15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2750)

53. mál, kjötútflutningur til Bandaríkjanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég satt að segja skil ekki þann þjóst, sem er í hæstv. landbrh. í sambandi við þetta tiltölulega einfalda mál, sem hér er til umr. Hvers vegna þurfa landbúnaðarmálin að vera eins konar feimnismál hér á Alþ., mál, sem þarf að ræða með einhverjum alveg sérstökum hætti og með sérstökum málblæ, mér skilst jafnvel með sérstökum svip, til þess að þóknast hæstv. ráðh.? Þetta finnst mér furðuleg afstaða. Hver er að ófrægja landbúnaðinn, ófrægja bændastéttina og ófrægja S. Í. S. í þessu sambandi? Ekki eitt orð í fsp. gefur minnsta tilefni til slíkra ályktana. Ekki eitt orð, sem hv. fyrri fyrirspyrjandi sagði, gaf nokkurt minnsta tilefni til slíkra staðhæfinga.

Hvernig getur hæstv. ráðh. verið hissa á því, að spurt sé um það mál, sem hér er til umr.? Man hæstv. ráðh. ekki þær umr., sem fóru hér fram í fyrra varðandi kjötútflutninginn til Bandaríkjanna í tilefni af því, að nokkrir hæstv. ráðh. og forráðamenn úr verzlunarsamtökum bænda höfðu skýrt frá því, að mjög mikill markaður hefði opnazt skyndilega í Bandaríkjunum fyrir sölu á kjöti og tilætlunin væri að flytja út til Bandaríkjanna allmikið kjötmagn, þótt vitað væri, að mikill kjötskortur væri í landinu og yfirvofandi enn meiri? Látum þetta allt saman vera. Það er auðvitað ekkert við það að athuga, þótt gerð sé tilraun til þess að afla markaða erlendis fyrir jafnmikilvæga framleiðsluvöru og íslenzka dilkakjötið óneitanlega er. En það, sem vakti sérstaka athygli í fyrra í sambandi við þetta útflutningsmál, var, að frá verðlagsyfirvöldum bænda höfðu komið fram tilmæli — beinar kröfur um, að vegna þess að verðlagið í Bandaríkjunum væri hærra, en verðlagið hér innanlands, þ. e. a. s. vegna þess, að bændur fengju meira fyrir það kjöt, sem flutt væri til Bandaríkjanna, heldur en þeir fengju fyrir það kjöt, sem selt væri hér innanlands, þá ætti verðlagið innanlands að hækka af þessum sökum. Um þetta mál urðu snarpar deilur, bæði hér á Alþ. og í blöðum, og svo fór, að fulltrúar í verðlagssamtökum bænda féllu frá þessari kröfu sinni. Þeim var bent á það, m. a. hér á Alþ. af mér, að væri þetta rétt, að verð á kjöti í Bandaríkjunum væri hærra eða útflutningurinn skilaði hærra verði til bænda hér heldur en kjötsala innanlands, þá ætti verð á innanlandsmarkaðinum að lækka lögum samkv., en ekki hækka. Þessu varð ekki mótmælt. Nú virðist reynslan hins vegar hafa orðið sú, og það er tilefni til þessarar fsp., að verðlagið í Bandaríkjunum hafi reynzt skila íslenzkum bændum lægra verði heldur en kjötið hefði gert, ef það hefði verið selt á innanlandsmarkaði. Þetta er í svo miklu ósamræmi við þær fullyrðingar, sem fram voru bornar í fyrra, að það er hreint ekki að ástæðulausu, þótt á þetta mál sé minnzt og krafist skýrra svara um þetta efni. En þá vil ég enn fremur minna á, að samkv. gildandi l. á verðlag hér innanlands væntanlega að hækka og hækkar væntanlega á næsta ári, vegna þess að verðlag í Bandaríkjunum hefur reynzt lægra, en innanlandsverðið. Og það eru sannarlega athyglisverðar staðreyndir fyrir íslenzka neytendur, sem eru óneitanlega beztu viðskiptamenn íslenzkra bænda. Ef það er tilfellið, og það skildist mér á svari hæstv. ráðh., að kjötsalan til Bandaríkjanna hafi raunverulega skilað bændum lægra verði heim, heldur en orðið hefði, ef um innanlandssölu hefði verið að ræða, þá er óneitanlega um að ræða alvarleg mistök. Mér finnst það vera undarlegt, ef það er talin einhver ósvinna, að þessi mistök séu rædd.

Ég vil endurtaka það, að það hvarflar ekki að mér að finna að því í sjálfu sér, að gerðar séu tilraunir til þess að afla markaða fyrir íslenzkt dilkakjöt, jafnvel þótt það kosti Íslendinga í heild, bæði bændur og neytendur, eitthvert fé til bráðabirgða, og ég vil algerlega vísa því heim til föðurhúsanna, að ég hafi nokkra löngun til þess að ófrægja landbúnaðinn, hvað þá bændastéttina í heild eða S. Í. S. Ég vil einungis, að reykvískir neytendur, íslenzkir neytendur fái að vita sannleikann um þessi viðskipti eins og önnur mikilvæg viðskipti í landinu, og það var tilgangurinn með þessari fyrirspurn og annað ekki.