05.02.1953
Sameinað þing: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (2727)

215. mál, Hótel Borg

Pétur Ottesen:

Ég verð mjög að taka undir það með hv. þm. Barð., að mér finnst, að þetta mál beri hér harla einkennilega að. Það er verið að ljúka hér fundi í Sþ., og einmitt í þeirri sömu andrá sem hæstv. forseti er að slíta fundinum, þá er útbýtt nýju þskj., og hæstv. forseti lýsir jafnframt yfir, að fundur verði settur þá þegar að loknum þessum fundi, sem ekkert er við að athuga út af fyrir sig, því að slíkt er oft gert. En þegar þess er gætt, að á þeim fundi er tekið fyrir það sama þskj. sem útbýtt er, þegar verið er að slíta fundinum, þá brýtur þetta algerlega í bága við þingvenjur, — sennilega venju, sem gilt hefur á Alþ. síðan það var endurreist, því þegar svo ber að, að fundur er settur að nýju, þá er það ekki, svo að ég muni til, nokkurn tíma gert, nema þá til þess að ljúka þeim málum, sem verið hefur verið með og hraða þarf af einhverjum sérstökum ástæðum. En að taka fyrir nýtt mál, sem enginn þm. hefur áður augum litið fyrr en á þeirri sömu stundu sem fundinum er slitið, slíkt er alger nýlunda. Ég verð að segja það, að alþm. ber skylda til að vera það fastir í formum um reglur, er snerta málsmeðferð á Alþ., að þeir láti ekki bjóða sér upp á slíkt, því að til þess eru mál lögð fyrir á Alþ.,alþm. á að gefast til þess fullkomið tóm að gera sér grein fyrir efni og innihaldi þessara mála, áður en þeir greiða um þau atkv. En að ætlast til þess, að ekkert slíkt tóm gefist, eins og hér er ætlazt til, og leggja þetta mál svona gersamlega fyrirvaralaust fyrir og heimta svo sennilega atkv. um það á þeirri sömu stundu, slíkt er aðferð, sem Alþ. ber nauður til að taka fyrir, að nokkrum forseta leyfist að beita gagnvart þm. Þess vegna mótmæli ég alveg gersamlega þessari aðferð, sem hér er viðhöfð um framlagningu þessa máls.