06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

215. mál, Hótel Borg

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þetta mál almennt, enda er nú sýnt, að málið fær enga venjulega afgreiðslu, af því að það líður að þinglokum. En vegna þess að hæstv. dómsmrh. er veikur í dag, vil ég, að það komi skýrt fram, að á frumstigi þessa máls, þ. e. a. s. snemma þings og a. m. k. löngu áður en ég fór utan, — en ég fór utan í byrjun desembermánaðar, — þá tilkynnti hann ríkisstj., að ef ekki yrði samþ. það frv. um áfengislöggjöf, sem lagt var fyrir Alþ., í einu eða öðru formi eða ef Alþ. gæfi ekki skýr fyrirmæli um framkvæmd áfengislöggjafarinnar, þá mundi hann gera þær ráðstafanir, sem hann nú hefur gert, svo að það gat engum af ráðherrunum komið á óvart og þá væntanlega ekki heldur neinum af stjórnarflokkunum, þó að ég kunni ekki um það að fullyrða. Ég tel miður farið, að þingið gengur ekki frá málinu á eðlilegan hátt, og ég hefði fyrir mitt leyti — og hef ekkert farið dult með það talið þessu máli bezt borgið eftir atvikum, að óbreytt hefði haldizt sú skipan, sem áður var, þar til Alþ. setti um þetta löggjöf. Þess verður sýnilega ekki auðið, og þá er ekki um það við þá að sakast, sem þá lausn hafa kosið, og verða þá þeir að bera ábyrgð sinna gerða, sem hafa staðið fyrir afgreiðslu málsins eins og það nú liggur fyrir.