15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

53. mál, kjötútflutningur til Bandaríkjanna

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er vafasamt, hvort rétt er, að ég svari þessari fsp., því að það tilheyrir frekar þeim ráðh., sem veitir útflutningsleyfi fyrir þessum útflutningi, sem er atvmrh. En þar sem hann er nú ekki hér viðstaddur og þetta mál snertir mjög landbúnaðinn, þykir rétt, að ég svari þessari fyrirspurn.

Ráðuneytið hefur ritað bréf til Sambands ísl. samvinnufélaga, sem flutti þetta kjöt út, og spurzt fyrir um það, hvort það óskaði eftir að svara þessari fsp., því að sjálfsögðu er það þeirra að ákveða það. Þeir hafa svarað því bréfi og tjáð, að ekkert væri því til fyrirstöðu. Er bréf þeirra frá 10. þ. m. þannig:

„Bréfi hins háa ráðuneytis, dags. 9. þ. m., varðandi kjötútflutning til Bandaríkjanna, svörum við þannig:

Samið var í september 1951 um sölu á og flutt út alls 701,1 tonn af dilkakjöti. Söluverðið var 45 og 46 cent pr. lbs. í heilum skrokkum og 67.5 cent í lærum cif. New York, samtals $ 699.735,75, skv. faktúrum vorum með kjötinu. Andvirði 503.4 tonna, sem flutt var út í október, $ 503.614,50, var greitt gegn farmskjölum og yfirfært til Landsbanka Íslands, en andvirði 197.7 tonna, sem seld voru vestur í febrúar s. l., $ 196.121,25, er enn ógreitt.

Nánari greinargerð um þetta mál er að finna í blaðagrein eftir bréfritarann, sem birtist í Tímanum, Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum í dag, og fylgir hér með afrit af henni.

Virðingarfyllst,

Samband íslenzkra samvinnufélaga,

Helgi Pétursson.“

Hann er framkvæmdastjórinn, sem hefur með útflutninginn að gera.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta frekar með því að lesa upp úr þessum blaðagreinum, a. m. k. ekki að ráði, enda fengin nægileg svör við því, sem um er spurt. En í blaðagreininni er endurtekið og skýrt nokkru nánar frá þessum útflutningi. Þar segir:

„Á árinu 1951 voru flutt til Bandaríkjanna í janúar 148.6 tonn, í febrúar 53.6 tonn, í maí 202 tonn, okt. 503.4 tonn, eða samtals 905 tonn. Allar þessar sendingar voru sendar vestur samkv. fyrir fram gerðum samningum. Allar voru þær greiddar gegn farmskjölum við afhendingu í New York og full gjaldeyrisskilgerð tafarlaust hverju sinni. En á yfirstandandi ári voru flutt út 197.7 tonn í febrúar. Þessi sending var flutt vestur samkv. samningi, sem gerður var í september 1951.“ En það er vitað mál, að það stóð mjög á því, að útflutningsleyfin væru veitt, og skal ekki orðlengt um það hér í þessu sambandi, en svo segir áfram: „En innlausn farmskjalanna brást vegna verðlækkunar á kjöti, er orðið hafði í millitíð. Afleiðing þess varð sú, að finna varð nýja kaupendur að kjötinu, og á lækkandi markaði þarf að gæta allrar varúðar til þess að spilla ekki fyrir vörunni í framtíðinni. Að sjálfsögðu er líka reynt að nota þennan slatta til að kanna sem flesta möguleika og finna sem traustastan grundvöll til þess að byggja á söluna í framtíðinni.“

Það er þess vegna ljóst, að þessi fsp., sem virðist vera sprottin af blaðagrein, sem skrifuð var í nýtt blað, sem byrjað hefur verið á að gefa út hér í bænum, hefur auðsjáanlega gert ráð fyrir annarri niðurstöðu, en ég hef hér sýnt fram á, því að í blaðagreininni, sem gefið mun hafa tilefni til fsp., stendur: „Kjötsalan til Ameríku 1951. — Ókomin greiðsla fyrir 847.1 smál. af kjöti, að upphæð 12.3 millj. kr.“ o. s. frv.

Ég skal nú ekki orðlengja frekar um þetta og vænti þess, að þessu sé nægilega svarað með því, sem ég hef sagt.