17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (2712)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Við hv. þm. V-Húnv. vil ég segja það, að okkur fim. var vitanleg;a alveg kunnugt um lög um ættaróðal og erfða ábúð og fluttum till. eigi að síður. Ábúendur þjóð- og kirkjujarða eiga samkvæmt núgildandi lögum rétt á því að fá jarðir sínar keyptar gegn því að gera jörðina að ættaróðali, en það hefur komið í ljós, að það er ýmsum vandkvæðum bundið undir mörgum kringumstæðum að gera þetta. Ég ætla samt sem áður ekki að gera lítið úr þeim lögum, ég tel þau ágæt á margan hátt, og ég tel ágætt að notfæra sér þessi lög fyrir þá, sem hafa þannig aðstöðu og þannig kringumstæður. En það hefur komið í ljós, að þetta þykir dálítið þunglamalegt og erfitt í vöfum, og þess vegna eru enn í dag tiltölulega fáar jarðir undir þessum lögum, enda þótt þau séu nú orðin 6 ára gömul. Ég held, að þó að þessu væri nú breytt þannig, að þjóð- og kirkjujarðir væru seldar ábúendunum án þess að fara undir lög um ættaróðal og erfðaábúð, þá væri hægt að tryggja það, að jarðirnar lentu ekki í braski, með því að ríkið hefði forkaupsrétt að jörðunum, ef þær væru seldar aftur, og þá með vissu verði, þannig að þær þyrftu alls ekki að lenda í braski fyrir það. — Við hv. 8. landsk. þm. vil ég segja það, að ég er dálítið undrandi yfir því, hvað hann gerir lítinn mun á því að reka búskap í sveit og yrkja jörð eða búa í glæsilegu og góðu húsi sem embættismaður ríkisins. Hann vildi segja, að ef ábúendum þjóð- og kirkjujarða væri gefin heimild til þess að kaupa ábýlisjarðir sínar, þá mætti með sama rétti gefa embættismönnum ríkisins leyfi til þess að kaupa embættismannabústaðina fyrir fasteignamatsverð. En þetta er nú dálítið mikill eðlismunur. Jörð er jörð, og hús er hús. Embættismaðurinn endurbætir ekki húsið á sinn kostnað. Hann aðeins býr í húsinu. Bóndinn á þjóð- og kirkjujörð er ef til vill búinn að margfalda verðmæti jarðarinnar með því að hafa ræktað hana og endurbætt á ýmsan hátt og lagt fram vinnu frá sér í því skyni, sem hann hefur ekki fengið greidda nema að litlu leyti, og væri farið að skrúfa upp verð á jörðinni til bóndans, yrði bóndinn að kaupa það, sem hann sjálfur hefur lagt fram til ágóða fyrir jörðina.

Það var alveg óþörf spurning hjá hv. ræðumanni, þegar hann spurði að því, hvort við flm. hefðum gert okkur grein fyrir því, að það væri töluverður munur á fasteignamatsverði og söluverði. Undir mörgum kringumstæðum getur sá munur verið mikill, undir vissum kringumstæðum er hann lítill. Munurinn á söluverði jarða og fasteignamati jarða í sveitum getur verið ákaflega lítill, eftir því, hvernig jörðin er í sveit sett, eftir því, hvort það þykir eftirsóknarvert að búa á þessari jörð. Hv. ræðumanni er kunnugt um það, að ýmsar jarðir eru þannig settar, að þær hafa farið í eyði, og þær jarðir eru alls ekki seljanlegar fyrir fasteignamatsverð, hvað þá meira. Það er vitanlega alveg tilgangslaust að hugsa sér að reka landbúnaðarpólitík þannig að selja ábúanda jörðina á slíku okurverði, að hann um aldur og ævi risi ekki undir skuldabagga, sem hann hleður á sig með því að kaupa jörðina. Með því móti er verið að gera bóndann óstarfhæfan og ómegnugan til þess að halda áfram landnámi og umbótum á jörðinni. Ég hefði getað búizt við ýmsu frá þessum hv. ræðumanni, en alls ekki því, að hann gæti gert samanburð á því að reka búskap í sveit og yrkja jörð og því að vera embættismaður hjá ríkinu, tryggður um lífstíð og búa þar í fínu húsi, sem ríkið skaffar embættismanninum.

En till. þessi kemur til nánari athugunar. Ég tel, að þó að lög um ættaróðal og erfðaábúð séu fyrir hendi, þá sé ekki síður ástæða til að gera mönnum, sem búa á þjóð- og kirkjujörðum, fært að fá þær jarðir keyptar án þess að vera skuldbundnir því að gera jarðirnar að ættaróðali, og ég spyr: Hvers vegna eru tiltölulega fáar jarðir í dag komnar undir þessi lög? — Það er eitthvað í veginum með það, eitthvað, sem hefur tafið þá framkvæmd. — Ég ætla svo ekki að segja meira að svo stöddu.