðina alla, þrátt fyrir það að það virðist vera í fljótu bragði Reykjavík næst.

Þá er hin hliðin á málinu um notkun heita vatnsins til framleiðslu ýmissa verðmæta. Það er í raun og veru lítt hugsað mál, en það er látið fylgja hér með í þessari till. vegna þess, að það er alveg vafalaust, að hægt er að nota heitt vatn, sem þegar er búið að virkja, til hinna ótrúlegustu hluta, sem bæði mundu horfa til hagsælda og til betri líðanar fyrir þá, sem það gætu.

Ég hef svo ekki þessi orð fleiri. Ég leyfi mér að leggja til, að till. þessari verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn.